Fyrir rúmum tveimur árum mælti kunningi með bókinni „Why we sleep“ eftir einn fremsta svefnsérfræðing í heimi, Matthew Walker. Gott og vel. Eitt af mínum helstu áhugamálum hafði verið að sofa, af hverju ekki að kíkja aðeins undir húddið?
Bókin er áhugaverð. Þegar við vorum skepnur á gresjunni þurfti að hafa auga með rándýrum um nætur, þannig að náttúran raðar okkur handahófskennt í A og B týpur svo ekki séu allir sofandi á sama tíma. Í svefni vinnum við úr minningum okkar og upplifunum. Erum í rauninni að læra á meðan við hvílumst.
Einnig fer bókin djúpt í alvarlegar afleiðingar ónógs svefns. Sex tímar er lágmark. Allt undir því til langs tíma og kvillarnir eru bæði líkamlegir og andlegir. Þunglyndi og kvíði. Alzheimer og Parkinson. Þyngdarsveiflur. Líffærabilanir. Grafalvarlegt dót.
Stuttu eftir lestur bókarinnar tilkynnir kærastan að við ættum von á öðru barni. Gott og vel. Ekki planið, en við klárum þetta. Eldra barnið, dóttir okkar, hafði allaf verið vondur sofari. Lengi að sofna. Mikið að vakna. Bröltari. Árrisul. Sanngjarnast væri að nú eignuðumst við góðan sofara.
Sonur okkar fæddist í október 2019. Fjölfæðuofnæmið átti ekki eftir að uppgötvast fyrr en mörgum svefnlausum mánuðum síðar. Gubbaði svo mikið fyrstu mánuðina að á næturnar þurftum við 10–15 gubbuklúta klára við rúmið. Hvað er að barninu? spurðum við. Bakflæði? svöruðu læknar og ypptu öxlum. Ekki var það bakflæði. – Þetta er náttúrlega voða leiðinlegt, svona gubb. Mikill þvottur, sagði einn. Já, voða leiðinlegt. Þvottavélin alveg að bræða úr sér. Við líka.
Nú nálgast hann tveggja ára aldurinn. Sefur enn illa. Með exem vegna þeirra hundraða hluta sem hann er með ofnæmi fyrir. Klórar sér, vaknar hóstandi, skilur ekkert. Grey kallinn.
Snjallúrið mitt segir mér að síðustu viku hafi ég sofið að meðaltali 5 klukkustundir og 6 mínútur hverja nóttu. Undir lágmarki. Hefði ekki átt að lesa þessa asnalegu bók. Færði mér bara aukna þekkingu á því sem óhjákvæmilega bíður mín. Þunglyndi og kvíði. Alzheimer og Parkinson. Líffærabilanir. Gott og vel.
Athugasemdir