Eignarhaldið á vatnsverksmiðjunni í Ölfusi, Icelandic Glacial, sem Jón Ólafsson fjárfestir hefur byggt, er í gegnum Tortólafélag sem sonur hans, Friðrik Ólafsson, er skráður fyrir. Þetta kemur fram í gögnum í Pandóruskjölunum svokölluðu.
Tortólafélagið heitir Barak Investment Ltd. og var stofnað árið 2011. Jón og börn hans þrjú, Kristján, Katrín og áðurnefndur Friðrik, áttu um tíma öll hlutabréf í Tortólafélaginu. Árið 2016 eignaðist Friðrik svo öll bréfin í því, samkvæmt undirrituðum gögnum sem er að finna í Pandóruskjölunum. Þetta félag á 39 prósenta hlut í vatnsverksmiðjunni í Ölfusi sem Jón Ólafsson hefur verið kenndur við síðastliðinn áratug.
Pandóruskjölin sýna umtalsverð umsvif Jóns Ólafssonar og fjölskyldu við skattaskjólið Tortóla. Slík tengsl Jóns Ólafssonar hafa raunar margoft áður komið fram í fjölmiðlum og hefur hann svarað fyrir þau opinberlega. Pandóruskjölin eru því bara enn eitt dæmið.
Athugasemdir