Íslensk kona er grunuð um að hafa rænt þremur börnum af heimili föður þeirra í norskum smábæ og flutt þau með einkaflugvél til Íslands í gær. Faðir barnanna, sem einnig er íslenskur, fer með forræði barnanna þriggja, samkvæmt úrskurði Hæstaréttar Noregs árið 2019. Samkvæmt dómnum er konunni eingöngu heimilað að hitta börn sín um sólarhring á ári.
Allt bendir til að atvikið hafi verið þaulskipulagt, en það var um klukkan fjögur í gærdag, sem faðir barnanna uppgötvaði að börnin hefðu verið tekin. Þau hafa búið ásamt föður sínum í smábæ í suðurhluta Noregs. Tvö barnanna voru sótt í skóla en eitt á heimili sitt, án heimildar föðurins.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar flaug konan með börnin þrjú í einkaflugvél frá litlum flugvelli í Torp í suðurhluta Noregs, ekki langt frá heimili barnanna. Konan hafði komið með sömu vél frá Íslandi fyrr um daginn.
Flugvélin lenti á Reykjavíkurflugvelli seint í gærkvöldi. Norska lögreglan rannsakar málið og hefur haft samband við íslensk lögregluyfirvöld og óskað eftir samvinnu við rannsóknina. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur norska lögreglan rætt við konuna sem staðfestir hún að börnin séu í hennar umsjá á Íslandi.
Konan segir frá því í Facebook-status að hún telji börnin eiga rétt á umgengni við sína nánustu án „eftirlits ókunnugs fólks“.
„Eftir langan undirbúning, vangaveltur og ráðfæringar við fagfólk þá var eina niðurstaðan að sækja skytturnar okkar. Langþráður dagur fyrir krakkana sem hafa ekki hist í næstum þrjú ár. Það er ótrúlegt að einhver reyni að réttlæta aðskilnað systkina, hvað þá aðskilnað barna frá foreldri sem hefur ekkert viljað nema eðlilega samveru barnanna við fjölskylduna og heilbrigt umhverfi fyrir þau að alast upp í. Slagurinn sem er framundan miðast að því að tryggja systkinunum gott líf og bjarta framtíð með þeim sem elska þau mest. Réttur strákanna til eðlilegrar umgengni við foreldra, réttur þeirra til áhyggjulausrar æsku og öruggs umhverfis hefur verið virtur að vettugi. Það hefur ekki verið hlustað á þá. Þeir vilja vera á Íslandi, þeir vilja fá að vera börn og þeir vilja eiga frjáls samskipti við sína nánustu, ekki undir eftirliti ókunnugs fólks.“
Athugasemdir (10)