Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, hefur sent Alþingi og dómsmálaráðuneytinu kæru vegna framkvæmdar talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi eftir kosningar til Alþingis um liðna helgi. Krefst Magnús þess að Alþingi úrskurði kosningar í kjördæminu ógildar og að uppkosning fari fram hið fyrsta.
Magnús krefst þess sömuleiðis að Alþingi fresti því að úrskurða um kjörbréf allra þingmanna Norðvesturkjördæmis, sem og um kjörbréf uppbótarþingmanna. Um er að ræða sextán þingmenn alls, sjö kjördæmakjörna þingmenn kjördæmisins og níu uppbótarþingmenn í öllum kjördæmum.
„Eina leiðin til að leysa úr þeim vanda sem við blasir er að skipa nýja og hæfa yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi og endurtaka kosningarnar þannig að hafið sé yfir allan vafa að farið sé eftir lögum og reglum“
Beinir Magnús kærunni til Alþingis sökum þess að samkvæmt stjórnarskrá er það Alþingis sjálfs að skera úr um hvort þingmenn séu löglega kosnir. Ástæða þess að kærunni er einnig beint til dómsmálaráðuneytisins er sú að í lögum um kosningar til Alþingis er tilgreint að kærum skuli beint til ráðuneytisins. Hins vegar segir einnig í lögunum að ráðuneytinu beri að vísa slíkri kæru til Alþingis.
Ótal annmarkar á framkvæmdinni
Magnús heldur því fram í kærunni að allir framboðslistar í kjördæminu hafi verið ólöglega kosnir vegna anmarka við framkvæmd kosningarinnar, eða öllu heldur við annmarka á talningu. Tiltekur hann helstu rök fyrir því, þau helst að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð að lokinni talningu sem skylt er samkvæmt lögum; að umboðsmanni Pírata, sem í þessu tilviki var Magnús sjálfur, hafi ekki verið gert viðvart um að ákvörðun hefði verið tekin um að endurtalning atkvæða skyldi fara fram og hún hafin og henni haldið áfram þrátt fyrir mótmæli hans og að Landskjörstjórn hafi bókað að ekki hefði borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis um að meðferð og varðveisla kjörgagna hafi verið fullnægjandi.
Auk þessa bendir Magnús á að í fjölmiðlum hafi verið fluttar fréttir af því að óviðkomandi aðili hafi komist inn í talningasalinn milli talninga og tekið myndir þar án þess að neinn úr yfirkjörstjórn hafi verið sjáanlegur í salnum. Þá megi ráða það af fundargerð að aðeins formaður kjörstjórnar hafi verið viðstaddur þegar kjörgögn voru opnuð og talning hafin að nýju. Sá sami formaður, Ingi Tryggvason, hafi þá ítrekað tjáð sig um það í fjölmiðlum að fylgt hafi verið hefðum fremur en kosningalögum.
Telur Magnús að með því sem að framan er rakið hafi traust á úrslitum kosninganna tapast. „Eina leiðin til að leysa úr þeim vanda sem við blasir er að skipa nýja og hæfa yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi og endurtaka kosningarnar þannig að hafið sé yfir allan vafa að farið sé eftir lögum og reglum. Það er sanngjörn og réttmæt krafa frambjóðenda og ekki síst kjósenda í kjördæminu.“
Segir Magnús grafa undan trausti á alþingiskosningar
Í leiðara Morgunblaðsins í gær, undir heitinu „Jafnvel ákafamenn verða kunna sér hóf,“ var Magnúsi gefið að sök vera „fiska eftir því að fá fram nýjar kosningar í „sínu kjördæmi““ vegna „meintra alvarlegra mistaka“ af hálfu yfirkjörstjórnar í kjördæminu. Að mati þess sem leiðarann skrifar er Magnús að teygja sig „eins langt og hægt er“ til að tapa ekki í kosningunum.
Þá er Magnús einnig sagður vanhæfur til að fjalla um málið. „Hann fékk 6,3% atkvæða í kosningunum og náði ekki kjöri. Nú er honum greinilega kappsmál að fá að reyna aftur og gengur harkalega og einstrengislega fram með þá kröfu sína að alþingismenn ógildi kosninguna.“
Gallarnir skipta ekki „raunverulegu“ máli
Til þess að endurtalning komi til greina segir pistlahöfundur að það þurfi að vera „verulegir“ og „alvarlegir“ gallar sem „raunverulegu máli skipta“ á framkvæmd kosninga og talningu atkvæða. „Ekkert slíkt [hefur] enn komið fram,“ segir í leiðara.
Gert er lítið úr þeim athugasemdum að innsigla þurfi kjörgögn áður en þau eru send áfram til réttra aðila. Þá segir skýrum stöfum að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að það hafi í raun verið ágalli á vinnubrögðum yfirkjörstjórnar.
Leiðarahöfundur heldur því fram að það sé reynt að gera það tortryggilegt að einn af húsráðendum á kjörstað hafi tekið mynd af kjörgögnum óinnsigluðum í talningarsal í lok talninga og að ekkert sé athugavert við hana.
Að lokum segir að það sé „alvarlegt mál að grafa undan trausti almennings á alþingiskosningum. Það sem fram hefur komið í þessu máli gefur ekkert tilefni til að það sé gert.“
Hagsmunir einstaka frambjóðenda
Í leiðaranum er á nokkrum stöðum vísað í pistil Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem hann birti á vefsíðu sinni í gær. Þar staðhæfir Björn að Píratar og Miðflokkurinn hafi farið illa út úr kosningunum og þess vegna fari „fallkandídatar“ þeirra mikinn í því að „ala á tortryggni í garð þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna og talningu atkvæða í NV-kjördæmi“.
Hann segir Magnús Davíð Norðdahl vera reyna að koma sér á þing með því að fara fram á að láta ógilda kosninguna. „Í Kastljósinu færði Magnús Davíð þetta hagsmunamál sitt í þann búning að vegna ágreinings um talningu atkvæða í NV-kjördæmi í kosningum sem leiddu til skýrrar niðurstöðu af hálfu kjósenda sé allt stjórnkerfi þjóðarinnar í húfi,“ skrifaði Björn.
Björn segir að vilji kjósenda skipti mestu máli í kosningum og Magnús sé að ganga gegn þeim vilja sem sínum röksemdarfærlsum. Hann segir Magnús gefa ekkert fyrir það að Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu, hafi byggt störf sín á hefð sem „gengi framan almennum lögum, í þessu tilviki kosningalögum.“
Að lokum segir Björn að örlög frambjóðenda í jaðarsætum ráðist ekki af rannsókn lögreglu heldur „vilja kjósenda“ og að vilji kjósenda ráði ákvörðun þingmanna í þessu máli en ekki „hagsmunir einstakra frambjóðenda“.
Í öðrum pistli um sama efni segir Björn:
„Fljótræðisleg viðbrögð þeirra sem eiga um sárt að binda vegna mannlegra mistaka við atkvæðatalningu duga ekki til að kollvarpa úrslitum kosninga.“
Athugasemdir