Á dögunum komu sjálfstæðismenn saman í Valhöll og héldu landsfund í fyrsta sinn í fjögur ár, lýðræðisveislu eins og þeir kalla það. Með réttu myndi flokkurinn halda slíka veislu á tveggja ára fresti, en honum reyndist ómögulegt að finna útfærslu á veislunni á tímum samkomutakmarkana. Lýðræðið skiptir efstu lögum flokksins ekki meira máli en svo. Skyldi engan undra þegar samband flokksins við fjölmiðla er skoðað. Öflugir fjölmiðlar eru auðvitað ein af grunnforsendum frjálsra lýðræðissamfélaga, en viðhorf sjálfstæðismanna til þeirra svipar til viðhorfs míns til köngurlóa; að nafninu til geri ég mér grein fyrir því að þær þjóna nauðsynlegu hlutverki í vistkerfinu en ef þær koma of nálægt mér traðka ég á þeim. Þannig hafa leiðtogar flokksins komið fram þegar þeir fá lögbann á umfjöllun Stundarinnar á braski fjármálaráðherra í aðdraganda hrunsins. Þegar þeir taka afstöðu með stórfyrirtækinu Samherja gegn blaðamönnum sem afhjúpuðu siðlausa hegðun þess í Namibíu. Þegar trúður þeirra, Brynjar Níelsson, er sendur út af örkinni til þess að verja linnulaust áreiti fyrirtækis sem sjálfsagðan rétt Samherja. Þegar þeir blinda myndavél fréttastofu með fasískum flóðljósum til þess að koma í veg fyrir að ógeðsleg og ofbeldisfull framkoma þeirra við blásaklausa flóttamenn er á fullu. Þegar Jón Gunnarsson neitar að svara spurningum Fréttablaðsins næsta dag og tilkynnir með hroka og yfirlæti að símtalinu sé lokið.
Og svo er klappað í Valhöll. Það er klappað fyrir Jóni og hans góða starfi. Það er klappað fyrir lýðræðisveislunni, þessari sem má alltaf bíða. Það er klappað fyrir því að nú eigi aldeilis að lækka skatta og minnka umsvif hins opinbera. Látum það eiga sig að sá sem lofar því hefur haldið um buddu hins opinbera í hartnær áratug, tímabil þar sem skattar hafa síst lækkað, tímum þar sem fjörutíu og einn lögreglumaður fylgir fimmtán manns úr landi, til þess að henda þeim úr landi. Látum það alveg eiga sig. Þeir fá sér bóluefni við kommúnisma úr tvö þúsund plastsprautum, þar sem fjölnota glas hefði vel dugað, til þess að hafa það á kristaltæru hver umhverfisstefna flokksins er. Bóluefni við kommúnisma, svo vandaður brandari að mér skilst að ræsa hafi þurft út aukavakt til þess að skúra gólfin eftir að tvö þúsund flokksmenn pissuðu gjörsamlega á sig af hlátri.
Og svo er klappað. Það er klappað fyrir frelsinu. Meira frelsi hrópa þeir, eins og í gamalli símaauglýsingu. Meira frelsi hrópa þeir og seinna það sama kvöld er lögreglubíll ræstur út til þess að handtaka mann fyrir að reykja jónu í Hlíðahverfi. Það var ekki mannekla hjá lögreglunni það kvöld, málaflokkur hverrar heyrir undir flokksmann þann sem átti sérstaklega gott klapp skilið í veislunni. Meira frelsi. Það er meira að segja framin húsleit heima hjá stónernum þarna í Hlíðunum og þau finna eitthvert smá dóp. Gott böst. Flokksmenn hafa væntanlega fagnað því að hafa beitt sér gegn afglæpavæðingu neysluskammta þegar þessi harðsvíraði krimmi náðist af götunni. Þegar hann var sviptur frelsi, eins og er jafnan gert við fíkla. Frelsið er ekki fyrir alla. Frelsið er flokksmenn.
Athugasemdir (2)