„Bókin Óskilamunir eru stuttar sögur, og inn á milli ljóð og ljósmyndir sem eru sjálfstæðar en kallast á og tengjast með nokkrum þráðum,“ segir rithöfundurinn Eva Rún Snorradóttir. Bókin fjallar um krossgötur, skilnaði, á ýmsum skeiðum í lífinu og ýmsum birtingarmyndum. „Skilnaði elskhuga, skilnaði vina, þegar maður þarf að skilja við eitthvað í sjálfum sér. Svo fjallar hún líka um sársauka, hvernig hann mótar okkur og hvernig hann vinnur og við með hann. Hún fjallar líka um ákveðinn performans í lífinu, það er mikið fjallað um sviðslistafólk og alls konar sviðslistir og hvernig lífið er eitt allsherjar grímuball. Svona verið að reyna að rekja það upp.“
Hún byrjaði að skrifa nokkrar sögur sem spruttu frá einhverju sem hún var að ganga í gegnum og upplifa. „Svo mótaði ég það með aðferðum skáldskaparins. Og svo bara hélt ég áfram og það opnaðist einhver taug. Það spruttu út þessar sögur og svo hef ég bara verið að elta það. Hún bara varð til í þeirri vinnu.“
Gott og fallegt að gefa út bók
Ólíkt mörgum öðrum þá unir hún sér illa við skriftir í algjörri ró, hún þarf á óreiðunni að halda. „Það tók mig tíma að fatta að ég þarf óreiðu, dýnamík til þess að skrifa. Þegar ég kem úr sviðslistinni og hef unnið í samsköpun þar sem við erum nokkur að kasta boltum og það verður einhver dýnamík. Ég er búin að vera undanfarin ár að þróa þá dýnamík ein, að búa til einhverja óreiðu með litlum miðum. Þannig að ég mæti á daginn og bý til rosa mikla óreiðu með miðum og listum og stundum hlutum. Og þá get ég byrjað að skrifa.“
Það er góð tilfinning að gefa út bók. „Mér líður vel með að bókin sé komin út. Mjög vel. Ég er mjög ánægð með hana, mér finnst gott að taka utan um þennan viðburð að gefa út bók. Þetta er stórt. Mér finnst það bara gott og fallegt.“
Athugasemdir