Fyrri aukaspurning:
Skoðið myndina hér fyrir ofan. Hver er besti vinur hans? (Vísbending: Það er EKKI fiðrildið.)
***
Aðalspurningar:
1. Andrómeda var konungsdóttir frá Eþíópíu, að sagt er. En sagnir um ævi hennar er þó að finna í hugmyndaheimi annars lands. Hvaða lands?
2. Núorðið er önnur Andrómeda öllu þekktari en þessi gamla. Hver er sú Andrómeda?
3. Margt er á huldu um þróun hesta. Þó er talið nokkuð víst að forfeður og -mæður hinna fyrstu eiginlegu hesta hafi þróast í einni ákveðnni heimsálfu. Hver er sú?
4. Löngu seinna voru hestar komnir á aðrar slóðir og yfirleitt er talið að forfeður og -mæður taminna hesta hafi þróast á ákveðnu svæði, sem er ... hvað?
5. Flest innri líffæri mannsins eru einstæð í sinni röð. Við höfum til dæmis aðeins eitt hjarta. En tvö af hinum stóru líffærum eru þó í tvíriti, ef svo má segja. Hver eru þau?
6. Hvaða ríki tilheyrir Baffinsland?
7. Í hvaða borg í Evrópu þjónaði Vladimir Pútin sem njósnari KGB?
8. Við hvað starfaði Naomi Campbell og gerir jafnvel enn þegar vel liggur á henni?
9. Ingvar Helgason heitir íslenskur hugvits- og athafnamaður sem starfar að vísu fyrst og fremst í útlöndum, en þar eru hann og fyrirtæki hans Vitrolabs í fararbroddi við þróun og framleiðslu á ... hverju?
10. Eldri bróðir Ingvars er þekktur fjölmiðlamaður á Íslandi. Hvað heitir hann?
***
Seinni aukaspurning:
Hvaða fyrirtæki, stofnun, ríki eða samtök nota lógóið hér að neðan?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Grikklands.
2. Stjörnuþoka.
3. Norður-Ameríka.
4. Mongólía.
5. Lungu og nýru.
6. Kanada.
7. Dresden.
8. Fyrirsætustörf.
9. Leðri. Um er að ræða leður úr stofnfrumum. Að segja „gervileður“ er í rauninni ekki rétt, en ég ætla þó að gefa stig fyrir ef einhver slysast til að segja það.
10. Egill.
***
Svör við aukaspurningum:
Besti vinur Tígra er Bangsímon.
Merkið notar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Athugasemdir