Sjúklingi í hjartastoppi var vísað frá bráðamóttöku Landspítalans klukkan 20 mínútur yfir átta í gærmorgun vegna þess hve yfirfull hún var. Sjúklingnum var vísað á Hjartagátt Landspítalans á Hringbraut þar sem hann hlaut meðferð. Þetta staðfestir Helga Rósa Másdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku.
Helga segist líta málið alvarlegum augum. „Þetta er alls ekki gott, þetta er það sem bráðamóttakan á að sinna en hún var full af innlögðum sjúklingum. Það er ekki óvenjulegt að vísa sjúklingum á Hjartagáttina en af því að við vísuðum honum þangað vegna þess að bráðamóttakan var yfirfull hefur þetta verið skráð sem atvik.“
„Hvert erum við komin?“
Í samtali við starfsmann Landspítalans, sem vildi ekki láta nafns síns getið, kemur fram að atvikið hafi verið óvenjulegt.
„Í fyrsta skipti í gær kom upp svakalegt atvik á spítalanum, á bráðamóttökunni að í gær var bráðamóttakan það full að hún gat ekki tekið á móti hjartastoppi,“ segir starfsmaðurinn. „Númer eitt, tvö og þrjú er hlutverk bráðamóttökunnar að taka á móti bráðveiku fólki sem deyr ef það fær ekki þjónustu. Ef við getum ekki sinnt því, hvert erum við þá komin? Nú erum við komin svo langt út fyrir það að þetta sé fólk með flís eða kviðverki sem er að bíða. Við erum að hafna deyjandi fólki. Þetta eru almannahagsmunir sem eru í húfi af því að þetta gæti verið ég og þetta gæti verið þú,“ segir starfsmaðurinn.
Athugasemdir