„Ef ég væri yngri þá myndi ég fá mér byssu og fara. Eða gefa honum tesopa. Gott te,“ segir hin 83 ára Anna Þrúður Þorkelsdóttir sem Stundin ræddi við á förnum vegi um innrás Rússa inn í Úkraínu og hennar afstöðu hvað stríðið varðar. Anna Þrúður, eins og flestir viðmælendur, lýstu mjög harðri andstöðu við framferði Rússa.
Viðmælendur Stundarinnar telja almennt að íslenskir ráðamenn ættu að beita sér harðar gagnvart Rússum eftir innrás þeirra í Úkraínu. Í meira mæli ætti að beita beinum aðgerðum, svo sem að vísa sendiherra Rússlands úr landi og sömuleiðis sé þörf á að upplýsa Íslendinga betur um þær aðgerðir sem ráðist hafi verið í. Þó eru ekki allir á einu máli hvað það varðar, til eru þeir sem telja að stríðsrekstur Rússa í Úkraínu komi Íslendingum lítið við.
„Ég er hræddust um fólkið í Úkraínu og Rússlandi, öll börnin sem þurfa að fara“
Þá hefur fólk einnig áhyggjur af yfirlýsingum Pútíns um hugsanlega notkun kjarnavopna, þó misjafnt sé hversu líklegt það telur að alvara fylgi þeim yfirlýsingum. „Ég hef mínar efasemdir en því miður er sannleikurinn sá að hann er óútreiknanlegur maður þannig að það er hvað sem er sem getur komið fyrir. En vonum ekki,“ sagði einn viðmælenda.
Almennt fylgjast viðmælendur Stundarinnar vel með fréttaflutningi af stríðsrekstrinum í Úkraínu og eru vel upplýstir, ýmist með því að fylgjast með fréttamiðlum eða samfélagsmiðlum. Spurðir um ástæðurnar fyrir því er fólk almennt á því að nauðsynlegt sé að fylgjast með þróun mála, stríðið sé í Evrópu og í raun í næsta nágrenni við okkur. Þá eru segja sumir viðmælendur að þeir fylgist hreinlega of mikið með „af því að þetta er bara svo ömurlegt og ónauðsynlegt og þetta hittir mann í hjartastað.“
Almennt er fólk ekki óttaslegið um eigin hag en óttast hins vegar um afleiðingar stríðsins á almenna borgara í Úkraínu. „Ég er hræddust um fólkið í Úkraínu og Rússlandi, öll börnin sem þurfa að fara.“
Athugasemdir (1)