„Nefndin ákvað að fresta þar til síðar niðurstöðu sinni um meðmæli til ráðsins varðandi listann,“ segir í niðurstöðu þingmannanefndar Evrópuráðsins sem mat íslenska umsækjendur um dómaraembætti við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg. Þrír umsækjendur voru um embættið og drógu tveir þeirra, Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, og Stefán Geir Þórisson, sem er starfandi lögmaður, umsóknir sínar tilbaka eftir að þingmannanefndin hafði tekið þá í viðtal um starfið.
Samkvæmt svari frá forsætisráðuneytinu býr ráðuneytið ekki yfir upplýsingum um það af hverju þingmannanefndin frestaði ákvörðuninni.
Ein eftir
Þriðji umsækjandinn, Oddný Mjöll Arnardóttir, dró umsókn sína ekki til baka eftir viðtalið sem hún fór í. Oddný Mjöll er eini umsækjandinn sem er starfandi dómari og sem er með doktorsgráðu í lögfræði.
Ísland er með einn starfandi dómara við Mannréttindadómstól Evrópu hverju sinni. Um þessar mundir er Róbert Spanó fulltrúi Íslands við dómstólinn en skipunartíma hans lýkur í haust og má hann ekki gegna embættinu lengur samkvæmt reglum dómstólsins.
Oddný Mjöll vildi ekki ræða við Stundina um málið þegar eftir því var leitað. Stundin hefur ekki náð tali af þeim Jónasi Þór Guðmundssyni og Stefáni Geir Þórissyni í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
„Þjóðríki eiga, ef nauðsynlegt þykir, að íhuga að grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja að nægjanlega margir hæfir umsækjendur sækist eftir starfinu svo valnefndin geti lagt fram ásættanlegan lista af kandídötum til embættisins“
Endurtaka umsóknarferlið
Embætti dómara frá Íslandi við Mannréttindadómstólinn var auglýst í lok síðasta árs. Forsætisráðuneytið, nánar tiltekið skrifstofa jafnréttis og mannréttindamála, sér um að auglýsa starfið og heldur utan um ferlið fyrir Íslands hönd. Einungis þrír umsækjendur voru um stöðuna. Þar af sótti Oddný Mjöll Arnardóttir aftur um en hún sótti einnig um starfið árið 2013 þegar Róbert Spanó var valinn sem dómari fyrir Íslands hönd. Oddný hafði því áður gengið í gegnum þetta ferli nú þegar hún fór í viðtalið. Í kjölfar þess er hún eini umsækjandinn sem ekki hefur dregið umsókn sína til baka.
Í kjölfarið á því að þingmannanefndin ákvað að fresta því að senda umsóknirnar þessara þriggja aðila frá Íslandi áfram til Evrópuráðsins þarf forsætisráðuneytið að auglýsa embættið aftur. Ein af spurningum er því hvort Oddný Mjöll sæki um aftur eða ekki og þá hvaða aðrir umsækjendur munu koma fram til að hægt verði að skipa nýjan íslenskan dómara.
Reglurnar um skipan á dómurum við Mannréttindadómstólinn eru nokkuð stífar.
Í þeim er kveðið á um að umsækjendur þurfi að búa yfir tiltekinni þekkingu á, skilyrði um tungumálakunnáttu og að viðkomandi þurfi að vera siðlegir. Svo segir meðal annars að þjóðríki verði að tryggja það að umsækjendurnir um starfið séu hæfir til starfans: „Þjóðríki eiga, ef nauðsynlegt þykir, að íhuga að grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja að nægjanlega margir hæfir umsækjendur sækist eftir starfinu svo valnefndin geti lagt fram ásættanlegan lista af kandídötum til embættisins.“
Athugasemdir