Hópur Rússa sem búsettir eru á Íslandi kom saman í hádeginu í dag við sendiráð Rússlands í Garðastræti. Vildi hópurinn koma afmælisgjöf til Valdimírs Pútín Rússlandsforseta til skila en hann er sjötugur í dag. Afmælisgjöfin var táknræn ávísun á flugmiða fyrir forsetann til Haag í Hollandi, þar sem alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er staðsettur.
Á ávísuninni segir: „Til hamingju með afmælið herra forseti. Til Vladimír Pútín frá Rússum, í tilefni allra þeirra glæpa sem hann hefur framið gegn úkraínsku þjóðinni og gegn þegnum í eigin landi. Við óskum þér langs og óhamingjusams lífs í fangelsi.“
Á flugmiðanum er nafn Pútíns tilgreint og flugtíminn sagður vera klukkan 12.35 í dag. Samkvæmt miðanum er Pútín ætlað sæti 1A á forsetafarrými í flugi HUI 666. Talan 666 er í sögulegu samhengi alla jafna sögð vera tala djöfulsins.
„Við óskum þér langs og óhamingjusams lífs í fangelsi“
Enginn sendiráðsstarfsmaður kom til að veita afmælisgjöf Pútíns móttöku og brugðu mótmælendur á það ráð að skila henni í póstkassa sendiráðsins. Mótmælendur veifuðu hvítbláum fána sem er tákn rússnesks andófsfólks gegn innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Ástæðan fyrir því að ekki er rauður litur í fánanum, eins og á hefðbundnum fána Rússlands, er sú að með því að vill andófsfólk fjarlægja sig frá ofbeldi og blóði.
Utanríkisráðuneytið segir Pútín bera alla ábyrgð
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn opnaði fyrir rannsóknir á stríðsglæpum í Úkraínu 2. mars síðastliðinn, tæpri viku eftir innrás Rússa í landið. Þá þegar hafði dómstólinn fengið tilvísanir frá 39 löndum, þar á meðal Íslandi, um að rannsaka þyrfti mögulega stríðsglæpi í landinu.
Innrás Rússa í Úkraínu hefur sætt gríðarlega harðri gagnrýni og hefur hún aukist hægt og bítandi innan Rússlands eftir því sem á stríðið hefur liðið. Sú gagnrýni hefur orðið enn ljósari frá því að Pútín tilkynnti herkvaðningu í Rússlandi 21. september síðastliðinn. Rússar hafa farið halloka gegn Úkraínumönnum víða í bardögum síðustu vikur, einkum í Kharkív-héraði, sem enn hefur aukið á gagnrýnina heima fyrir. Þá hefur alþjóðasamfélagið lýst því yfir að atkvæðagreiðslur sem fram fóru í fjórum héruðum í Úkraínu, Donetsk, Luhansk, Zaporizhizia og Kherson, séu marklausar, brjóti gegn alþjóðalögum og að innlimun héraðanna í Rússland sé ólögleg og verði ekki viðurkennd.
Utanríkisráðuneyti Íslands kallaði sendiherra Rússlands hér á landi, Mikhaíl Noskov, á sinn fund 3. október síðastliðinn þar sem fordæming Íslands á tilraunum Rússlands til að innlima úkraínsk landssvæði var áréttuð. Sú framganga, auk óábyrgra hótana um beitingu kjarnavopna væri óásættanleg. Pútín bæri alla ábyrgð á hinu grimmlega árásarstríði og það væri undir honum komið að binda á það enda. Það var í fimmta sinn sem sendiherranum er stefnt í utanríkisráðuneytið síðan innrásin var gerð í byrjun árs.
Athugasemdir (1)