„Það voru efasemdir um þessa aðferð hjá öllum ráðherrum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra á Alþingi í morgun um sölumeðferð 22,5 prósenta hlutar ríkisins í Íslandsbanka. Vísaði hún þar til þess að bæði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem sitja ásamt Lilju í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins hefðu, hafi haft efasemdir um að selja hluti ríkisins í lokuðu útboði.
Hún sagðist hafa furðað sig á því að ekki hefði verið farin sama leið og þegar opið útboð fór fram á 35 prósenta hlut ríkisins í bankanum á síðasta ári. Þá bauðst öllum almenningi að kaupa hlut í opnu ferli. Útboðið nú síðast var aftur á móti lokað og aðeins ætlað svokölluðum fagfjárfestum.
„Þá þótti mér undarlegt að við skyldum breyta þeirri aðferð vegna þess að hún gekk vel,“ sagði Lilja. Bankasýslan hafi hins vegar lagt til breytta aðferð, sem allir ráðherrarnir hefðu haft efasemdir um. „Hún gerir það eftir að hafa ráðfært sig við sérfræðinga, bæði innlenda og erlenda,“ sagði hún og bætti við síðar: „Það kann að vera að sú aðferð sem Bankasýslan lagði til, að hún hafi verið rétt.“
Þessi orð fóru ekki vel í þingmenn stjórnarandstöðunnar sem flykktust í ræðustól undir liðnum fundarstjórn forseta sem kepptust um að furða sig á orðum ráðherrans. „Þeir sáu ekki ástæðu til að upplýsa þingið um þessar áhyggjur sínar […] Létu nægja að vara sjálfa sig við án þess að bóka neitt um það,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. „Vara eindregið við því sem þeir gera en halda þinginu alveg utan við það.“
Og svo kemur í ljos að Bankasýslan veldur ekki verkefninu og allar undirstofnanirnar líta svo á að nú sé tækifæri til að reyta hænuna