Fjölmiðlafyrirtækið Torg hefur sagt sig úr Samtökum verslunar og þjónustu og þar með úr Samtökum atvinnulífsins. Ákvörðun þess efnis var tekin með þeim rökum að ekki færi vel á því að fjölmiðill hefði væri aðili að hagsmunasamtökum sem hann þyrfti ítrekað að fjalla um í fréttaflutningi sínum. Úrsögnin hefur þó ekki tekið gildi ennþá sökum þess að uppsagnarfrestur er á slíkum uppsögnum. Jón Þórisson, forstjóri Torgs, segir það sérkennilegt og ekki í góðum takti við lög um félagafrelsi.
Ákvörðunin var tekin að frumkvæði Jóns sem segist hafa um all langt skeið hafa haft efasemdir um réttmæti þess að fyrirtækið væri aðili að hagsmunasamtökum sem þessum. „Það var aðal ástæðan, við gerum engar athugasemdir við starfsemi þessara samtaka enda hefðum við þá komið því á framfæri ef það hefði verið. Fyrst og fremst er þetta vegna þess að okkur finnst ekki fara vel á því að fjölmiðill eigi hagsmuni í hagsmunasamtökum, ef svo má segja, en þurfi svo kannski að geta fjallað um þau og skýrt frá ýmsum málum þeim tengdum. Við viljum ekki vera undir þá sök seldir að vera mögulega með einhvers konar bias í þeim efnum.“
„Þetta er hálfgert vistarband“
Sem fyrr segir mun úrsögn Torgs ekki taka gildi strax og gagnrýnir Jón það ráðslag í samþykktum Samtak verslunar og þjónustu. „Við höfum tilkynnt úrsögn okkar en hins vegar eru reglurnar þannig að það er ákveðinn uppsagnarfrestur, hálft ár eftir að uppsögnin berst. Við erum því ekki gengin úr samtökunum en það mun gerast í október næstkomandi. Þetta byggir á einhverju ákvæði í samþykktum, sem að út af fyrir sig er sérkennilegt og ekki í góðu samræmi við reglur um félagafrelsi. Þetta er hálfgert vistarband.“
Tap síðustu þriggja ára yfir milljarð
Spurður hvort að eitthvað fjárhagslegt hagræði geti orðið að uppsögninni fyrir Torg segir Jón að það sé eitthvað en þó ekki neitt sem máli skipti í rekstri félagsins. Félagsgjöldin séu hlutfall af launakostnaði og veltu fyrirtækja og það ráði ekki neinum úrslitum í rekstri Torgs. Það hafi því ekki verið áhrifaþáttur í ákvörðuninni.
Gildandi kjarasamningur Blaðamannafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins rennur út í lok október næstkomandi og því ljóst að kjarasamningsgerð mun hefjast áður en úrsögn Torgs tekur gildi. Jón segir að það muni ekki breyta miklu í kjarasamningsgerðinni. „Ég reikna með að við framseljum ekki lengur samningsumboðið heldur önnumst samningagerðina sjálf. Það verður auðvitað, eins og alltaf er, í takt við það sem er að gerast á vinnumarkaði. Þannig að ég held að það breyti fremur litlu.“
Torg ehf. gefur út Fréttablaðið og Markaðinn auk þess að rekar DV og Hringbraut. Á síðasta ári, 2021, tapaði félagið 240 milljónum króna og árið áður nam tapið 599 milljónum króna. Árið 2019 nam tap félagsins 212 milljónum króna og er því tap félagsins á síðustu þremur árum rúmu milljarður króna.
Á síðustu tveimur árum hefur tapinu verið mætt með því að 900 milljónum króna verið veitt inn í félagið með nýju hlutafé úr vasa eigenda. Helgi Magnússon fjárfestir á 91 prósent hlutafjár í félaginu í gegnum félögin Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf.
Athugasemdir