Í byrjun desember komu til landsins pólskir og litáískir listamenn til að vinna með íslenskum kollegum sínum, og ekki-listafólki sem býr á Íslandi en flutti hingað frá Póllandi og Litáen. Innan handar verða fræðimenn – mannfræðingur, heimspekingur og vistfræðingur. Verkefnið ber heitið Common Ground og leitast við að finna sameiginlegan samræðuflöt, eða sameiginlega jörð. Samtalið um verkefnið hófst fyrir mörgum árum fyrir tilstilli Akademíu skynjunarinnar og bar þá vinnutitilinn Hvar á ég heima?
Myndlistarmennirnir Ragnhildur Stefánsdóttir, verkefnastjóri Common Ground, og Anna Eyjólfsdóttir, listrænn stjórnandi, stofnuðu félagið Akademíu skynjunarinnar árið 2007. Í dag starfa við Akademíu skynjunarinnar ásamt tveim fyrrnefndu listamennirnir Þórdís Alda og Rúrí, Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur og Pari Stave listfræðingur. Félagið hefur staðið fyrir stórum sem smáum listasýningum hér heima og erlendis.
Sameiginleg jörð
Á síðasta ári var fyrsta afsprengi verkefnisins, sýning á Korpúlfsstöðum, samsýning ólíkra listamanna sem allir bjuggu á Íslandi en voru frá Póllandi, Litáen og Íslandi. Nú í desember er verkefnið tekið á annað stig þegar listamenn og fræðimenn frá þessum löndum vinna saman, borða saman og tala saman. Ísland er aðeins fyrsta stopp en í vor ferðast verkefnið til Póllands, og í haust til Litáen og hyggst gera svipað þar. Aðstandendur verkefnisins velta fyrir sér tilfinningunni um heimili, hvar er heima? Hvað er heima? Hvernig er heima? Í auglýsingum verkefnisins má sjá vangaveltur á borð við hvort heima sé kunnuglegur matarilmur, eða staður þar sem má segja sínar skoðanir, eða þar sem fólk deilir skoðunum með þér, eða jafnvel bara góði koddinn?
Markmið verkefnisins er að skiptast á hugmyndum, þekkingu og reynslu á millli stofnana, myndlistarmanna og vísindamanna, eiga opið samtal um hugtakið Common ground og leitast við að svara spurningunni Hvar er heima?
Laus við þjóðernishyggju
Hillbilly fékk einn þeirra sem leggur Ísland undir fót í viðtal um þetta stóra og viðamikla samvinnuverkefni þjóðanna. Sá sem situr fyrir svörum er Krzysztof Stanisławski, safnstjóri Znaki Czadu, CoCA, samtímalistasafnsins í Torun, Norður-Póllandi. Safnið er eitt þeirra sem hafa umsjón með verkefninu.
„Ég er listgagnrýnandi og sýningarstjóri samtímalistasýninga, hef stýrt um 200 sýningum síðan 1987,“ segir Krzysztof aðspurður um bakgrunninn. Sýningar sem Krizysztof hefur stýrt hafa verið um allan heim, víða í Evrópu og í Mongólíu, Suður-Afríku og Bandaríkjunum. Krzysztof sérhæfði sig í vísindalegri listfélagsfræði við Menningarstofunun Háskólans í Varsjá 1975–1979. „Ég er ekki vísindamaður heldur gagnrýnandi, sem þýðir að ég lít frekar á mig sem rithöfund en til dæmis listfræðing eða fræðimann,“ segir Krzysztof og heldur áfram, „mastersritgerðin mín var um dadaisma frá 1915, þegar hópur alþjóðlegra listamanna, aðallega liðhlaupar úr eigin herjum, skapaði framúrstefnulist í hlutlausu og lokuðu Zürich,“ lýsir Krzysztof.
Krzystof fæddist og ólst upp í Varsjá en býr tímabundið í Torun. Síðustu 10 til 15 ár hefur hann eytt heilu og hálfu árunum fyrir utan sína eigin landsteina vegna vinnu sinnar við sýningar. Hillbilly er að spá, hvar – eða hvað finnst Krzystof vera heima? „Fjölskyldan mín er haldin mikilli ættjarðarást. Í æsku minni var Pólland háð Sovétmönnum, en mér fannst það kerfi óviðunandi. Eftir að herlög voru sett á árið 1981 var ég virkur meðlimur í and-kommúnískum neðanjarðarsamtökum og eftir 1989 varð ég gagnrýnandi og sýningarstjóri með það að leiðarljósi að byggja upp nýja pólska menningu. Ég verð að viðurkenna að mér mislíkaði ekki bara kommúnistar heldur líka öfga-hægrimenn. Almennt séð hef ég andstyggð á öllu ólýðræðislegu valdi. Mér finnst ég vera pólskur og evrópskur og þetta er mín sjálfsmynd, laus við þjóðernishyggju.“
Listalíf Póllands
„Svarið við þessari spurningu myndi taka langa grein eða bók,“ segir Krzysztof léttur í bragði, aðspurður hvernig listalífið sé í Póllandi, en hann gefur Hillbilly stutta svarið. „Pólsk list er mikils virði en vanmetin í heiminum. Einu sinni, á tímum járntjaldsins, var lokað á okkur og pólskri list seinkaði um áratug eða tvo miðað við vestræna list. Í dag geta þó listamenn lifað frjálsir og ferðast.“ Krzysztof minnist líka á lífsgæðin sem felast í internetinu, og jafnvel samfélagsmiðlum, fyrir vinnandi listafólk. „Nú er allt opið, samstarf innanlands og utan og það er alltaf það mikilvægasta.“ Hver heldur Krzysztof að sé besta leiðin til að finna sameiginlegan grundvöll, eða common ground? „Í pólitískum skilningi gæti það til dæmis verið Evrópusambandið, frábært verkefni sem byggir á skýrum lýðræðislegum meginreglum. Í hugmyndafræðilegum og siðferðislegum skilningi ætti það að vera vinátta, þrá eftir skilningi, hreinskilni fyrir hugmyndum annarra og vilji til samstarfs,“ segir hann og undirstrikar að þjóðernishyggja leiði aldrei í rétta átt.
Verkefnið Common Ground snýst um tilfinninguna um heimili en líka umhverfisbreytingar. Er list hentug aðferð eða sameiningartæki, til að finna sameiginlegan flöt, þvert á ólíka menningarheima? spyr Hillbilly. „Ég hef fulla trú á list,“ svarar Krzysztof einfaldlega. Vegir listarinnar eru svo sannarlega óútreiknanlegir.
Sýnendur eru: Anna Eyjólfs, Paulina Kuhn, Krzysztof Stanisławski, Ragnhildur Stefánsdóttir, Evelina Januškaite, Egle Ganda Bogdaniene, Dawid Paweł Lewandowski, Paulina Tchurzewska, Andrii Dostilev, Sylwia Gorak, Maciej Kwietnicki, Ala Savashevich, Wiola Ujazdowska, Magda Wçgrzyn, Tomasz Markiewka, Páll Haukur Björnsson, Ragnhildur von Weisshappel, Sindri Leifsson, Anna Sigríður Sigurjónsdóttir, Pétur Magnússon, Kristín Reynisdóttir, Anna Wojtynska, Tomas Andrijauskas, Andrius Grigalaitis, Marija Griniuk, Solveiga Gutaute, Živile Minkute, Julija Pociutem og Justas Kazys.
Athugasemdir