Stríðið í Úkraínu og samkeppni stórveldanna, Bandaríkjanna og Kína er nú mikið í fréttum. Forystumenn Bandaríkjanna hafa áhyggjur af vexti Kína efnahagsleg og hernaðarlega. Til lengri tíma litið er megin vandamál Bandaríkjanna ekki Rússland heldur Kína. Það er skelfileg tilhugsun fyrir forystumenn Bandaríkjanna að verða sem hagkerfi númer tvö í heiminum á eftir Kína, jafnvel númer þrjú ef Indland, sem er álíka fjölmennt og Kína, nær sér á strik efnahagslega. Þarf Evrópa að hafa áhyggjur af þessu? Hér togast á efnahagshagsmunir og öryggishagsmunir.
Gerðu Bandaríkin Kína að stórveldi?
Aðild Kína að alþjóðastofnunum sem Bandaríkin höfðu forystu um að stofna í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar áttu stóran þátt í að gera Kína að því stórveldi sem það er í dag. Þessar stofnanir voru Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðaviðskiptastofnunin (upprunalega GATT) sem veittu Kína ómetanlega aðstoð við að taka upp markaðshagkerfi og gera Kína að því stórveldi sem það er í dag. Bandaríkin og aðrar vestrænar þjóðir vonuðust til að um leið myndi Kína taka upp lýðræði en það gerðist ekki.
„Þetta mun breyta heiminum.“
Ef Kína nær vergri landsframleiðslu á mann álíka og í Suður-Kóreu verður hagkerfi Kína álíka stórt og hagkerfi Bandaríkjanna og Evrópusambandsins til samans. Ef Kína nær vergri landsfarmleiðslu á mann álíka og Singapúr verður hagkerfi þess um tvöfalt stærra en hagkerfi Bandaríkjanna og Evrópusambandsins til samans. Þetta mun breyta heiminum.
Er hægt að beita Kína viðskiptaþvingunum?
Hagvöxtur í Kína hefur um áratuga skeið verið nálægt 7% á ári. Þessi hagvöxtur þýðir að hagkerfi þeirra tvöfaldast að stærð á tíu ára fresti. Hagvöxtur Kína hefur fyrst og fremst byggst á útflutningi til ríkara landa í heiminum í Evrópu og Norður Ameríku. Sama á við um mörg önnur Austur-Asíu lönd eins og Japan, Suður-Kóreu, Singapúr, Taívan og Hong Kong (nú hluti af Kína). Hagvöxtur og yfirburðir þessara Austur-Asíu ríkja í framleiðslu hafa m.a. byggst á stærðarhagkvæmni (e. economics of scale) og sérhæfingu. Íhlutir í framleiðslu eins og bifreiðar, flugvélar og tæknivörur eins og snjallsíma, fartölvur o.s.frv. koma úr mörgum löndum og síðan samsett í einu, oft Kína, þannig að ef víðtækum viðskiptaþvingunum yrði beitt gegn Kína myndi að öllum líkindum vanta mikilvæga íhluti í flestar endanlegar tæknivörur. Efnahagsþvinganir gegn Kína myndu því valda mun meiri vandræðum alþjóðlega en gegn Rússlandi sem er með einhæfan útflutning þar sem olía og gas er stór hluti af heildarútflutningi.
Mun Kína falla eins og Sovétríkin?
Bandaríkin eru að mynda bandalög í Asíu eins og þau gerðu eftir seinni heimstyrjöldina þegar Norður-Ameríka og Evrópa sameinuðust undir hatti NATO. Tilgangur NATO var að miklu leyti að halda Bandaríkjunum í Evrópu, Rússum úr Evrópu og Þjóðverjum frá yfirráðum í Evrópu. Nú reyna Bandaríkin að mynda bandalag með ríkjum Asíu sem að einhverju leyti stendur ógn af Kína. Quad (e. Quadrilateral Security Dialogue) er bandalag Bandaríkjanna, Indlands, Japan og Ástralíu. AUKUS er bandalag Bandaríkjanna, Bretlands, og Ástralíu. Sovétríkin féllu undir þýstingi af samkeppni við Bandaríkin og bandalagsríki þeirra. Bandaríkin voru alltaf miklu ríkara land en Sovétríkin. Öðru máli gegnir með Kína sem á næstu áratugum verðu líklega miklu stærra hagkerfi en Bandaríkin, stærra en Bandaríkin og ESB til samans. Kaldastríðshugmyndin að Kína muni falla undir svipuðum þrýstingi Vesturlanda og Sovétríkin er afleit hugmynd.
Kína stofnar sýnar eigin alþjóðastofnanir
Stórveldi eins og Kína mun ekki sætta sig til lengdar við yfirráð stofnana sem Bandaríkin settu á fót og áttu mestan þátt í að móta. Kína vill vinna eftir eigin höfði og reglum innan sinna eigin alþjóðastofnana sem hafa sínar höfuðstöðvar í Kína, ekki í Bandaríkjunum. Kína hefur þegar stofnað innviðabanka Asíu (e. Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB) sem er staðsettur í Peking. Öll stærstu ríki ESB gengu í AIIB og þetta olli miklum vonbrigðum í Bandaríkjunum. Öll Norðurlöndin gengu í AIIB. Þau búa sig undir aukin áhrif Kína. Bandaríkin standa utan ásamt Norður-Kóreu. New Development Bank (NDB) staðsettur í Shanghai aðallega með svokölluðum BRICS löndum, Brasilíu, Rússlandi, Indlandi, og Suður Afríku. Þarna er Kína að virkja stóru nýmarkaðsríkin undir sinni forystu. Þannig hegða stórveldi sér.
Hvað á Evrópa að gera?
Evrópusambandið er eina efnahagsstórveldið í heiminum sem treystir á annað stórveldi, Bandaríkin, um varnir sínar. Um leið og Evrópa treystir á Bandaríkin með varnir sínar á hún í miklum viðskiptum við Kína. Það er ólíklegt að Evrópuríki vilji dragast inní deilur og átök Bandaríkjanna og Kína í Asíu t.d. vegna Taívan og Suður-Kínahafs. Í öryggismálum munu Bandaríkin í vaxandi mæli leggja áherslu á Austur-Asíu vegna Kína og minni áherslu á Evrópu og NATO. Stríðið í Úkraínu getur þó tafið þessa þróun. Þó Bandaríkin eigi í harðri samkeppni við Kína í öryggismálum getur Evrópa átt í vaxandi viðskiptum við Kína. En getur Evrópa þá treyst á Bandaríkin í öryggismálum í framtíðinni? Það er efni í aðra grein.
Athugasemdir (2)