Starfsfólk Bankasýslu ríkisins fóru tvívegis út að borða í boði fyrirtækja sem komu að útboði á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Í minnisblaði sem Bankasýslan hefur skilað fjárlaganefnd og birt á vefnum sínum vegna þessa kemur fram að kvöldverðarboðin hafi verið til að fagna frumútboði á hlutum í Íslandsbanka, sem lauk í júní árið 2021. Sömu aðilar sáu um lokað útboð á 22,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum í mars síðastliðnum.
Fyrst var farið með fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka út að borða 24. september árið 2021 þar sem máltíðin kostaði 34 þúsund krónur per einstakling. Rúmum tveimur mánuðum síðar, 30. nóvember, fóru starfsmennirnir aftur út að borða með einstaklingum sem allir höfðu fjárhagslegan hag af sölunni; það er fulltrúum þriggja umsjónaraðila, tveggja fjármálaráðgjafa og þriggja lögfræðilegra ráðgjafa. Kostnaðurinn, 48 þúsund krónur á hvern einstakling, var greiddur af umsjónaðilum útboðsins; Citibank, Íslandsbanka og JP Morgan.
Stundin hefur síðustu mánuði óskað upplýsinga frá Bankasýslunni um gjafir í tengslum við útboð bankans, síðast fyrir ellefu dögum, þann 29. september síðastliðinn. Þeim fyrirspurnum hefur ekki verið svarað eða vísað til þess að minnisblað væri í vinnslu um málið fyrir fjárlaganefnd. Nefndið hafði óskað eftir minnisblaði í kjölfar þess að forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslunnar fóru á opinn fund nefndarinnar þar sem forstjórinn var spurður út í gjafir og málsverði.
„Við fengum einhverjar vínflöskur og flugeld, konfektkassa, en svo eigum við náttúrulega hádegisverði og kvöldverði með ráðgjöfum og svo framvegis, en það er ekkert annað,“ sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á fundinum.
„Frá vini forstjóra, sem starfar hjá fjármálafyrirtæki Flugeldur. Kostnaður var um 2.500 kr. Þetta hefur verið staðfest sem vinagjöf af viðkomandi einstaklingi.“
Til viðbótar við áðurnefnda kvöldverði kemur fram í minnisblaði Bankasýslunnar til fjárlaganefndar að starfsfólk hafi fengið vín, konfekt og kokteilasett að gjöf. Áður hefur komið fram að einn flugeldur hafi borist á skrifstofu stofnunarinnar. „Ég fékk flugeldinn hingað á skrifstofuna í Bankasýsluna (á milli kl. 16 og 17) á gamlársdag, þar sem ég var að vinna. Þetta var miðlungs raketta,“ sagði bankasýslustjóri í skriflegu svari til Stundarinnar um það í maí.
Í minnisblaðinu nú segir að þetta hafi hinsvegar verið gjöf frá vini Jóns Gunnars og ætluð honum. „Frá vini forstjóra, sem starfar hjá fjármálafyrirtæki Flugeldur. Kostnaður var um 2.500 kr. Þetta hefur verið staðfest sem vinagjöf af viðkomandi einstaklingi,“ segir í minnisblaðinu.
Aðrar gjafir sem taldar eru upp í minnisblaðinu eru:
- Frá ACRO verðbréfum: Vínflaska. Kostnaður var um 4.000 kr.
- Frá Íslenskum verðbréfum: Tvær vínflöskur. Samtals kostnaður var um 8.000 kr.
- Frá Landsbankanum: Konfektkassi. Kostnaður var 4.067 kr.
- Frá lögmannsstofunni BBA/Fjeldco: Kokteilasett. Kostnaður við hverja jólagjöf var um 20 þúsund kr.
- Frá verðbréfmiðlun og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka: Stöðluð jólagjöf bankans til stærri viðskiptavina þessara deilda. Ein léttvínsflaska og smáréttir. Kostnaður við hverja jólagjöf var um 14 þúsund kr.
Allt í boði sjálfstæðisflokksins .