Fólk hefur nú, og ekki að ófyrirsynju, áhyggjur af því hvernig muni takast að koma á lífvænlegum friði eftir að vopnin þagna í stríðinu í Úkraínu — hvernig sem fer. Ljóst er til dæmis að þótt Rússar eigi sína bandamenn, þá mun þeim reynast verulega erfitt að öðlast aftur traust og vináttu langflestra Evrópuríkja og evrópskra borgara.
Þegar ég var að velta þessu fyrir mér rifjaðist upp fyrir mér svolítill kafli í bók sem ég skrifaði og kom út hjá Forlaginu 2019. Bókin heitir Úr undirdjúpunum til Íslands og fjallar um ævi Juliusar Schopka sem var þýskur kafbátamaður í fyrri heimsstyrjöld sem endaði svo á Íslandi eftir stríðið.
Í bókinni er líka fjallað í löngu máli um heimsstyrjöldina og ástandið í Þýskalandi á stríðsárunum. Í stríðsbyrjun í ágúst 1914 var sigurvissa Þjóðverja mikil og þeir hirtu ekki um fréttir þess efnis að dátar þeirra hefðu gengið fram af mikilli grimmd til dæmis í Belgíu.
Sá snöggi sigur sem þeir bjuggust við að vinna réttlætti hörkuna, hugsuðu þeir. En svo leið og beið og hinn snöggi sigur lét á sér standa.
Soltnar lýs
Þá segir í bókinni:
„Í byrjun árs 1916 voru tvær grímur farnar að renna á Þjóðverja vegna stríðsins. Farið var að bera á verulegum skorti á ýmsum matvörum og nauðsynjum vegna hafnbanns Bandamanna. Vissulega var enn vígamóður í hernum en þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar keisarans, herforingja og stjórnmálamanna um að sigur væri í nánd læddist efi að sumum.
Skorturinn og efasemdirnir fóru að bíta eins og soltnar lýs.
Kannski myndi belgingurinn og oflætið fyrir stríð hefna sín að lokum.
Í janúar 1916 var Steingrímur Matthíasson læknir á Akureyri á ferð í Þýskalandi. Hann var að kynna sér meðferð á sárum hermanna í skotgröfunum en lýsti líka í blaðagreinum lífinu og fólkinu og andrúmsloftinu í Berlín. Þar gripu menn hvaða haldreipi sem var til að gleyma erfiðleikum og reyndu til dæmis að líta á það sem stórsigur þegar fréttir bárust af því að smáríkið Montenegro á Balkanskaga leitaði friðar við Miðveldin.
Á 40 árum slokknaði ekki haturseldurinn
Montenegro eða Svartfjallaland var sjálfstætt smáríki á Balkanskaga í upphafi fyrri heimsstyrjaldar og lýsti yfir stríði gegn Þýskalandi og Austurríki í ágúst 1914, enda náið bandalagsríki Serbíu. Í janúar 1916 höfðu Austurríkismenn lagt landið undir sig og fljótlega bárust fregnir af því að Svartfellingar hefðu lyppast niður. Steingrímur læknir skrifaði í Ísafold í mars:
„Í byrjun stríðsins, meðan [Þjóðverjar] töldu sér sigurinn vísan, þá tóku þeir öllu með jafnaðargeði, þó þeir heyrðu sér hallmælt og hótað hvaðanæfa, en nú þegar líður og bíður og enginn friður er fyrirsjáanlegur, þrátt fyrir alla sigrana, þá eru flestir skynsamari og gætnari Þjóðverjar farnir að sjá sig um hönd.
Þeim blöskrar að líta á það hafrót af hatri um víða veröld, sem þeir hafa æst upp; því þó friður kæmist á að nafninu til og á pappírnum, þá vita þeir vel, að það þarf langan tíma til að lægja þann ósjó allan. Á 40 árum sloknaði ekki eldurinn í hatursglóðum Frakka eftir viðureignina 1870—71 [þegar Þjóðverjar gersigruðu Frakka í leifturstríði], og hvílíkur barnaleikur var ekki sú styrjöld í samanburði við þann ógurlega hildarleik, sem nú er háður?
300 milljónir hatara
Í stað 40 miljóna franskra fjenda og hatara, bætast þeim í búið segjum 300 miljónir eða meira, nema því að eins, að [Þjóðverjar] verði svo gersigraðir, að allur heimur hljóti að vorkenna þeim.
En skyldi ekki vera langt þangað til?
Og setjum svo — sem er enn ósennilegra — að Þjóðverjar beri sigur úr býtum, hvernig eiga þeir að vinna hjörtu fjandmanna sinna og koma á fullum og varanlegum friði?
En það er auðheyrt á flestum, sem maður talar við, að Þjóðverjar eru farnir að þrá friðinn. Þeir finna til þess að þeir eiga mikið eftir, þó margir sigrarnir séu unnir, því enn hafa þeir aldrei getað látið kné fylgja kviði svo dugi.
Það er líkt um mótstöðumenn þeirra og marghöfðaða skrímslið, sem Herkúles átti í höggi við: þegar eitt höfuðið er afhöggvið, þá vex nýtt höfuð í þess stað. Horfurnar um frið sýnast eiga langt í land.
Montenegro biður um frið!
En hver veit?— Einn daginn vöknuðu nýjar vonir um frið, og þá var uppi fótur og fit í Berlín. Það komu út auka-útgáfur af blöðunum, og hvar sem farið var um göturnar, rakst maður á kerlingar sem seldu blöðin, og allar sögðu sömu stórtíðindin:
„Montenegro bittet um Frieden“ (Montenegro biðst friðar).
Þetta evangelium [fagnaðarerindi] átti að nægja til þess, að hver fyndi ástæðu til að kaupa blað og fá frekari fræðslu. Eg keypti eitt blaðið af meðaumkun með einni vesalings kerlingunni, sem var að vinna fyrir mat sínum með blaðasölu.
Hrörlega búin og loppin af kulda stóð hún á gatnamótunum og kallaði ámátlega til hópsins, sem um götuna gekk: Montenegro bittet um Frieden! Montenegro bittet um Frieden! líkt og hún sjálf væri Montenegro, eða í öllu falli ættuð þaðan og send út af örkinni til að biðja ljónið vægðar. — […]
Enn ekki af baki dottið
Allir hrærðust til meðaumkunar með veslings Montenegro og fundu um leið til sinnar eigin mikilmensku og ágætis.
„Þetta er fyrsta byrjunin til friðar,“ sögðu þeir Berlínarbúar; „bráðum koma Serbar líka [og biðja um frið], svo Ítalir o. s. frv.“ — og flögguðu um alla borgina í tvo daga — en
„meðan að þetta mikla happ
matbjuggu og átu þankar hans,
færið bilaði, flyðran slapp
- fór hann svo búinn heim til lands.“
því seinni fréttir segja, að enn sé ekki litla Montenegro af baki dottið, hvað þá heldur hinir reiðfantarnir.“
Og sannleikurinn var sá að Svartfellingar gáfust alls ekki upp eða leituðu friðar við Þjóðverja.
En að breyttu breytanda virðist mega heimafæra ýmislegt af því sem Steingrímur Matthíasson skrifaði um Þjóðverja í Ísafold 1916 upp á Rússa 2022.
Athugasemdir