Stóreignaskattur er sanngjörn og hagkvæm leið til að vinna gegn ójöfnuði, afla tekna og hvetja til arðbærra fjárfestinga.
Við í Samfylkingunni höfum lagt til að slíkur skattur leggist á hreina eign umfram 200 milljónir króna.
Með þessu sköpum við svigrúm til að draga úr skattbyrði og auka ráðstöfunartekjur lágtekju- og millitekjufólks gegnum barnabóta- og almannatryggingakerfið.
Þetta er skynsamleg skattastefna og kannanir benda til þess að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sé sammála um það.
En Sjálfstæðisflokkurinn er á öndverðum meiði. Og engan skyldi undra, flokkurinn hefur jú rekið skattastefnu undanfarna áratugi sem snýst um að létta skattbyrði af hátekju- og stóreignafólki og velta henni yfir á lágtekju- og millitekjufólk.
Það er kúnstugt að fylgjast með áróðrinum sem Sjálfstæðismenn reka nú gegn stóreignaskatti Samfylkingarinnar.
Mýtan um að ekkjur verði bornar út úr húsunum sínum virðist ekki lengur eiga upp á pallborðið, svo nú er gripið til lögfræðilegra loftfimleika.
Teitur Björn Einarsson, þingframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins, fullyrðir í pistli á Vísi.is að stóreignaskattur standist ekki stjórnarskrá.
Hann vitnar í dóm Hæstaréttar nr. 726/2013 um auðlegðarskattinn sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur innleiddi eftir hrun og staðhæfir að Hæstiréttur hafi dæmt skattinn „lögmætan á þeim forsendum að hann væri tímabundinn og líta þyrfti til þeirra aðstæðna sem uppi voru í þjóðfélaginu við fall viðskiptabankanna og tekjuhruns ríkissjóðs“.
Þarna túlkar hann niðurstöðu Hæstaréttar eftir hentisemi því ekkert í dóminum gefur til kynna að þetta atriði, aðstæðurnar sem uppi voru þegar auðlegðarskatturinn var lagður á, hafi eitt og sér ráðið úrslitum um hvort skatturinn stæðist eignarréttarvernd stjórnarskrár.
Raunar var þetta ekki í fyrsta skipti sem Hæstiréttur lagði blessun sína yfir skattheimtu af þessu tagi.
Þegar þrepaskiptur stóreignaskattur með háu fríeignamarki var lagður á auðugustu Íslendingana árið 1949 taldi Hæstiréttur skattinn standast stjórnarskrá, og það þótt skattprósentan væri allt frá 10 prósentum upp í 25 prósent. Þegar skatturinn var lagður á öðru sinni árið 1957 var niðurstaðan hin sama: „skattgjaldið ekki svo hátt, að lagt verði á borð við upptöku fjár,“ segir í dóminum.
Skatturinn frá 1957 lagðist aðeins á 604 einstaklinga en var samt talinn standast jafnræðisreglu. Hann var lagður á með sjö ára millibili og gat samanlagt falið í sér allt að 50% skatthlutfall en Hæstiréttur gat ekki fallist á að um eignaupptöku væri að ræða (því til samanburðar nam hámarksskatthlutfall auðlegðarskatts Jóhönnustjórnarinnar 4,75% yfir þriggja ára tímabil).
Í dómi Hæstaréttar um auðlegðarskattinn er bent á að rík hefð sé fyrir því á Íslandi að skattleggja eignir, það hafi raunar verið gert síðan á 11. öld. „Hefur löggjafinn svigrúm til að haga þeirri skattlagningu þannig að maður greiði engan skatt ef verðmæti eigna hans nær ekki tiltekinni fjárhæð og jafnframt að skatturinn fari stighækkandi eftir því sem verðmætið er meira,“ segir Hæstiréttur.
Stóreignaskattur þarf að vera vandlega útfærður í lögum, skýr og fyrirsjáanlegur, samræmast meðalhófi og lagður á eftir almennum viðmiðum og án mismununar. Sé gætt að þessum grundvallarsjónarmiðum og vandað til verka bendir ekkert til annars en að hann standist stjórnarskrá samanber fyrrnefnd dómafordæmi.
Teitur Björn segir í grein sinni að sér þyki „merkilegt að flokkur eins og Samfylkingin, sem leggur mikla áherslu á nýja stjórnarskrá, skuli ekki bera meiri virðingu fyrir gildandi stjórnarskrá en raun ber vitni“.
En lýsir það sérstakri virðingu gagnvart stjórnarskránni að veifa henni í örvæntingu og nota sem skálkaskjól þegar önnur rök þrýtur í baráttunni fyrir óvinsælum málstað? Ég leyfi mér að efast um það. Það er margt í núgildandi stjórnarskrá sem þarf að færa til nútímalegra horfs en núgildandi stjórnarskrá er ekki svo vond að hún útiloki vinstripólitík og réttláta skattheimtu í anda jafnaðarstefnu.
Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Athugasemdir