Norsk stjórnvöld seldu fyrr í október ný framleiðsluleyfi fyrir eldislax fyrir 3,8 milljarða norskra króna, 53,5 milljarða króna. Um var að ræða 25,4 þúsund tonn af nýjum leyfum til að framleiða eldislax í fjörðum Noregs. Leyfin sem seld voru í þessu uppboði í Noregi nema, til samanburðar, tæplega helmingnum af þeirri 53 þúsund tonna heildarframleiðslu á eldislaxi sem var á Íslandi í fyrra. Munurinn á Íslandi og Noregi er hins vegar sá að á Íslandi eru framleiðsluleyfin ekki seld til laxeldisfyrirtækjanna. Samt er um að ræða sömu fyrirtækin, í sumum tilfellum, sem stunda laxeldi í Noregi og Íslandi, meðal annars Salmar AS og Norway Royal Salmon.
Fjallað hefur verið talsvert um þetta útboð norska ríkisins á laxeldiskvótum í norskum fjölmiðlum. Fyrirsögn viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv um útboðið var eftirfarandi: „Laxeldisfyrirtæki punga út 3,8 milljörðum fyrir nýjum framleiðsluleyfum.“
Ísland hefði fengið 111 milljarða
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ræddi um þetta útboð í Noregi á minnisblaði til ríkisstjórnarinnar þann 13. október síðastliðinn. Þar sagði meðal annars að fyrirætlanir norska stjórnvalda að leggja 40 prósent auðlindaskatt á norsk laxeldisfyrirtæki hefðu seinkað útboðinu þar í landi um tvær vikur. Svandís benti á það að vegið meðalverð í útboðinu væri 2,1 milljón íslenskra króna á tonn.
Ef þau 53 þúsund tonn af eldislaxi sem voru framleidd á Íslandi í fyrra hefðu verið seld á uppboði með sams konar hætti og í Noregi þá hefðu íslensk stjórnvöld fengið rúmlega 111 milljarða króna fyrir þessi framleiðsluleyfi.
„Eins og áður segir er matvælaráðuneytið í umfangsmikilli stefnumótun í fiskeldi til þess einmitt að skapa þessi skilyrði til lengri tíma“
Ekki hefur hins vegar staðið til að taka upp þetta uppboðsfyrirkomulag á framleiðsluleyfum í laxeldi á Íslandi, líkt og í Noregi.
Vinna við endurskoðun kerfisins í gangi
Matvælaráðherra hefur hins vegar boðað að endurskoðun á laga- og regluverki í laxeldi á Íslandi sé til skoðunar.
Í byrjun október sagði hún við Stundina að vegna þess hversu laxeldi hefði vaxið hratt á Íslandi væri mikilvægt að huga að regluverkinu: „Af þeim sökum er afar mikilvægt að reglusetning og stefna stjórnvalda í málefnum tengd fiskeldi séu með þeim hætti að greinin byggist upp á forsendum sjálfbærni, enda sé það til þess fallið að skapa mest verðmæti fyrir land og þjóð og uppfylla þau skilyrði að greinin geti starfað í sátt við samfélagið. Eins og áður segir er matvælaráðuneytið í umfangsmikilli stefnumótun í fiskeldi til þess einmitt að skapa þessi skilyrði til lengri tíma.“
Í áðurnefndu minnisblaði matvælaráðherra kynnti hún meðal annars breytingar á framleiðslugjaldi í laxeldi í Færeyjum ættu að skila landinu auknum tekjum upp á 1.4 milljarða króna. Framleiðslugjaldið í sjókvíaeldi á Íslandi er byggt upp á sömu aðferðafræði og í Færeyjum. Heildartekjur Færeyinga af þessu framleiðslugjaldi í laxeldi er 6.3 milljarðar króna á ári.
Svandís nefndi hins vegar ekki í minnisblaðinu þá hugmynd að Íslendingar tækju upp upppboðskerfi á framleiðsluleyfum í laxeldi líkt og í Noregi.
788 milljóna króna gjöld
Í yfirliti endurskoðendafyrirtækisins Deloitte um fiskeldi á Íslandi, sem kynnt var á mánudaginn á árlegum sjávarútvegsdegi, var meðal annars fjallað um þau opinberu gjöld sem fiskeldisiðnaðurinn greiðir. Þar kom fram að í fyrra hefðu þessi gjöld numið 788 milljónum króna í heildina. Þar af var auðlindagjald upp á 151 milljón króna.
Þetta sýnir meðal annars muninn á gjaldtöku í sjókvíaeldi á Íslandi og í Noregi: Framleiðsluleyfin eru seld dýrum dómum í Noregi og til stendur að innleiða 40 prósent auka auðlindaskatt í laxeldi þar í landi, eins og áður segir.
Á kynningu Deloitte kom einnig fram að heildarframleiðsla í fiskeldi á Íslandi hefði vaxið um 12.500 tonn á milli áranna 2020 og 2021. Ef sama verð og fékkst fyrir kvótann á uppboðinu í Noregi er sett á þessa framleiðsluaukningu á aukningu á Íslandi þá er útkoman sú að þessi framleiðsluleyfi hefðu verið seld fyrir rúma 26 milljarða króna í Noregi.
Ef horft er til þess hversu mikið framleiðsluleyfi fyrir hámarks leyfilegan lífmassa samkvæmt leyfum allra laxeldisfyrirtækja í sjókvíaeldi á Íslandi myndi kosta í Noregi þá er sú tala vel yfir 200 milljarða króna. Samkvæmt Mælaborði fiskeldis, sem Matvælastofnun rekur, þá er leyfilegur hámarkslífmassi fyrir laxeldi í sjókvíum við Ísland 101.600 tonn. Verðið á framleiðsluleyfum fyrir þetta magn í Noregi myndi kosta rúmlega 213 milljarða króna í Noregi.
Á Íslandi er hins vegar engin slík gjaldtaka fyrir framleiðsluleyfin í laxeldi.
Athugasemdir (1)