Ragnar, þú ert í öðru sæti á tekjulistanum. Hvernig blasir það við þér?
Ég veit ekki hvernig stendur á því.
Veistu ekki hvernig stendur á því?
Nei, ég er ekki með neinar tekjur.
Nei, það er reyndar rétt, þú ert ekki með neinar tekjur en þú ert með svakalegar fjármagnstekjur, ég kann varla við að taka þetta fram, þú ert með 1,6 milljarða í fjármagnstekjur, þannig að heildarárstekur þínar eru rúmlega 1,6 milljarðar.
Jájá.
Hvernig finnst þér að vera í öðru sæti?
Mér er alveg sama, ég verð aldrei vitlaus af peningum. Þetta er bara af því að ég veiktist svo mikið og ég seldi útgerðina. Ég fékk krabbamein og er nú orðinn 76 ára gamall og hugsaði með mér að þetta væri komið nóg. Ég bara seldi þetta allt saman, þetta helvítis drasl.
Þetta helvítis drasl?
Nei, ég segi svona. Ég seldi bátinn og mennirnir fylgdu bara með honum.
Ég skil þig. Var þetta orðið svo mikið vesen í lokin?
Nei, það er bara þegar maður er orðinn svona fullorðinn og hættur, ég var hættur á sjónum, sko. Strákurinn minn var skipstjóri á bátnum. Hann er þarna fyrir vestan. Þeir sem keyptu hann gera bátinn enn þá út og mennirnir eru á honum sem voru á honum.
Það er nú gott.
Þess vegna fékk ég þetta. Ég átti svo mikið í þessu, ég er búinn að gera út í 50 ár. Ég er búinn að gera út síðan 1975.
Hvaða útgerð er þetta eiginlega?
Hún heitir Esjar ehf.
En hvað ætlar þú að gera við 1,6 milljarða?
Ég geri bara ekkert við þetta. Þetta er bara þarna og peningar gera mig aldrei vitlausan. Aldrei nokkurn tímann.
En ætlaru ekki að kaupa þér neitt?
Ég þarf nú að borga þarna í fjármagnstekjuskatt 358 milljónir.
Það er svolítið mikið.
Það er ekkert mikið þegar þú hefur svona mikið út úr því. Þetta er búið að safnast saman hjá mér allan þennan tíma. Ég hef ekki farið í sumarfrí eða nokkurn skapaðan hlut.
„Ég hef ekki farið í sumarfrí eða nokkurn skapaðan hlut“
Aldrei farið í sumarfrí?
Aldrei. Svo þegar ég er búinn að eignast alla þessa peninga núna þá kann ég ekkert að nota þá. Kann ekkert að lifa, kann ekkert að fara í sumarfrí og ekki neitt. Ég sit bara hérna í stólnum og er að tala við þig.
En viltu ekki fara og kaupa þér eitthvað?
Neineinei. Ég kaupi mér ekkert.
Ekki neitt?! Ekki bíl eða hús eða neitt?
Ég hef alltaf átt bíl. Við höfum alltaf átt hús og bíl, við höfum alltaf átt það. Sérstaklega þegar maður bjó úti á landi svona lengi, þá átti maður alltaf hús og við eigum það enn þá í dag.
Hvar voruð þið?
Á Rifi á Hellissandi. Þið voruð að tala við hann Tona um daginn, hann Tona tólf prósent. Þið voruð að tala við hann um daginn.
Tona tólf prósent?
Nei, ég kalla hann það. Hann var hæstur á Snæfellsnesinu.
Jájájájá hann. Já, er hann kallaður Toni 12 prósent?
Nei, ég segi svona, hann átti 12 prósent í útgerðinni með mér. Þess vegna fékk hann svona mikið, 200 og eitthvað. Svo er hann náttúrlega með svakaleg laun líka.
Já, það er ágætt að gefa þessu fólki einhver laun.
Já, hann hefur alltaf verið með góð laun. Og alltaf borgað mikið af sköttum. Ég gerði það líka á sínum tíma.
Jæja, þannig að þú veist ekkert hvað þú ætlar að gera við alla þessa peninga? Ég mæli með því að þú kaupir þér eitthvað fallegt.
Ég get allavega sofið fyrir þeim.
Það er nú gott. Ég vona að maður sofi þegar maður á 1,6 milljarða.
Jájá, þetta er bara tala fyrir mér, ekkert meira. Mér finnst bara ágætt að vera svona þenkjandi. Sumir verða vitlausir ef þeir eignast pening og fara bara illa út úr því.
Þú ætlar ekki að gera það.
Nei, það eru alveg hreinar línur, vina mín.
Athugasemdir