Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að tekið verði upp þak á húsaleiguverð og sömuleiðis að tekin verði upp svokölluð leigubremsa hér á landi. Alls eru ríflega 70 prósent landsmanna hlynnt því að slíkar reglur verði teknar upp.
Þetta er meðal niðurstaðna í skoðanakönnun sem rannsóknafyrirtækið Maskína gerði fyrir Samtök leigjenda á Íslandi. Þar kemur fram að 71 prósent aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því að leiguþak yrði sett á húsaleigu hérlendis. Leiguþak virkar með þeim hætti að gefið er út hámarksleiguverð á húsnæði miðað við stærð þess, gæði og staðsetningu. Frekar eða mjög andvígir leiguþaki reyndust vera 13 prósent aðspurðra.
Mjög svipaðar niðurstöður fengust þegar spurt var hvort taka ætti upp leigubremsu, en þar er um að ræða viðmið um hversu mikið húsaleiga má hækka yfir ákveðið tímabil. Alls sögðust 72 prósent frekar eða mjög hlynnt því að tekin væri upp leigubremsa en 11 prósent aðspurðra sögðust því mjög eða frekar andvíg.
Meirihluti er fyrir því að tekin verði upp bæði leigubremsa og leiguþak sama hvaða tekjuhópa er um að ræða, allan aldur, kyn og búsetu. Þá er meirihlutastuðningur við upptöku beggja leiða hjá stuðningsfólki allra stjórnmálaflokka. Sömuleiðis styður meirihluti fólks aðgerðirnar óháð hvaða menntun það hefur og einnig skiptir ekki máli hvernig staða fólks er á húsnæðismarkaði; meirihluti er fyrir upptöku beggja leiða. Þó þarf ekki að koma á óvart að mestur stuðningur mælist við upptöku leigubremsu og leiguþaks hjá þeim sem eru á leigumarkaði; 84 prósenta stuðningur í fyrra tilvikinu og 88 prósenta stuðningur í hinu síðara.
Þegar horft er til tekna er mestan stuðning við upptöku leigubremsu að finna í hópi þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Af þeim sem hafa tekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði svöruðu 57 prósent þeirra því að þau væru mjög hlynnt upptöku leigubremsu og 19,5 prósent voru því fremur hlynnt. Minnstan stuðning var að finna hjá tekjuhæsta hópnum, þeim sem hafa yfir 1.200 þúsund krónur í mánaðarlaun. Alls svöruðu 37 prósent aðspurðra í þeim tekjuhóp að þau væru mjög hlynnt upptöku leigubremsu og 30 prósent voru því frekar hlynnt. Yfir tveir þriðju aðspurðra í öllum tekjuhópum reyndust mjög eða frekar hlynnt því að tekin yrði upp leigubremsa.
Niðurstöður könnunarinnar þegar spurt var um leiguþak voru svipaðar þegar greint var niður eftir tekjum. Flestir reyndust hlynntir upptöku leiguþaks í læsta tekjuhópnum, undir 400 þúsund krónum. Alls 63 prósent þeirra svöruðu því til að þau væru mjög hlynnt upptöku leiguþaks og rúm 19 prósent voru því frekar fylgjandi. Svör þeirra sem hæstar tekjurnar höfðu voru á þá leið að 36 prósent þeirra voru mjög fylgjandi upptöku leiguþaks og 27 prósent þeirra voru því frekar fylgjandi.
Því sem næst allir stuðningsmenn Sósíalista fylgjandi
Nánast allir þeir sem sögðust styðja Sósíalistaflokkinn eru fylgjandi leiguþaki og 85 prósent fylgenda Flokks fólksins og Samfylkingarinnar. Minnstan stuðning við upptöku leiguþaks var að finna hjá stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins en þrátt fyrir það reyndist yfir helmingur þeirra ýmist mjög eða frekar fylgjandi leiguþaki. Alls sögðust 28 prósent stuðningsmanna flokksins vera því mjög fylgjandi og 25 prósent voru því frekar fylgjandi.
Svipaða sögu er að segja um stuðningsfólk Viðreisnar en þar sögðust þó fleiri vera mjög fylgjandi leiguþaki, 37 prósent á meðan að 14 prósent sögðust því frekar fylgjandi. Afgerandi flestir stuðningsmenn þessara tveggja reyndust andsnúnir upptöku leiguþaks, 30 prósent í tilviki Sjálfstæðisflokks og 28 prósent í tilviki Viðreisnar. Niðurstöður þess þegar spurt var um leigubremsu reyndust svipaðar.
„Það er ljóst að meginþorri almennings vill verja leigjendur fyrir því óstjórnlega okri sem hér hefur geisað á leigumarkaði og að aðeins lítill minnihluti vill það ekki. Vandi okkar er að það er þessi minnihluti sem ræður stefnu stjórnvalda. Það er vandi leigjenda og vandi okkar samfélags,“ er haft eftir Guðmundi Hrafni Arngrímssyni, formanni Samtaka leigjenda í fréttatilkynningu um niðurstöður könnunnarinnar.
Könnunin var gerð af Maskínu fyrir Samtök leigjenda á Íslandi dagana 2. til 12. september 2022 og voru svarendur 1.249 talsins.
Athugasemdir