„Á þeim fjörutíu árum sem ég hef starfað við flóttamannaaðstoð víða um heim hef ég sjaldan séð svo mikinn fjölda fólks neyðast til að flýja heimili sín á svo skömmum tíma,“ sagði Filippo Grandi forstjóri Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu í morgun en síðastliðna viku hefur rúmlega ein milljón íbúa Úkraínu flúið heimili sín.
Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna birti kort sem sýnir hvert flóttafólkið hefur farið. Flest hafa flúið til Póllands eða tæplega 550 þúsund manns. Næst flestir hafa farið til Ungverjalands eða rúmlega 133 þúsund.
Þá segir Flóttamannaaðstoð SÞ að auk þessa hafi tæplega 100 þúsund Úkraínumenn flúið frá Donetsk og Luhansk í Úkraínu yfir landamærin til Rússlands dagana 18. til 23. febrúar, áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst aðfararnótt fimmtudagsins 24. febrúar.
Talið er að nokkur þúsund íbúa Úkraínu, bæði hermenn og óbreyttir borgarar hafi dáið í árásunum, þeirra á meðal tólf börn, hið minnsta.
,,Á hverri mínútu er fólk að flýja skelfilegt ofbeldi í Úkraínu“
Að óbreyttu telur Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna að fjöldi þeirra sem neyðist til að leggja á flótta frá Úkraínu eigi eftir að margfaldast og verði um fjórar milljónir áður en langt um líður.
„Á hverri mínútu er fólk að flýja skelfilegt ofbeldi í Úkraínu en óvíst er hversu margt fólk hefur nú þegar flúið heimili sín en er enn í felum í Úkraínu Ef það tekst ekki að stöðva átökin strax munu milljónir manna til viðbótar neyðast til að flýja land,“ segir Grandi í yfirlýsingunni.
Segir Bandaríkjamenn með Evrópu undir hælnum
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands hélt í dag blaðamannafund þar sem blaða- og fréttamönnum víða að úr heiminum gafst kostur á að spyrja hann út í innrás Rússa í Úkraínu.
Lavrov var á fundinum tíðrætt um hegðun stjórnmálafólks og blaðamanna á Vesturlöndum. Sagði hana byggða á tilfinningum en ekki staðreyndum. ,,Nú hafa Bandaríkjamenn Evrópu undir hælnum. Og við sjáum mjög vel núna hvaða hlutverki Evrópusambandið gegnir í raun og veru. Hlutverk þar sem þeim er gert að koma því til skila að það sé annað hvort hrein illska eða hrein góðmennska í heiminum, eins og við sjáum í Hollywood. Það er afar óheppilegt,“ sagði Lavrov á fundinum í dag. Síðan bætti við að hann teldi að fólk myndi á endanum róast „hysterían mun fjara út,“ sagði hann og að þá væri hægt að setjast niður og semja.
Lavrov sagðist hafa reynt að útskýra stöðuna eftir fremsta megni en að svo virtist sem tilfinningar fréttafólksins kæmu í veg fyrir að það næmi skilaboðin. „Ég skil að þið séuð í uppnámi en fréttamennska snýst um að greina frá staðreyndum ekki upplifun,“ sagði Lavrov.
„Það er ekki brjálað fólk sem stjórnar Rússlandi og það erum ekki við sem erum með kjarnorkustríð á heilanum“
Hann sagði einnig að Rússar væru tilbúnir að halda áfram að reyna að komast að samkomulagi en að aðgerðum þeirra í Úkraínu yrði haldið áfram á meðan á samningaviðræðum stæði.
Segir Vesturlönd íhuga stríð gegn Rússum
Vladimír Pútín forseti Rússlands tilkynnti fyrir nokkrum dögum að hann hefði skipað rússneskum hersveitum sem sjá um kjarnorkuvopn að vera í viðbragðsstöðu. Lavriv var á fundinum í dag spurður hvort hann gæti fullvissað heimsbyggðina um að ekki kæmi til kjarnorkuvopnaárásar.
Hann sagði að allt tal um notkun kjarnorkuvopna væri komið frá stjórnmálamönnum á Vesturlöndum og Nató. „Það er ekki brjálað fólk sem stjórnar Rússlandi og það erum ekki við sem erum með kjarnorkustríð á heilanum,“ sagði hann og varaði stjórnmálaleiðtoga á Vesturlöndum við að íhuga stríð gegn Rússum „Þeir þurfa að hugsa sig vel um áður en þeir skipuleggja stríð gegn okkur. Og þeir eru að íhuga það,“ fullyrti Sergei Lavrov utanríkisráherra Rússlands.
Athugasemdir