Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingkona Framsóknarflokksins, spurði matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, gagnrýnna spurninga um laxeldi í sjókvíum í síðustu viku. Varaþingkonan settist á þing í sex daga fyrir Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, frá 16. til 22. september og lagði fram fyrirspurn til ráðherra um laxeldi á þessum tíma.
Inntakið í spurningum Brynju var meðal annars að inna ráðherra eftir viðbrögðum hennar við hættunni á erfðablöndun milli norsku eldislaxanna í sjókvíum við Ísland og villtra íslenskra laxa. Þá vill Brynja einnig að matvælaráðherra beiti sér fyrir að setja upprunamerkingu á þann eldislax sem seldur er á Íslandi.
„En það er kannski bjútíið við það að fá inn nýtt og ferskt fólk og við megum vera með alls konar skoðanir“
Eitt af því sem er áhugavert við þessa fyrirspurn Brynju Dan er að hún kemur frá varaþingmanni Framsóknarflokksins, flokks sem situr í ríkisstjórn með flokki matvælaráðherra, Vinstri grænum. Aðspurð um hvernig þessa fyrirspurn bar að segir Brynja Dan að um sé að ræða persónulegt hugðarefni hennar og að hún hafi sjálf ákveðið að leggja fyrirspurnina fram. „Þetta er bara ég. Ég hef alltaf haft áhuga á dýravelferð og hef beitt mér í þeim málaflokki.“
Þingflokkurinn upplýstur
Fyrirspurnin kemur því beint frá Brynju sjálfri en ekki frá þingflokknum. Stundum er það þannig að fyrirspurnir eru unnar inni í þingflokkum sameiginlega og svo setur einhver þingmaður þær fram. Svo var ekki í þessu tilfelli.
Brynja segir að fyrispurn hennar hafi samt verið til umræðu í þingflokknum áður en hún var sett fram. „Það voru engin átök inni í flokknum og allir upplýstir. Flokkurinn minn hefur ekki verið þarna. En það er kannski bjútíið við það að fá inn nýtt og ferskt fólk og við megum vera með alls konar skoðanir. Þetta er mín skoðun. Ég átti í góðu samtali við Ásmund Einar [Daðason] og það var búið að láta Sigurð Inga [Jóhannsson] vita og það voru allir meðvitaðir um stöðu mála,“ segir Brynja.
Aðspurð um hvort fyrirspurnin endurspegli líka skoðanir Ásmundar Einars á laxeldi segir Brynja. „Ég get ekki tjáð mig fyrir hans hönd en hann styður mig bara í einu og öllu veit ég.“
Spurningar Brynju Dan
Spurningarnar sem Brynja Dan spyr matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur að, fylgja hér á eftir.
„1. Hyggst ráðherra setja reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað eldislax sem seldur er á Íslandi? Ef ekki, hver eru rökin fyrir því að gera það ekki?
2. Telur ráðherra stöðu laxeldis á Íslandi ásættanlega með tilliti til heilbrigðis og dýravelferðar? Ef ekki, hvað telur ráðherra að hægt sé að bæta og mun hann beita sér fyrir því?
3. Telur ráðherra þörf á að bæta reglur um losun lífræns úrgangs eða frárennslisvatns í laxeldi?
4. Telur ráðherra þörf á að bregðast frekar við með einhverjum hætti vegna vísbendinga um erfðablöndun milli eldislaxa sem sloppið hafa úr sjókvíum og villtra laxastofna?“
Ráðherra hefur 15 virka daga til að svara fyrirspurninni.
Athugasemdir