Á meðan 2.500 Íslendingar eru í sóttkví og eitt smit á leikskóla getur sent börn og foreldra í sóttkví og sýnatöku, er löng röð fólks í Ármúla og Suðurlandsbraut í bið eftir sýnatökum. Þar eru meðal annars hópar starfsmanna og barna úr sömu leikskólum. Ljóst er að hópurinn skiptir hundruðum og er stór hluti börn.
Flestir bera sig vel í röðinni og nýta tímann í símann. Í röðinni heyrast þó börn gráta, bæði af stressi en einnig eftir skimunina.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til að „áfram verði beitt smitrakningu, einangrun á smitaða og sóttkví hjá útsettum“ næstu mánuðina „að minnsta kosti“. Þá geti „stærri viðburðir verið leyfðir gegn því að gestir sýni fram á neikvætt PCR/antigen hraðpróf sem ekki mætti vera eldra en 24-48 klukkustunda gamalt“.
Alls eru 26 manns á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og þar af sjö á gjörgæslu. Að auki eru 1.206 manns í einangrun.
Athugasemdir