Leiðin til iðrunar og bættrar breytni eftir brot eða mistök getur verið margvísleg, en hún liggur alltaf í gegnum sama staðinn: Sjálfsábyrgð. Þess vegna skiptir miklu máli, þegar maður miðlar betrun sinni, að endurvarpa heimssýn sem tekur mið af innri áhrifamætti.
Ábyrgð samfélagsins á gjörðum manns
Í viðtali við Kveik á RÚV í gærkvöldi lýsti Þórir Sæmundsson leikari því að hann hefði ekki verið ráðinn í fasta vinnu í fjögur ár vegna þess að opinberað hefði verið að hann sendi kynfæramyndir á 15 ára unglingsstúlkur, sem hann hafi talið vera 18 ára. Þegar leið á umfjöllunina kom í ljós að hann hafði líka farið yfir mörk samstarfskvenna sinna, samkvæmt eigin lýsingu. Eftir því sem leið á umfjöllunina kom meira og meira í ljós um ástæður þess að honum var sagt upp störfum, og viðhorf hans um takmarkaða sjálfsábyrgð.
Þegar gengið er á hann með hvers vegna hann sendi typpamynd á stúlkur sem hann hélt að væru 18 ára kom í ljós að hann veit ekki hvað honum finnst um það, annað en að honum finnst það „ekki kúl“ og „ekki stoltur af því“ og veit ekki hvernig hann myndi bregðast við í dag.
„Mér finnst svo erfitt að vera í stöðu þar sem ég á að verja það, af því að ég veit svo sem ekki sjálfur hvað mér finnst um það. Ég er ekki stoltur af þessu og mér finnst þetta ekki töff. Ég held að það verði þá bara að addressa það að vissulega hef ég sofið hjá ungum konum, sem fullorðinn maður, og með þeirra samþykki í hvert einasta skipti. Og stundum að þeirra frumkvæði, meira að segja.“
Fór yfir mörk samstarfskvenna
Miðað við frásagnir kvenna á Twitter og Facebook í dag eru að minnsta kosti sumar þeirra 16 eða 17 ára gamlar. Hann segist ekki hafa sótt í grunnskólastúlkur, en á meðal samstarfskvenna hans hafi verið ungir dansarar. „Ég tel mig nokkuð öruggan, eða er viss um að ég hafi farið yfir mörk samstarfskvenna minna, þegar ég var í Borgarleikhúsinu. Og ég ætla ekkert að kenna neinu um eða svoleiðis, en þarna er ég ennþá í neyslu og svolítið ruglaður á því, og er að vinna með mörgum ungum konum, dönsurum og svona í Mary Poppins. Og ég fékk tiltal frá leikstjóranum, þar sem ein þeirra hafði kvartað við hann út af skilaboðum sem ég hafði sent. Og það voru ekki nektarmyndir eða eitthvað svoleiðis, en óviðeigandi skilaboð, já. En svona áreiti á vinnustað, káf á, ganga á eftir, held ég og vona að ég hafi ekki gert. En ég er enginn engill og ég vil ekki að fólk trúi því að ég haldi það um sjálfan mig.“
Áður hafði hann gengist við háttsemi sinni í viðtali við DV, árið 2017, þar sem hann sagðist hafa gerst sekur um „ósæmilega hegðun og áreiti,“ sagðist hafa „farið yfir strikið og farið yfir siðferðismörk“. „Ég hef aldrei vísvitandi lagt mig eftir grunnskólabörnum,“ sagði Þórir, en misst stjórn á sér í kynferðismálum. Aðspurður um nektarmynd af honum sem hann var sagður hafa sent ungri stelpu og var sögð orsök uppsagnar hans í Þjóðleikhúsinu, kvaðst hann ekki vita hvort umrædd samskipti hefðu orðið í gegnum stefnumótasíðu á netinu eða Snapchat, því hann hafði verið virkur á báðum stöðum. „Þessi mynd sem hefur komið upp á yfirborðið, ég veit ekki hvaðan hún er,“ sagði hann þá. Nú sagðist hann hins vegar hafa vitað strax frá upphafi að hann hefði verið plataður af unglingsstúlkum og hefði sagt sömu söguna allar götur síðan.
Í gær lýsti hann því sem „mestu mistökum“ sem hann hefði gert að hafa veitt DV viðtal á sínum tíma, en ekki að hann hefði sýnt af sér ósæmilega hegðun og áreiti, farið yfir strikið og siðferðismörk.
Þegar líður á viðtalið við Kveik fallast honum hendur yfir samfélaginu í kringum sig, sem hefur gefið honum tvo kosti, að fara úr landi eða gerast glæpamaður. „Einhverra hluta vegna þá langar mig að búa hérna í þessu klikkaða samfélagi,“ segir hann.
Þetta klikkaða samfélag
Viðtalið og umfjöllunin í heild snerist um hvernig samfélagið hefði brugðist honum:
-Hann ólst upp í locker-room menningu: „Ég vil ekki nota þetta sem einhverja afsökun eða svoleiðis, en þetta eru staðreyndir málsins. Þegar ég er unglingur eða ungur maður, þá er það í rauninni metið að verðleikum að leggja margar konur,“ útskýrði hann.
-Enginn hafði beinlínis sagt honum að þetta mætti ekki.
-Íslensk samfélag er „klikkað“ og hann á sér þann einn kost í íslensku samfélagi að gerast glæpamaður: „Þetta er staðan sem ég er í. Ég þarf annað hvort að flýja þetta land eða gerast glæpamaður.“
-Hann sé fórnarlamb samfélagsins: „Ég er svo mikið fórnarlamb í þessu, einhvern veginn, en mig langar ekkert að vera það.“
-Hann hafi verið svo illa haldinn að hann hafi ákveðið að halda úti nafnlausum Twitteraðgangi, þar sem hann kvartaði undan metoo-byltingunni og gagnrýndi öfgafemínista, eða með orðum þáttarstjóranda Kveiks: „Og hvað gera menn í þessari stöðu? Sinnið verður þungt. Árin 2018 til 2019 hélt Þórir úti nafnlausum Twitteraðgangi, Boring Gylfi Sig.“
Í lokin dró þáttarstjórnandinn saman stöðuna í samfélaginu, að enginn annar hefði treyst sér til að tala um þessi mál við Kveik: „Þetta sýnir hversu viðkvæmt málefnið er, það er ótti sem fylgir því, ótti við útskúfun, ótti við að misstíga sig í umræðu, eða bara að lenda í kastljósinu, því það fer enginn flekklaus í gegnum lífið, það lifir enginn heila ævi án þess að gera einhver mistök eða bara haga sér miðað við tíðarandann, sem mælistika nútímans sýnir að sé óviðunandi núna.“
Þannig lauk umfjöllun um mann sem sótti kynferðislega í ungar samstarfskonur, sendi óviðeigandi skilaboð á unga samstarfskonu, typpamynd á stúlku(r) á menntaskólaaldri og er sakaður um fleira án þess að hafa nefnt það.
Frjáls vilji og eigin ábyrgð
Auðvitað getur verið að samfélagið hafi brugðist Þóri, bæði í aðdragandanum og nú þegar hann hefur ekki fengið fasta vinnu, en á sama tíma taki hann ábyrgð á sínum hluta, sem er þá þess minni eftir því sem hlutur samfélagsins er stærri. Við verðum öll fyrir áhrifum af umhverfi okkar. En þótt við lifum við ytri áhrifaþætti er hefðbundna skilgreiningin sú að heilbrigt fólk hafi frjálsan vilja sem tilheyri samsvarandi ábyrgð. Það hvernig við horfum á eigin stöðu í heiminum hefur mikil áhrif á virkni okkar. Í sálfræðinni er talað um innri stjórnrót (internal locus of control) og ytri stjórnrót (external locus of control). Þetta er endurómað í æðruleysisbæninni: „Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.“
Einn grundvöllur femínismans er ytri áhrifaþáttur á líf kvenna, að feðraveldi hafi haldið niðri konum, vegna kyns. Líklega efast enginn um þær forsendur og næg eru sönnunargögnin. Það að samfélagið hafi refsað konum fyrir kyn sitt er ekki samsvarandi áhrifaþáttur og að ákvarðanir og atferli manns sjálfs hafi afleiðingar.
Kannski mætti færa rök fyrir því að konur hefðu átt að fremja glæpi til að bregðast við óréttlætanlegri kynbundinni stöðu sinni. En í tilfelli Þóris afléttir hann í orði ábyrgð sinni til fortíðar og til framtíðar, vegna stöðu sem er sannarlega afleiðing af hans eigin gjörðum en ekki kyni eða öðru óviðráðanlegu utan frjáls vilja hans. Það að hann leiti í ytri stjórnrót, vísi ábyrgð á samfélagið og kalli það „klikkað“, er auðvitað áhyggjuefni áhugafólks um ábyrgð fólks á eigin gjörðum.
Er útilokunin raunveruleg?
Undirliggjandi staðhæfingin, eða spurningin, sem Kveiksþátturinn leiðir að, er þessi: Erum við, sem samfélagið, klikkuð, og orðin að gerendum Þóris Sæmundssonar, þess sama og ungar konur kvörtuðu undan? Og víðari spurningin: Erum við skipulega að gera hæfileikamenn að utangarðsmönnum fyrir einföld mistök, þar af leiðandi að glata tækifæri til að njóta hæfileika þeirra og svipta þá tækifæri til að nýta og þróa þá áfram?
Auðvitað eru mismunandi skoðanir á því hversu miklar afleiðingar eigi að vera af því fyrir fullorðinn mann að áreita ungar samstarfskonur og senda kynfæramyndir á menntaskólastúlkur. En skoðum aðeins raundæmi úti í samfélaginu.
Í síðasta mánuði hófust sýningar á kvikmyndinni Leynilöggan, sem varð söluhæsta mynd allra tíma strax í upphafi. Í stóru hlutverki er Egill Gillz, sem var tvisvar kærður fvrir nauðgun, án sakfellingar, og gagnrýndur fyrir alls konar hluti sem þarf ekki að rifja upp, og flestir eru sammála að eru í besta falli ógeðfelld smættun á konum, sumum nafngreindum, í kynferðislegt samhengi.
Björn Bragi Arnarson hætti sem kynnir í Gettu betur, spurningaþætti fyrir menntaskólakrakka, eftir atvik sem náðist á myndband. Nú eru í spilun auglýsingar frá fjölmiðlafyrirtækinu Sýn með lagatextanum: „Þá vil ég vera hjá þér“, þar sem Björn Bragi segist vilja vera hjá okkur, með spurningaþáttinn Kviss. Sumir vilja ekki að hann sé hjá þeim, og ákveðið hlutfall fólksfjöldans vill að hann verði ekki á dagskrá. En niðurstaðan er að hann er með sjónvarpsþátt, og var auk þess með vinsælt uppistand um sjálfan sig.
Svo eru það knattspyrnumenn sem hafa ekki verið valdir sem fulltrúar íslensku þjóðarinnar í landsliðið vegna áskana kvenna sem eru til rannsóknar. Loks aðrir listamenn, sem ekki hafa komið fram með sama hætti í kjölfar ásakana, en dæmi eru um að menn hafi sjálfir dregið sig í hlé vegna fyrri framgöngu.
Úrræði samfélagsins
Skoðum síðan úrræði samfélagsins. Stjórnendur í fyrirtækjum geta oftast ekki sagt upp fólki á grundvelli áreitni, án þess að kalla yfir sig dómsmál. Sönnunarbyrði í slíkum málum er þannig að ekki einu sinni dómstólar ná árangri í flestum tilfellum. Það hefur ekkert gildi fyrir dómstólum að fimm stelpur segi sams konar reynslusögu af sama manninum, ef sönnunargögn eru ekki til staðar.
Samfélagið er því með takmörkuð úrræði til að taka á svona málum og hefur hingað til haft takmarkaðan vilja. Viðhorfsbreyting og geta fólks til að miðla eigin frásögnum hefur síðan fært öðru fólki getuna til að beita þrýstingi til þess að afleiðingar verði af brotlegri breytni gegn ungum konum og að velferð þeirra njóti vafans.
Á sama tíma koma fram lögfræðingar eins og Sigurður G. Guðjónsson, sem telur að ekkert sé brot nema það sé sannað fyrir dómi, með þeirri undantekningu að það sé ofbeldi og brot þegar fólk kvarti undan brotum manna og kalli eftir afleiðingum. „Konur þessar veigra sér ekki við að hvetja til viðskiptabanns gegn einstaklingum og fyrirtækjum einstaklinga sem þær merkja sem ofbeldismenn og nauðgara ... Vonandi fer ofbeldi af hálfu þessar kvenna að ljúka. Þeim er ekki treystandi. Síst af öllu til nokkurra góðra verka,“ skrifaði hann á Facebook og nafngreindi þar hátt í 60 konur sem „ofstækiskonur“.
Spurningin sem vaknar, er hvort það eru mannréttindi að fá að starfa við það sem maður velur, til dæmis að standa á sviði í Þjóðleikhúsinu, eða hvort maður verði sviptur tækifærinu vegna framkomu baksviðs og úti í samfélaginu? Eða á móti, hafa konur, sem karlar, rétt á því að tjá sig um andstöðu sína við einhvern aðila fyrir tiltekna framkomu sem lýst er af öðrum?
Samfélagið veitir þessum mönnum vopn, sem er meiðyrðalöggjöf. Fólk sem tjáir sig óvarlega um karla á yfir höfði sér að vera dregið fyrir dómstóla mörgum árum síðar með milljónakostnaði.
Á endanum verður þetta ekki bara spurning um atvinnurétt tiltekins manns, heldur líka um tjáningarfrelsi þolenda og rétt ungra kvenna til atvinnu án áreitni.
„Hakkavélin“
Þessi nýju úrræði samfélagsins til að takast á við þá sem fara yfir mörk kvenna eru kölluð „hakkavélin“ í umfjöllun Kveiks. En hvernig ætli sé fyrir unga konu að lenda í hakkavélinni sem fer í gang þegar sú túlkun ryður sér til rúms að menntaskólastelpa hafi gert miðaldra hæfileikamann að fórnarlambi, með því að móttaka frá honum typpamynd eða verða fyrir áreitni hans? Það var ekki til umfjöllunar, enda svo sem ekki hægt að fjalla um allt í einu.
Umræðan nú hefur snúist um hvernig ungar stúlkur hafi tælt frægan leikara til að senda kynfæramynd af sér. Það stendur ekki á viðbrögðum þeirra sem horfðu á viðtalið hjá RÚV. „Hver okkar hefur ekki gert eitthvað kjánalegt sem var þess eins til góðs að læra af því,“ segir einn áhorfenda Kveiks. Önnur segir að unglingsstúlkur hafi níðst á honum. Þriðja segir: „Stúlkurnar voru 15 ára en þó ekki meiri börn en það að senda póst á viðkomandi með þeim ásetningi að gera honum illt, hversu saklausar eru þær??? Maðurinn taldi sig vera að tala við eldri stúlkur en hann er tekinn af lífi. Hvar eru þessar stúlkur í dag?“
Fleira kemur á yfirborðið
Í viðtalinu við Kveik lýsir Þórir ítrekað undrun yfir atburðarásinni, ekki síst að honum hafi verið sagt upp störfum. „Eins lítið og þetta samfélag er, væri það ekki komið upp á yfirborðið núna, ef ég væri einhver hrotti? Eða ef ég væri að senda myndir af mér á grunnskólabörn, út um allt, af því að það væri eitthvað sem ég gerði. Væri það ekki komið upp á yfirborðið núna?“ spyr hann.
Eftir að þátturinn var fluttur hafa konur stigið fram og sagt frá því að þær hafi verið frá 16 ára aldri þegar hann hafi átt í samskiptum við þær.
Alveg eins og sönnunarbyrði þolenda er erfið var erfitt fyrir þáttarstjórnanda Kveiks að vita hvers eðlis upplifanir og afleiðingar ungu samstarfskvenna hans voru af honum þegar hann „fór yfir mörk“, þar sem þessar frásagnir ná einmitt ekki alltaf upp á yfirborðið af áðurgreindum ástæðum.
Þórir sagðist í viðtalinu hafa verið asni, en ekki gerandi. Reyndar bara „týpískur karlmaður kannski og allt það en það hefur hingað til ekki verið glæpsamlegt,“ eins og hann lýsir því.
Líklega taka fæstir undir að lýsingar á atferli Þóris, ekki síst hans eigin lýsingar, eigi við um dæmigerðan karlmann. „Ég var 16 ára og hann 36 ára, hann notfærði sér það. Hann vissi hvað ég var gömul,“ segir ein þeirra, undir nafni sem hitti hann sjálfviljug.
Uppbyggileg umræða um þessi mál þarf að byggja á góðum grunni og meginefnið í honum er ábyrgð. Ef framhaldið byggir á því að „klikkað“ samfélagið sé að brjóta á miðaldra karlmönnum í áhrifastöðu, sem í kjánagangi sínum hafi stundað að komast yfir unglingsstúlkur og ungar samstarfskonur, er engin leið áfram.
Auðvitað þarf fólk að fara varlega í umræðunni og flestir eru sammála um að það þurfi að vera til farvegur sem skilar bæði þolendum og gerendum fram á veginn. En það þýðir ekki að ábyrgð gerenda verði færð frá þeim yfir á samfélagið eða raunverulega þolendur þeirra. Ábyrgðin á sér alltaf stað og þangað liggur leiðin.
Athugasemdir