Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama gaf út fræga bók árið 1992 um „endalok mannkynssögunnar“ þar sem hann færði rök að því að sagan eins og við þekkjum hana – ris og fall ólíkra heimsskoðana, efnahags- og stjórnmálakerfa – væri liðin undir lok með alheimssigri frjálslyndisstefnu að vestrænum hætti. Ókrýndur konungur hinna einföldu skýringa (en því miður oft rangra), Tony Blair, orðaði svipaða hugsun um svipað leyti svo að það væri „jafnsjálfsagt og að haust fylgir sumri“ að vestræn frjálslyndisstefna hefði sigrað og lagt heiminn að fótum sér. Spádómsorð beggja eru í anda marxískrar söguhyggju, um að hægt að sé að sjá fyrir sögulega og menningarlega þróun út frá efnahagslegum forsendum – þó að innihaldið í spám þeirra hafi vitaskuld stungið í stúf við spár Marx sjálfs á 19. öldinni.
Þessar tvær spár byggðust ekki á neinum geimvísindum. Þær voru í sjálfu sér fremur eðlileg viðbrögð við falli Berlínarmúrsins og svo Sovétríkjanna 1991 og efnahagslegri frjálshyggjuvæðingu Kínverska alþýðulýðveldisins. En þær byggðust á ýmsum forsendum sem reynst hafa rangar. Það þarf ekki djúpa greiningu á þróun heimsmála síðasta áratuginn (Trump, Brexit, aukið alræðistaumhald í Kína, innrásin í Úkraínu, „menningarstríð“ á Vesturlöndum, o.s.frv.) til að sjá að sú er raunin.
Rangar forsendur
Það myndi æra óstöðugan að telja upp allar hinar röngu forsendur sem lágu þessum spám til grundvallar, en nefnum nokkrar:
- Pólitísk alræðisstefna er ósamrýmanleg efnahagslegu frjálsræði og hið síðarnefnda (t.d. í Kína) mun fljótlega útrýma hinu fyrra.
- Félagsleg íhaldssemi er ósamrýmanleg sveigjanlegri afstöðu til efnahagslegra inngripa ríkisvalds í því skyni að jafna lífskjör og síðara viðhorfið mun fljótlega útrýma hinu fyrra.
- „Þögli meirihlutinn“ (lágtekjuhópar og lægri millistétt) mun smám saman, með bættri menntun, skapa sér meira hlutgengi á hinum pólitíska vettvangi og hin „þögla skoðun“ hans er í anda vinstrimennsku, bæði efnahagslega og félagslega.
- Hægrið og vinstrið munu skerpast í þeim skilningi að misræmi milli félagslegra og efnahagslegra skoðana mun mást út innan hvors hóps um sig. Eftir munu standa tveir stórir flokkar sem í íslensku samhengi yrðu annars vegar einhvers konar Samfylkingarflokkur og hins vegar frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins – og svo síminnkandi jaðarflokkar til hægri og vinstri.
Hvað brást?
Hvorki Fukuyama né Blair eru neinir vitsmælingjar og þeir áttu sér ótal skoðanasystkin í lok 20. aldar. Hvernig gat svona margt skynsamt fólk haft svo mjög á röngu að standa? Að baki spádómunum lágu margs kyns rangtúlkanir og hæpnar ályktanir. Aftur þarf, í stuttum pistli, að grípa til einfaldana, en hér er stuttlisti yfir nokkrar hugsanavillur:
- Rangur framreikningur á „almenningsáliti“. Blair vitnaði oft í skoðanakannanir á viðhorfum ungra kjósenda til að álykta um áratugina þar á eftir. Það er hins vegar sífellt augljósara að gamla kenningin um að hugsjónaeldur unglingsáranna dofni með aldrinum stendur heima. Flest ungt fólk um allan heim er tiltölulega frjálslynt, alþjóðasinnað og umburðarlynt. En kannanir á skoðunum þess til félags- og efnahagsmála um tvítugt segja lítið til um hvernig það kýs 20-30 árum síðar.
- Vanmat á áhrifum þjóðflutninga á þjóðerniskennd. Miklir þjóðflutningar frá þeim löndum, sem áður kölluðust „þriðji heimurinn“ en nú „hið alþjóðlega suður“ til Vesturlanda, framkölluðu mun sterkari áhrif en gert hafði verið ráð fyrir. Margir sem áður höfðu talið sig víðsýna gagnvart innflytjendum hrukku í baklás þegar áhrif „menningarblöndunar“ á Vesturlöndum urðu ljós.
- Rangt mat á „þögla meirihlutanum“. Það var að vísu rétt spá að lágstétt og lægri millistétt myndi gera sig meira gildandi í pólitískri umræðu, ekki síst á samfélagsmiðlum. Og það var einnig rétt mat að þessi meirihluti væri almennt frjálslyndur (Keynes-sinnaður) í efnahagsmálum. En það var kolrangt mat að þetta efnahagslega frjálslyndi héldist nauðsynlega í hendur við félagslegt frjálslyndi. Eins og saga Verkamannaflokksins hér í Bretlandi leiðir klárlega í ljós þá hefur hluti lágstéttarinnar á Vesturlöndum alltaf verið tiltölulega íhaldssamur félagslega. Þetta er meðal annars ástæða þess að Verkamannaflokkurinn hefur tapað tengingu við sögulegt kjarnafylgi sitt í Bretlandi (ekki síst í Skotlandi þar sem hann var mjög sterkur, og með sögulegar rætur í kaþólsku kirkjunni, en hefur nú nær þurrkast út).
- „Ófrjálslynt frjálslyndi“ og menningarstríð. Sú þróun sem Fukuyama og Blair sáu allra síst fyrir – og verður naumast metið þeim til gjalda – var að frjálslyndar hugmyndir um félagslegt réttlæti á Vesturlöndum myndu þróast yfir í öfgamyndir slaufunarmenningar – og að sjálft hugtakið „félagslegt réttlæti“ yrði á endanum lagt að jöfnu við „sjálfskenndarstjórnmál“ þar sem sterkasta birtingarmynd réttlætis er ekki lengur „umhyggja fyrir almannaheillum“ heldur réttur einstaklings og jaðarhópa til að skilgreina sjálfkennd sína á eigin „vökulu“ forsendum. Þessi þróun hefur kurlað fylkingu frjálslyndissinna í félagsmálum svo á Vesturlöndum að gamaldags frjálslyndissinnar af ætt Johns Stuarts Mill skynja sig nú sem pólitíska munaðarleysingja (sbr. hlutskipti J. K. Rowling og Philips Pullman).
- Skipbrot sögulegrar efnishyggju. Sósíalismi og frjálshyggja 20. aldar áttu sameiginlega forsendu í sögulegri efnishyggju marxismans um að efnahagsleg rök skýrðu á endanum menningarlega framvindu og lægju að baki einstaklingsákvörðunum, t.d. í kjörklefanum. Þetta endurspeglaðist m.a. í frægri upphrópun Clintons: „It is the economy, stupid“. Hafi einhvern tíma verið skýrt samhengi milli efnahagsmála og einstaklingshegðunar þá hefur það samhengi raskast. Skoðanakannanir hér í Bretlandi leiða t.d. í ljós að rúmur þriðjungur Brexit-fylgjenda trúði ekki ýkjum Boris og félaga um að Brexit myndi auka hagsæld – þvert á móti – en kaus samt að skera á tengslin við Evrópusambandið vegna hugsjóna um svokallaða „endurheimt fullveldis“.
Einungis fæðingarhríðir nýrrar veraldar?
Marxistar á 20. öld skýrðu einatt tafir á tilkomu þúsundáraríkisins með því að tímabundinn afturkippur væri lítið annað en „fæðingarhríðir nýrrar veraldar“. Ég hef ekki séð nýleg viðtöl við Fukuyama og Blair þar sem vanefndir spádómanna hafa verið bornar upp á þá og skýringa leitað, en það er ekki erfitt að hugsa sér svipaðar mótbárur: Frjálslynd alþjóðahyggja Vesturlanda er sú langtímahugmyndafræði sem heimurinn stefnir í áttina að; hugsanavillurnar voru einungis um hraða þessarar þróunar og fólu í sér vanmat á afturkippum og fæðingarhríðum sem þessi hugmyndafræði myndi ganga í gegnum uns hún sigraði heiminn.
Það er vissulega mun erfiðara að trúa slíkum spádómum en það var fyrir 25 árum. Margt af því sem gerst hefur í heiminum á fyrsta fjórðungi 21. aldar virðist beinlínis ganga í berhögg við þá. Fyrir þá sem enn trúa á sigur alþjóðasinnuðu frjálslyndisstefnunnar er líklega vænlegast að vitna ekki lengur í efnahagsleg eða heimspekileg rök heldur fremur í framfarir á sviði tækni og vísinda. Þegar sýndarveruleiki Meta-heimsins verður orðinn daglegt brauð fyrir ungt fólk á Vesturlöndum og skil raunveruleika og sýndar fara að mást út er mjög ólíklegt að ekki verði spurn eftir aðgangi að þessum nýja heimi frá fólki um veröld alla. Sumir telja að alþjóðavæðing sýndarveruleikans muni gera tilburðum til alræðisstjórnar og þjóðernislegrar einangrunarhyggju mjög erfitt fyrir; aðrir álíta hins vegar að þessi sýndarvæðing muni fullgera martraðarsýn Stephans G. um heim þar sem „hugstola mannfjöldans vitund og vild er villt um og stjórnað af fám“.
Í ljósi reynslunnar af spádómum Fukuyamas og Blairs er lærdómurinn líklega sá að segja sem minnst um hvað framtíðin beri skauti sér og bíða eftir uglu Mínervu sem fer ekki á flug fyrr en í kvöldrökkrinu.
Athugasemdir