„Farðu beina leið á bráðamóttökuna. Áverkar þínir eru á því stigi að þeir gætu verið lífshættulegir,“ voru ráðleggingar Kvennaathvarfsins þegar Helga Kristín Auðunsdóttur leitaði þangað eftir að sambýlismaður hennar réðst á hana á heimili þeirra. Það var staðfest á bráðamóttöku. Hálfu ári síðar leitaði hún til lögreglu og lagði fram kæru. Tveimur árum eftir árásina féll loks dómur. Eftir að hafa gengist við ofbeldisverknaðinum í dómssal fékk Gísli Hauksson, einn stofnandi og fyrrverandi forstjóri fjárfestingarsjóðsins GAMMA, sextíu daga skilorðsbundinn dóm.
Helga Kristín lýsir því hvernig hún flúði berfætt af heimilinu, með svefnpoka sem hún greip með sér. Sömu nótt hringdi hún í Kvennaathvarfið þar sem hún fékk ráðleggingar til að koma í veg fyrir að hún myndi fara aftur inn á heimilið. „Ég fór að þeirra ráðum í einu og öllu sem gaf mér svo mikilvægar bjargir vikurnar á eftir. Þakklæti til þeirra verður alltaf til staðar,“ sagði Helga Kristín í Facebook-færslu eftir að dómur féll í dag.
Kæruferið erfitt
Í dómnum kemur fram að Gísli hafi ítrekað tekið hana kverkataki, skellt henni utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt og féll í gólfið, samkvæmt Vísi. Þegar hún reyndi að flýja inn í herbergi hafi hann farið á eftir henni, gripið ítrekað í handleggi hennar og fleygt henni á rúmið, með þeim afleiðingum að hún hlaut tognun, ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg, sem og margvíslega yfirborðsáverka á hálsi, öxl og upphandlegg.
Það var ekki fyrr en hálfu ári síðar, þegar henni fannst hún loks geta dregið andann, að hún ákvað að leggja fram kæru. Í kjölfarið sagði Gísli sig frá stöðu formanns fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins.
„Kæruferlið er með því erfiðasta sem ég hef upplifað og á margan hátt upplifði ég eins og kæruferlið hjá lögreglu hafi gert ofbeldisupplifunina verri,“ sagði hún. Það hafi þó skipt máli að fá viðurkenningu á því sem gerðist og viðurkenningu á að hún hafi verið beitt ofbeldi. „Dómstóll hefur viðurkennt ofbeldið sem átti sér stað bakvið luktar dyr í maí 2020.“
Stundin hefur áður fjallað um meðferð réttarkerfisins á heimilisofbeldismálum. Alls var rannsókn um 1.000 heimilisofbeldismála hætt á tveimur árum. Yfirmenn hjá lögreglu hafa talað fyrir því að mannekla bitni á brotaþolum. Þá hafa fleiri þolendur lýst því yfir að kæruferlið reynist þungbært, jafnvel verra en ofbeldið sjálft.
Sérstaklega hættulegt ofbeldi
Dómur féll eftir að Gísli gekk loks við ofbeldinu í dómssal. „Líkamlegt ofbeldi skilur eftir merki og hefur áhrif á líðan í langan tíma. Það er því gaslýsing á hæsta stigi þegar gerandi ítrekað neitar sök. Í tvö heil ár. Að hann neitaði sök í allan þennan tíma gerði líðanina á þessum tíma margfalt verri,“ sagði Helga Kristín.
„Þetta getur verið lífshættuleg árás“
Í fyrri umfjöllun Stundarinnar um réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis áréttaði Hrönn Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala, alvarleika kverkataks. Um sé að ræða aðferð sem gerendur beita gjarna til að sýna vald sitt gagnvart þolendum sínum:
„Þetta getur verið lífshættuleg árás sem getur leitt til meðvitundarleysis á fimm til tíu sekúndum og dauða innan nokkurra mínútna,“ sagði Hrönn og áréttaði að þetta væri ein helsta dánarorsök í heimilisofbeldismálum. „Ofbeldi þar sem kverkatak er notað er sérstaklega hættulegt því það geta myndast bólgur og bjúgur eftir á sem geta þrengt að öndunarvegi.“
Varðar sex ára fangelsi
Samkvæmt Fréttablaðinu varðar brotið hegningarlög um brot í nánu sambandi og varðar allt að sex ára fangelsi: „Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“
„Orkuna sem fór í að brotna ekki hefði ég svo gjarnan viljað nýta í eitthvað annað“
Þó svo að refsing við brotinu varði allt að sex ára fangelsi fékk Gísli sem fyrr segir tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm, auk þess sem hann var dæmdur til að greiða 500 þúsund krónur í miskabætur fyrir lífshættulega árás.
Þakkar konum sem á undan komu
Þrátt fyrir það upplifir Helga Kristín létti og þakkar þeim konum sem komu á undan og börðust fyrir réttlæti. „Það er þeim að þakka að ég finn ekki í dag fyrir skömm yfir því að það var ráðist á mig. En mig langar ekki að dvelja í því að þetta var lífsreynsla sem ég bað ekki um og óska engum. Orkuna sem fór í að brotna ekki hefði ég svo gjarnan viljað nýta í eitthvað annað.“
Athugasemdir (7)