Fyrstu tveir frambjóðendurnir á lista Sósíalistaflokksins segja báðir að ekki komi til greina að vinna með Sjálfstæðisflokknum að afloknum kosningum á laugardag. Flokkurinn hafi útilokað samstarf við auðvaldsflokka. Það séu bæði Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn.
„Við Sósíalistar útilokum samstarf með Sjálfstæðisflokki og öllum auðvaldsflokkum eins og ég hef víða sagt,“ skrifar Sanna Magdalena Mörtudóttir oddviti Sósíalistaflokksins, á Facebook í tilefni af samantekt á svörum oddvitanna í Reykjavík um samstarf að loknum kosningum í oddvitakappræðum Stundarinnar.
„Við Sósíalistar útilokum samstarf með Sjálfstæðisflokki og öllum auðvaldsflokkum eins og ég hef víða sagt.“
Samskonar athugasemd barst frá öðrum manni á lista flokksins vegna fréttarinnar, Trausta Magnússyni, vegna samantektarinnar. Þar tiltók hann ekki bara Sjálfstæðisflokk heldur líka Viðreisn. „Við viljum árétta að Sanna hefur oft tekið fram að við útilokum samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn, semsé auðvaldsflokka,“ skrifaði hann.
Í oddvitakappræðum Stundarinnar sagðist Sanna vilja vinstri meirihluta eftir kosningar. „Við þurfum vinstri meirihluta og við getum starfað með öllum flokkum sem taka slaginn fyrir fólkið sem hafa verið skilin eftir hér í borginni. Af því við þurfum að byggja borgina hér á jöfnuði og útrýma óréttlætinu,“ sagði hún. En þarna átti hún ekki við Sjálfstæðisflokkinn.
Athugasemdir