„Ég ætla að sitja hér fyrir utan sendiráðið og spila andrússnesk áróðurslög og úkraínsk þjóðlög þar til rússneski sendiherrann kemur og ræðir við mig, eða lögreglan kemur og fjarlægir mig. Ef sendiherrann kemur út ætla ég að segja honum kurteislega að andskotast héðan í burtu.“
Þetta segir Jersey, bandarískur hermaður sem nú mótmælir stríðsrekstri Rússa í Úkraínu fyrir utan rússneska sendiráðið á Túngötu. Jersey heitir raunar ekki Jersey, þessi 35 ára gamli Bandaríkjamaður af pólskum ættum, vill ekki gefa upp sitt rétta nafn til að setja ekki fólk sér nákomið í hugsanlega hættu. Hann er í herbúningi og innan undir honum í grænum stuttermabol eins og þeim sem Volodomyr Zelensky úkraínuforseti hefur gert að einkennisfatnaði sínum. Hann ber stóran herbakpoka sem á hefur verið skrifaður texti andófslags gegn Rússneska hernum.
Jersey situr flötum beinum á gangstéttinni við sendiráðið og beinir síma sínum að sendiráðsbyggingunni. Úr símanum hljómar lagið með textanum sem ritaður er á bakpokann.
„Ég kom með lyf frá Úkraínu sem ég þarf að koma til Úkraínumanna í Keflavík“
Spurður hvað hann sé að gera hér á landi svarar Jersey: „Ég var hermaður í Úkraínu. Ég kom til Íslands fyrir tveimur dögum. Ég kom með lyf frá Úkraínu sem ég þarf að koma til Úkraínumanna í Keflavík. Ef einhver gæti orðið mér til aðstoðar með að koma lyfjunum til þeirra myndi ég þiggja það með miklum þökkum. Þetta eru lyf frá Kænugarði sem þau þurfa að fá og ég er hér fyrir framan rússenska sendiráðið til að vekja athygli á málstað þeirra.“
Særðist í flugskeytaárás
Jersey segir að hann hafi komið til Úkraínu 7. mars síðastliðinn, frá Bandaríkjunum með viðkomu í Póllandi. Hann hafi farið yfir landamærin til Lviv og þaðan til Yavoriv þar sem hann starfaði með almannatengsladeild Úkraínska hersins.
Jersey segist hafa verið staddur í herbúðum í Yavoriv, aðeins viku eftir að hann kom til Úkraínu, þegar að flugskeytum frá rússneska hernum var skotið á herbúðirnar með þeim afleiðingum að 35 manns létust og á annað hundrað særðust. Sjálfur særðist hann lítillega. Þaðan hafi hann flúið út í skóg. Hann hafi farið yfir landamærin til Póllands en síðan farið aftur yfir til Úkraínu skömmu síðar. Þá hafi verkefni hans orðið að aðstoða skæruliðahópa sem börðust við Rússa í nágrenni Kænugarðs. Sá hópur hafi síðan tekið sér stöðu á Maidan torgi í miðri borginni og þangað hafi Jersey einnig fylgt þeim.
Það fór Jersey til Bucha. „Ég sá brunnar byggingar, staði þar sem fólk var myrt með köldu blóði en voru umlukin í blómahafi. Það var gríðarlega áhrifamikið.“
Seinna fór Jersey til Chernobyl með ítölsku kvikmyndaliði. „Ég tók lítinn sem engan þátt í bardögum sjálfur en ég veit um fólk sem það gerði. Ég varð líka vitni að hræðilegu framferði Rússa, pyntingum og nauðgunum, en líka heimsku þeirra þegar þeir grófu skotgrafir á Chernobylsvæðinu.“
Framferði Rússa ófyrirgefanlegt
Jersey dregur upp ýmsa muni sem hann tók með sér frá Úkraínu, notuð AK-47 skothylki og brotinn, bleikan hárkamb þar á meðal, auk útprentaðrar orðabókar frá ensku yfir á úkraínsku, sem hann kallar vígstöðvaorðabók. Kambinn segir Jersey að hann hafi fundið í Bucha, úkraínsku borginni þar sem greint hefur verið frá því að rússneskir hermenn hafi framið skelfilega stríðsglæpi. Það sem hann hafi séð í Úkraínu sé ófyrirgefanlegt og því mótmælir hann nú fyrir utan sendiráð Rússa hér í landi.
„Ég ætla að að vera hér þar til það gerist, eða lögreglan kemur og fjarlægir mig“
„Í staðinn fyrir að eyða peningunum mínum í gistingu á gistihúsi er ég að hugsa um að vera bara hér, þar til ég næ athygli rússneska sendiherrans, og hann kemur og talar við mig. Þegar að það gerist ætla ég kurteislega að gera svo vel að segja af sér. Ég held að það væri við hæfi að hann andskotaðist, kurteislega, út úr þessari byggingu. Það er ömurlegt að hann sitji inni á þessari skrifstofu á meðan að landar hans heyi árásarstríð geng saklausu fólki, og hann þurfi enga ábyrgð að axla. Ég ætla að að vera hér þar til það gerist, eða lögreglan kemur og fjarlægir mig.“
Jersey hvetur alla Íslendinga til að leggja baráttunni í Úkraínu lið, þar þurfi fólk á öllu að halda, lyfjum, herbúnaði, matvælum og aðstoð og aðföngum af hverju tagi. Spurður hvað hafi rekið hann til að fara frá Bandaríkjunum og til aðstoðar Úkraínumönnum segir Jersey að ástæðan sé bæði margþætt en líka einföld.
Pólskur uppruni hans eigi þar stóran þátt; Pólverjar og Úkraínumenn séu bræðraþjóðir þó þær hafi ekki alltaf setið á sárs höfði. Honum finnist það skylda sín að hjálpa bræðrum sínum í Úkraínu, jafnvel óumflýjanleg örlög. En það sé líka skylda alls rétthugsandi fólks að leggja Úkraínumönnum lið í baráttu þeirra. „Þetta snýst um samstöðu, samstöðu milli Úkraínumanna og Pólverja, enda er ég af pólskum ættum. Þetta snýst líka samstöðu heimsbyggðarinnar, við eigum ekki að láta framferði Rússa óátalið, ekki Evrópubúar, Bandaríkjamenn eða nokkuð siðað fólk. Ég fer aftur, það er klárt. Ég get ekki verið hér og notið lífsins í Reykjavík á meðan Úkraínumenn berjast heima fyrir.“
Athugasemdir (5)