Rithöfundurinn George Orwell skrifaði afhjúpandi greiningar á orðfæri harðstjóra á fyrri hluti 20. aldar. Hann lýsti því hvernig þeir spilltu og eyðilögðu tungumálið til að geta logið að öðrum. Hvernig hugtök eins og fasisti, kommúnisti, rasisti og jafnvel lýðræði urðu á einhvern hátt mikilvægari en lífið sjálft. Hugtökin hættu að tolla við staðreyndir málsins. Við getum enn lært af skarpri greiningu Orwells.
Pútínstjórnin í Rússlandi reynir nú markvisst að brennimerkja stjórnvöld í Úkraínu með orðaleppum eins og nasisti og dópisti og skapa þá ímynd heima fyrir að rússneski herinn sé að bjarga úkraínskum og rússneskum borgurum frá nasistum sem stjórna nágrannaríkinu.
Þessi aðferð harðstjóra og innrásarherja er alþekkt úr sögunni. Orwell segir t.a.m. frá því í ritgerðum sínum hvernig Jósef Stalín breytti merkingu orðsins „trotskíisti“ (Leon Trotsky) og notaði það sem vopn til að ná markmiðum sínum. Hann hélt því m.a. fram að stjórnleysingjar sem börðust gegn Francisco Franko í borgarastyrjöldinni á Spáni á fjórða áratug 20. aldar, væru trotskíistar í þjónustu spænskra fasista.
Öll slík orðanotkun er til að afvegaleiða umræðu, hræða fólk og skerða tjáningarfrelsið en það getur verður sérstaklega hættulegt að aðskilja lygina frá staðreyndum í andrúmslofti lyga og blekkinga.
„Harðstjórar frussa lyginni og skyrpa blekkingu á rúðurnar sem við horfum í gegnum, þangað til við hættum að sjá út og þeir inn.“
Meira en hugrekki
Harðstjórar frussa lyginni og skyrpa blekkingu á rúðurnar sem við horfum í gegnum, þangað til við hættum að sjá út og þeir inn. Eina leiðin fyrir okkur er að hreinsa rúðuna, svo notuð sé orwellsk líking. Við þurfum að nota réttu orðin og hugtökin til að geta séð aftur í gegnum rúðuna.
Mótmælendur í Rússlandi, sem vilja þurrka burt óhreinindin og blóðið sem stjórn Pútíns skilur eftir sig, eru umsvifalaust handteknir og eiga svo yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi. Þeir þurfa því meira en hugrekki til að láta til sín taka, þeir þurfa að kunna að greina rétt frá röngu og búa yfir óbilandi hugsjón um mannréttindi. Þessir mótmælendur eru því varnarlausir undir harðstjórninni heima fyrir.
Orð og gjörðir Pútíns um Úkraínu eru öll af sama meiði; lygi, blekking, óheilindi, kúgun, valdníðsla, glæpir. Hann hefur endurskrifað söguna eftir eigin höfði, sögu Úkraínu og Rússlands. Hann virðist sannfærður um að geta breytt sögulegum staðreyndum.
Fyrir vikið eru íbúar Úkraínu á flótta, í neðanjarðarbirgjum eða án skjóls, matar, drykkja, örmagna og ráðþrota eða þurfa að leggja líf sitt að veði og berjast við óvinaherinn til að endurheimt landið, frelsið, friðinn, vinnuna, heimilið og fjölskylduna, allt sem það óbreyttir borgarar sækjast eftir.
Eru varnarbandalög lausn?
Tuttugasta öldin geymir vitnisburði um skelfilega harðstjóra sem svífast einskis og gæti ekki verið meira sama um líf barna og fjölskyldna sem vilja lifa mannsæmandi lífi.
Við þekkjum alræðið og harðstjóranna, Pútín er greinilega einn af þeim. Spurningar sem vakna eru 1. Hversu mikil verður eyðileggingin? 2. Hvernig eigum við að bregðast við? Ótal bækur, skýrslur, kvikmyndir eru til og Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna sem var rituð eftir hildarleikinn í síðari heimstyrjöldinni. Við getum því ekki skýlt okkur á bak við fáfræði, við höfum aðgang að upplýsingum og við getum ekki heldur notað gamlar klisjur.
Við þurfum að sjá lausnir sem blasa ekki við. Er lausnin að Þýskaland verði aftur herveldi, Finnland og Svíþjóð sæki um inngöngu í NATÓ og að Úkraína heiti því að ganga aldrei í NATÓ? Er þá von um varanlegan frið?
Hvaða lærdóma drögum við af sögunni?
Við þurfum að læra af sögunni, en læra hvað? Sjórnendur innrása beita iðulega tilteknu orðfæri, hvort sem þeir eru leiðtogar bandalagsþjóða Vesturlanda að ráðast inn í Írak eða Rússlands að ráðast inn fyrir landamæri Úkraínu.
Hver sá sem dregur þjóð sína út í stríð reynir iðulega að telja öðrum trú um að hann geri það fyrir mannkynið, og ef ekki allt, þá fyrir hinn vestræna eða austræna heim, fyrir hugsjónir og gildi og ef það dugar ekki, þá fyrir viðkomandi þjóð.
Í stríðsrekstrinum í Írak í byrjun 21. aldar tönglaðist innrásarherinn á nafni Saddams Hussein. Ástæðan sem gefin var fyrir stríðinu var sú að koma þessu illmenni fyrir kattarnef, finna gereyðingarvopn, uppræta hryðjuverkasamtök, frelsa írösku þjóðina og verja vestræn gildi eins og frelsi og lýðræði. Stjórn George W. Bush laug að öllum; löndum sínum, bandalagsþjóðum og sögðu hermönnum sínum að þeim yrði fagnað sem frelsurum í Bagdad.
Í innrásinni í Írak var stríðsreksturinn á forsíðum vestrænna fréttamiðla einfaldaður í baráttu milli góðs og ills með andlitsmyndum tveggja karla, Saddams og Bush, með fyrirsögninni: Hvor sigrar? líkt og þetta væri spil fyrir tvo leikendur. Myndin af þeim saman varð mikilvægari en veruleikinn sem fórnarlömbin bjuggu í, borgararnir sem misstu allt sitt. Mun þetta þróast svona aftur, verður það Pútín og Biden?
„Mun þetta þróast svona aftur, verður það Pútín og Biden?“
Saga misheppnaðra innrása á 21. öldinni
Fyrir 19 árum, 20. mars 2003, hófst innrás Bandaríkjanna, Breta og stuðningsþjóða þeirra, m.a. Íslands, innrás í óþökk Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega Þýskalands og Frakklands. Svipað orðalag var notað þá og nú og innrásin var líka byggð á lyginni. Fórnarlömbin voru þá eins og nú óbreyttir borgarar. Börn, konur, karlar þjást og verða fyrir varanlegum skaða sem elur á hatri sem flyst á milli kynslóða.
Innrásin í Írak var verslunarvara fyrir hagsmunaaðila en Írak býr yfir mesta olíuforða heims. Kannski snerist planið aðeins um að komast í olíuna? Saga innrásarinnar er ljót, einnig saga innrásarinnar í Afganistan og Víetnam með eiturefnaárásum. Saga innrásarinnar í Úkríanu er þegar orðin ljót og enn á ný leika hagsmunir tengdir hráolíu og gasi stórt hlutverk.
Munurinn er þó sá að mótmælendur og friðarsinnar á Vesturlöndum voru ekki handteknir og dæmdir eins og mótmælendur í Rússlandi núna. Í lýðræðisríkjum er oftast hægt að mótmæla stríðum og röngum ákvörðunum leiðtoga án þess að óttast um líf sitt, stöðu og afkomu og þar eru frjálsir fjölmiðlar enn starfræktir. Einnig geta borgarar fellt spillta leiðtoga í kosningum. Svo er ekki í harðstjórnarríkjum.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Ekki missa vonina! Við höfum upplifað friðartíma og þjóðir geta og hafa breyst. Það getur gerst aftur, en það gerist ekki af sjálfu sér, það þarf meira til. Benda má á aðferðafræði og lausnir friðarmenningar í stað vopnaframleiðslu og vítahrings hernaðarbandalaga.
Aðeins við, hvert og eitt okkar, getum staðið vörð um samfélagið. Hlutverk borgarans líður aldrei undir lok, ekki ábyrgð hans heldur. Heiðrum sextánda heimsmarkmið S.Þ. Friður og réttlæti: „Að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum".
George Orwell kenndi okkur fyrir sjötíu árum að sjá í gegnum lygi og blekkingar harðstjóranna og Timothy Snyder skrifaði um það fyrir nokkrum árum. Við þurfum að endurmennta okkur og læra að þurrka burt lygina.
Særum engan og höldum áfram að: mótmæla, rækta vinsemd, sýna kærleika og rétta hjálparhönd.
https://t.co/B93Q8eEHYW