Eitt það hættulegasta sem gerist í lýðræðisríkjum er þegar öfgastefnur verða ofan á og lýðskrum ræður ríkjum. Getan til að gera málamiðlanir er það sem liðkar fyrir tannhjólum stjórnkerfisins. Að þessu leyti eru Vinstri græn orðin smurolía lýðræðisins.
Við höfum öll séð þetta gerast, þegar stjórnmálaflokkar fara stál í stál og beita öllum brögðum hver gegn öðrum. Nærtækasta dæmið er Donald Trump og tilraun hans til að ala á öfgum til að kollvarpa bandarísku lýðræði og fá þannig sínu framgengt.
Vinstri græn, hins vegar, leggja ekki alla áherslu á að fá sínu framgengt. Það er í því samhengi lofsvert.
VG færir virkjanakosti úr verndarflokki
Í vikunni var ný rammaáætlun samþykkt á Alþingi, eftir að hafa beðið samþykkis Alþingis í sex ár. Í stuttu máli leggur verkefnisstjórn rammaáætlunar til að flokka hugsanlega virkjanakosti í verndarflokk, biðflokk eða nýtingarflokk með hagsmunamati, eftir að hafa leitað samráðs.
Vinstri græn, ásamt ríkisstjórnarmeirihlutanum, ákváðu að gera þær breytingar að tveir virkjanakostir, Kjalölduveita við Þjórsárver og Héraðsvötn í Skagafirði, yrðu ekki lengur í verndarflokki heldur færu í biðflokk til mats á mögulegri nýtingu.
„Vernd jökulsánna í Skagafirði og annarra dýrmætra náttúruvætta landsins var eitt af þeim málasviðum sem Vg var stofnað um í upphafi,“ sagði Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra flokksins, af því tilefni.
„Þingmaðurinn segir nei,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, um tillögu þess efnis að Héraðsvötn og Kjalölduveita í Þjórsá væru áfram í verndarflokki frekar en að verða virkjunarkostir í biðflokki. „Hér er biðleikur í náttúruvernd,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra VG og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, sem taldi gagnrýni á tiltækið vera lýðskrum.
Aðrir gætu hins vegar sagt að með því að snúa baki við upphaflegum tilgangi sínum hafi Vinstri græn þjónað þeim tilgangi að stuðla að forsendum fyrir orkuskiptum, með því að skapa orku fyrir rafmagnsbíla. Eins og sagt var um Kárahnjúkavirkjun, jarðveginn sem VG spratt úr, þá er viss umhverfisvernd að reisa vatnsaflsvirkjun.
Um leið og verið er að virkja til að stuðla að orkuskiptum er þó verið að taka beygju frá orkuskiptunum.
Skattleggja hreinorkubíla hraðar
Fleiri en Vinstri græn hafa þurft að gera málamiðlanir. Þannig er yfirlýstur skattalækkunarsinni, Bjarni Benediktsson, núna að boða skattahækkanir. Þær beinast sérstaklega að rafmagnsbílum – sem Vinstri græn vilja veg mestan. Með breyttri fjármálaáætlun ætlar Bjarni að ná fram 15 milljörðum króna í gjöld til ríkisins af vistvænum bílum árin 2023 til 2027. „Svo er lagt til að flýta gjaldtöku af hreinorkubílum,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vinstri græn og formaður fjárlaganefndar Alþingis, í viðtali um breytingar á fjármálaáætlun.
Það sem af er árinu 2022 hafa Íslendingar flutt inn mun fleiri bensín- og dísilbíla heldur en rafmagnsbíla, um 3.500 á móti 2.700, fyrir utan blandaða bíla. Mun fleiri jarðorkueldsneytisbílar eru á Íslandi heldur en rafmagnsbílar, um 284 þúsund á móti 14 þúsund rafmagnsbílum.
Bjarni Benediktsson hefur fengið samþykkt frumvarp um að miða við að flytja megi inn 5 þúsund rafmagnsbíla til viðbótar áður en niðurfelling á vörugjöldum á þeim hættir, en hún byrjar strax að lækka um áramót. Rafmagnsbílar verða væntanlega enn þá vel undir 10% af bílaflotanum þegar afsláttur af innflutningsgjöldum fellur fyrirsjáanlega niður á næsta ári, fyrir utan fyrirhugaða skattlagningu á notkun eða þyngd.
Nýir skattar á orkuskiptin
Þrátt fyrir um 40% hækkun á eldsneytisverði á árinu, að rússnesk stjórnvöld treysti á eftirspurn eftir eldsneyti til að fjármagna stríðsrekstur sinn og að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi séu með stórhuga áform um að draga hratt úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, er núna verið að vinna að því að draga úr hvatanum til að fjárfesta í rafmagnsbílum.
Reikningsdæmi Bjarna Benediktssonar og Vinstri grænna um 15 milljarða króna tekjur af hreinorkubílum á fjórum árum myndi hljóma skynsamlegar ef það tæki inn í jöfnuna að í hverjum mánuði flytjum við inn eldsneyti fyrir marga milljarða króna. Nánar tiltekið fluttum við fyrstu fjóra mánuði þessa árs inn dísel fyrir 16 milljarða króna, fjóra milljarða á mánuði, og blýlaust bensín 3,5 milljarða króna. Þetta myndi jafngilda 60 milljörðum króna á árinu. Til samanburðar er uppsafnaður skattaafsláttur vegna vistvænna bíla 28 milljarðar króna árin 2012 til 2022.
Framlag ríkisins til vegamála er gjarnan bara brot af innheimtri skattlagningu af bifreiðum. Árið 2018 voru innheimtir 45 milljarðar króna, en tæplega 29 milljarðar fóru í vegagerð og viðhald.
Þannig hafa Vinstri græn vikið frá hugsjónum í umhverfismálum og Sjálfstæðisflokkur í skattamálum, til þess að rétta af rekstur ríkisins á kostnað hvata til að bæta efnahagslífið og umhverfið bæði í einu til lengri tíma, auk þess að stuðla að almennri sjálfbærni Íslands.
Málamiðlun um mannúð
Ríkisstjórnin er ekki aðeins að setja virkjunarkosti í biðflokk og draga hratt úr hvatanum til orkuskipta, heldur var komið að Vinstri grænum að gera málamiðlun um mannúð í síðasta mánuði.
Annað fólk í biðflokki var hópur fólks sem hafði safnast upp á lista Útlendingastofnunar fyrir brottvísun úr landi í síðasta mánuði. Til stóð að varpa úr landi 300 mögulegum skattgreiðendum, þrátt fyrir skort á starfsfólki. Og þrátt fyrir að varaformaður Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hefði andmælt því á ríkisstjórnarfundi við hunsun samráðherra hans, Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Stundum þarf nefnilega að gera málamiðlanir. Eftir stóð að á listanum voru 200 manns, þar af 37 börn.
„Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ sagði séra Davíð Þór Jónsson um ríkisstjórn Vinstri grænna.
Það er líka sérstakur staður hér á jörðu fyrir fólk sem er meistarar málamiðlananna.
En það er líka sérstakur staður hér á jörðu fyrir fólk sem er meistarar málamiðlananna. Það er forsætisráðuneytið.
Í Biblíunni sagði frá því þegar Abraham átti að fórna syni sínum, Ísak, til að sanna sig fyrir náð Guðs. Hann átti að framkvæma fórnina sjálfur til að sanna guðsótta sinn. Eins þarf Katrín að fórna tilteknum hugsjónum fyrir sáttina og samstarfið, stundum með eigin hendi.
Fólk í biðflokki
Þriðji flokkurinn er í heilbrigðiskerfinu. Vinstri græn hafa gert að sínu hjartans máli að vera velferðarflokkur. Eftir tæp fimm ár í forsætisráðuneytinu, og fjögur þeirra í heilbrigðisráðuneytinu, er fólk að gefast upp á bráðadeild, bæði sjúklingar og starfsfólk. „Vonin bara dó í gær,“ sagði hjúkrunarfræðingur sem sagði upp störfum í lok maí. „Fólk er fast á bráðamóttöku því það er ekki til rúm á spítalanum. Fólk dagar uppi hjá okkur og er þarna í tugi klukkutíma.“
Sagnfræðingur með matareitrun, sem fór með sjúkrabíl á bráðadeild og lá þar á ganginum, gafst upp og fór í síðustu viku. „Ég hef ekki heilsu til að fara aftur á bráðamóttökuna,“ skrifaði eldri kona.
Það er þó ekkert nýtt. Árið 2014 beið einhver í 15 tíma á bráðadeild. Árið 2007 kom í fréttum að kona hefði verið bitin af ketti og beðið í sjö tíma á bráðadeild.
Og það verður beðið víðar. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað 27 manna sáttanefnd um sjávarútvegsstefnu. Fyrir utan hinar nefndirnar þrjár.
Málum miðlað með lýðræðið
Lýðræðismálin hafa alltaf verið Vinstri grænum hugleikin. Eitt af því sem Vinstri græn hafa þurft að fórna er andi lýðræðisins.
Þannig hefur Katrín tekið þá afstöðu að stjórnarskrá, sem 67% prósent kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að yrði að grunni tekin upp, yrði ekki innleidd nema með samstöðu þingmannanna og flokksformannanna sem stjórnarskráin fjallar ekki síst um. Og samstaða náðist ekki. Ekki nema um að láta hana niður falla.
Svona náði þó Katrín samstöðu með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni
Svona náði þó Katrín samstöðu með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forvera sínum, sem hafði sjálfur glatað samstöðu með sjálfum sér og hafði baráttu gegn nýrri stjórnarskrá sem forsætisráðherra eftir að hafa sett óflokkspólitískt stjórnlagaþing sem skilyrði fyrir að styðja minnihlutastjórn eftir búsáhaldabyltinguna.
Að þessu leyti hefur Katrín náð samstöðu við Sjálfstæðisflokkinn gegn kjósendum til að viðhalda stöðugleika. Stundum er sagt að það þurfi ýmist smurolíu eða límband, eftir því hvort hlutir eigi að hreyfast eða ekki. Katrín varð þetta límband og hélt saman ríkisstjórninni.
Andsnúin og fylgjandi stækkun Nató
Sú var tíðin að Vinstri græn voru stofnuð utan um þá grunnhugsjón að ganga úr Nató.
Ekki aðeins hefur Katrín mætt á leiðtogafundi Nató fyrir Íslands hönd möglunarlaust, heldur hefur Katrín gengist við því að ekki aðeins sé varnar- eða hernaðarbandalag lýðræðisríkja (með Tyrklandi) æskilegt, heldur beri að stækka það. Hún varð fyrst formanna Vinstri grænna til að styðja stækkun Nató. Haft var eftir henni á RÚV að hún vonaðist til að aðild Svía og Finna gengi hratt fyrir sig.
Katrín hafði hins vegar ekki skipt um sína skoðun og ekki flokkurinn heldur. „Og sem forsætisráðherra þá starfa ég samkvæmt samþykktri þjóðaröryggisstefnu þar sem kveðið er á um aðild Íslands að NATO. En mín hreyfing og ég, þar með talin, höfum ekki skipt um skoðun á þeirri aðild,“ segir Katrín Jakobsdóttir.
Þannig setur Katrín sjálfsákvörðunarrétt annarra fram fyrir sínar eigin skoðanir, eins og svo oft áður, sem hefur hingað til talist lofsvert.
Skuld skyldurækninnar
Ræktin við málamiðlun og sáttina er á endanum mikilsvert framlag. Af einhverri rót er græna bylgjan að ríða yfir íslensk stjórnmál, þótt hún sé Framsóknar- en ekki Vinstri græn. Í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup mælist stuðningur við Vinstri græn aðeins 8%, rétt yfir Flokki fólksins, á meðan Framsóknarflokkurinn hefur 17% stuðning eins og VG fyrir ríkisstjórnarsamstarfið 2017.
Vinstri græn mega eiga það, að þau hafa ekki misnotað vald sitt, eins og ferill er fyrir hjá samstarfsflokknum til hægri, þótt kjósendur flokksins kynnu að segja þau hafa vanrækt vald sitt og umboð. Að flokkur án öfga hafi orðið flokkur án afstöðu.
Við þurfum öll að gera hluti sem okkur langar ekki mest til að gera. Í því felst skyldurækni. Og Katrín Jakobsdóttir, með Vinstri grænum, hefur gert fjölmargt gegn vilja sínum og sýnt meiri skyldurækni heldur en sanngjarnt er að ætlast til af fólki.
Við þurfum öll að gera hluti sem okkur langar ekki mest til að gera. Í því felst skyldurækni.
Í Biblíunni var önnur saga um fórnir; Sagan af karlinum Job frá Úslandi, sem lifði þægilegu lífi í velsæld en missti allt, eftir að Drottinn, að áeggjan Satans, hafði ákveðið að kanna hvort hann glataði trúnni við rétta hvata. Job gafst þó ekki upp á að játa Drottinn, sama hvað gekk á og þótt hann hefði þurft að gefa eftir allt sitt. Hann uppskar enn meira ríkidæmi að lokum fyrir trú sína á alvaldið.
Kjósendur Vinstri grænna eru í biðflokki með Kjalölduvirkjun og Héraðsvötnum. Hver veit nema stefnan endi í nýtingarflokki, eins og ætlunin hlýtur að vera. Það verður þó erfitt að sjá hvort Vinstri græn muni Guðs ríki erfa, því eins og við vitum er Drottinn stjórnmálanna ekki hinir flokkarnir heldur kjósendur.
Orkuverð til stóriðju er ekki bara lágt heldur sveiflast það að miklu leyti eftir álverði. Su staða getur komið upp að hagnaður Landsvirkjunar verði harla lítill.
Meiri hagnaður Landsvirkjunar með hærra orkuverði opnar möguleika á að lækka orkuverð til heimilanna.
Að taka upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn voru í raun svik VG við kjósendur sína.
Þetta er ekki spurning um samningatækni .... heldur hverju þú ert til í að fórna í samningum .... og Katrín er Steingrím samstíga frá upphafi í þeim málum.
Féll hún í sömu gryfju og Ingibjörg Sólrún, með hugsjón um sögulegar sættir?