Dæmi er um að innheimtufyrirtæki fimmfaldi kröfu á hendur neytendum vegna vanskila. Þannig greina Neytendasamtökin frá tilfelli í nýju tölublaði Neytendablaðsins þar sem höfuðstóll fór úr 5.085 krónum í 31.694 krónur vegna „innheimtukostnaðar“, en um var að ræða raðgreiðslu.
Neytendasamtökin hafa leitað til dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneytisins með að „skikki verði komið á eftirliti með innheimtustarfsemi óháð starfsheiti eigenda þessara fyrirtækja“. Í Neytendablaðinu kemur fram að „þrátt fyrir ótal ítrekanir hafa engin svör borist frá ráðherra eða ráðuneytinu.“
Lögmenn nýta smugu í lögunum
Innheimtuferillinn er þannig upp byggður að fyrst er farið í frum- og milliinnheimtu, eftir innheimtuviðvörun, ef neytandi greiðir ekki kröfu fyrir eindaga. Um þessi stig gilda innheimtulög. Þegar krafa er ekki greidd á þessum stigum getur lánveitandi eða fulltrúi hans farið í löginnheimtu, sem á að vera undanfari að því að yfirvöld knýja skuldarann til að greiða með réttarfarsúrræðum. Ákvæði innheimtulaga eiga ekki við um löginnheimtuna.
Hin hliðin er að lögmenn sem reka innheimtustarfsemi eru undanskildir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, ólíkt innheimtufyrirtækjum. Þannig geta lögmenn sem stunda löginnheimtu átt nokkuð frítt spil gegn skuldurum og þurfa aðeins að lúta eftirliti Lögmannafélags Íslands, sem hefur þó enga heimild til að afturkalla starfsleyfi.
„Telja Neytendasamtökin mjög brýnt að eftirlit með innheimtustarfsemi sé á einni hendi og hjá stofnun sem hefur heimild til að afturkalla starfsleyfi þegar það á við,“ segir í Neytendablaðinu.
Samtökin taka dæmi af lögmanni sem innheimti lán, sem staðfest var að bryti gegn neytendalögum. Þótt lögmaðurinn hefði verið áminntur fyrir að stunda löginnheimtu „sem augljóslega var ekki hugsuð sem undanfari réttarfarsaðgerða“ gat hann haldið óáreittur áfram starfsháttum sínum. Eftir að hafa verið úrskurðaður brotlegur stefndi hann neytandanum fyrir dóm til þess að fá úrskurðinum hnekkt.
„Nær takmarkalaus“ kostnaður við vanskil
Dæmið sem Neytendasamtökin tilgreina snýr að því að ef raðgreiðslulán fer í vanskil er hver afborgun innheimt sérstaklega, með fyrrgreindum afleiðingum, þar sem dráttarvegxtir af rúmlega 5 þúsund króna skuld eru 864 krónur, seðilgjald 298 krónur og „innheimtukostnaður“ 25.447 krónur.
Ástæður þess að Norðurlöndin hafa sett meiri skorður við innheimtustarfsemi en Ísland er að viðskiptamódel smálánafyrirtækja gerir ráð fyrir að þau nýta sér heimild til að margfalda kostnað neytenda með hörðum innheimtuaðgerðum sínum.
„Smálán sem í boði eru á Íslandi bera ekki lengur ólöglega háa vexti, en á hinn bóginn getur kostnaður við vanskil verið nær takmarkalaus,“ segir í umfjöllun Neytendasamtakanna.
Athugasemdir