Íslensku mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna gruns lögreglunnar um að þeir hafi lagt á ráðin um að fremja hryðjuverk ræddu sín á milli um að myrða Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, og Gunnar Smára Egilsson, formann framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands. Þau hafa bæði verið kölluð í skýrslutöku hjá embætti Héraðssaksókanara, sem fer með rannsókn málsins.
Samkvæmt Samstöðinni, sem er fjölmiðill sem gefinn er út af aðilum tengdum Sósíalistaflokknum, voru þeim Sólveigu og Gunnari Smára sýnd samskipti mannanna þar sem rætt var um að myrða þau. „Auðvitað er óhugnanlegt að fá að vita að þessir menn hafi verið að smíða vopn og gæla við að taka mig af lífi fyrir pólitískar skoðanir og starf,“ er haft eftir Sólveigu Önnu á vef Samstöðvarinnar.
Samskipti grunaðra af Signal
Samskiptin sem borin voru undir Gunnar Smára og Sólveigu Önnu höfðu farið í gegnum dulkóðaða samskiptaforritið Signal. Í samtali við Stundina segist Gunnar Smári hafa fengið að sjá skilaboðin í síðustu viku. Þar hafi verið rætt um að myrða hann á veitingastað þar sem hann var að borða með fimmtán ára gamalli dóttur sinni.
„Þarna voru lesin upp fyrir mig samskipti þar sem maðurinn talar um að vera inni í sama rými og ég, þar sem hann notar eitthvað orðalag svipað og því að vilja vera „packed“. Síðan var talað um að það að drepa mig og fleiri myndi verða til þess að þeir myndu fljúga inn á þing,“ segir Gunnar Smári. Að vera „packed“ vísar í þessu samhengi til þess að vera vopnaður.
„Þarna voru lesin upp fyrir mig samskipti þar sem maðurinn talar um að vera inni í sama rými og ég, þar sem hann notar eitthvað orðalag svipað og því að vilja vera „packed“.“
Nýlega greindi Gunnar Smári frá hótunum sem honum bárust fyrr á árinu frá manni sem sagðist ætla að beita vopnum á Sósíalistaleiðtogann og fjölskyldu hans. Í hótun sinni til Gunnars Smára kallaði maðurinn sósíalista „siðblind helvíti“.
Fáleg viðbrögð við hótunum
Frásögn Gunnar Smára opinberlega kom í kjölfar þess að rúður voru brotnar á skrifstofu flokksins í Reykjavík. Viðbrögð aðstoðarmanns dómsmálaráðherra vöktu athygli en hann sagði að kvart Gunnars Smára um haturorðræðu vera „eins og að síbrotamaður kvarti yfir því að einhver hafi stolið af honum einni krónu“.
Gunnar Smári segir að samskiptin sem undir hann voru borin hafi minnt sig á talsmáta liðsmanna Proud boys í Bandaríkjunum. „Sem eru heilaþvegnir af því að sósíalismi sé uppruni alls ills og fólk sem heldur fram sósíalískum skoðunum sé utan við samfélagið og megi því skaða,“ segir Gunnar Smári.
„Svona er umræðan í þjóðfélaginu. Þegar ég sagði frá þessu kom aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og sagði að ég hefði kallað þetta yfir mig. Við erum komin í Trumpland. Þar sem stjórnmálamenn eru að senda svona skilaboð út í samfélagið. Þetta er sjúkt ástand.“
Sjallarnir ERU Trumpistar og haga sér eins og slíkir hvar sem þeir koma því við. Þetta fólk er gjörsamlega siðblint og á ekki að komast nálægt valdastöðum af nokkru tagi.