Á hverju ári birta fjölmiðlar upplýsingar sem fólk byggir samræður og mat sitt á um tekjur þekktra Íslendinga. Þessar upplýsingar eru líklega ein af forsendum tekjujafnaðar á Íslandi, en framsetning þeirra í fjölmiðlum er hins vegar takmörkuð og stundum verulega villandi.
Nú þegar Stundin birtir tekjulista er reynt að bregðast við því, en engu að síður þarf að setja fyrirvara við upplýsingarnar sem ekki allir átta sig á.
Það sem ekki birtist
Tekjublað Frjálsrar verslunar hefur til dæmis verið selt í áraraðir sem skrá yfir tekjur Íslendinga, en horfir fram hjá fjármagnstekjum – sem eru helstu tekjur vellauðugra Íslendinga. Sumir Íslendingar vinna nánast enga launavinnu en fá engu að síður verulega háar tekjur í rentu af eignum sínum, hvort sem þau byggðu þær upp sjálf, auðvitað með hjálp starfsfólks, eða erfðu.
Þeir sem virkilega kunna sitt fag – í viðskiptum og lögfræði – birtast síðan ekki endilega réttir á tekjulistum.
Mestu auðæfin birtast ekki
Sumt ríkasta fólk landsins birtist ekki á tekjuskrám. Ástæðan er til dæmis, eins og í tilfelli Guðbjargar Matthíasdóttur, eiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og niðurgreiðanda Morgunblaðsins, að ekki var greiddur út arður það árið, enda duga fyrri arðgreiðslur vel. Á tímabili var hægt að sjá eignir þeirra allra ríkustu, þegar vinstri stjórn Samfylkingar og VG undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar lagði á 1,5–2% auðlegðarskatt á eignir yfir 75 milljónum króna, sem í dag jafngildir 99 milljónum króna.
Í tekjulistanum er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skráður með 130 milljónir króna, að meðtöldum fjármagnstekjum, en „aðeins“ um 3 milljónir króna á mánuði ef bara eru teknar launatekjur. Í raunveruleikanum jók Þorsteinn Már hins vegar eignir í félagi sínu um 5,5 milljarða króna á milli áranna 2019 og 2020, eignir sem eru hluti af 54 milljarða króna eigin fé og birtast ekki í skattaskrám nema hann selji.
Lögmenn með samlagsfélög
Þá er ótalin aðferð sem sérfræðingar í skattheimtu, lögfræðingar og listamenn nota í sívaxandi mæli. Það er að stofna svokallað samlagsfélag og taka tekjurnar sínar í gegnum það. Forsagan er sú að fyrir rúmum áratug var stoppað upp í skattagat þegar komið var í veg fyrir að athafnasamt fólk gæti lækkað skattgreiðslur sínar með því að taka tekjur í gegnum einkahlutafélög, láta einkahlutafélögin borga ýmsan kostnað fyrir sig og taka síðan til sín tekjur í formi arðgreiðslna með 22% skatti í stað allt að 46% skatti sem launatekjur. Með nýju reglunum í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar átti í stuttu máli að greiða skatt eins og um launatekjur væri að ræða ef arðgreiðslur færu yfir tiltekið hlutfall eigna fyrirtækisins. Eftir þetta fór athafnafólk að flæða úr einkahlutafélögum yfir í þessi samlagsfélög. Afleiðingin var sú að gagnsæið hvarf. Við vitum ekkert um samlagsfélögin. Tökum sem dæmi:
Athafnasamur lögfræðingur, sem hefur komist í umræðuna fyrir að rukka meira en 100 milljónir króna fyrir að gera upp þrotabú, með 50 þúsund krónur á tímann, er aðeins skráður með tekjur upp á rúmlega 800 þúsund krónur á mánuði í tekjublaði Frjálsrar verslunar. Það er ekki vegna þess að hann vann aðeins tvo alvöru vinnudaga á mánuði. Þegar nánar er að gáð er hann að reka samlagsfélag, sem hann á sjálfur 90% og einhver ótilgreindur annar 10%. Samlagsfélagið sjálft er að reka glænýjan Range Rover og annan lúxusbíl.
Reglurnar um samlagsfélög eru hins vegar þannig að ekki þarf að skila ársreikningi til fyrirtækjaskrár, eins og skylt er með einkahlutafélög, og ekki þarf að greiða skatt af greiðslum frá samlagsfélagi til eiganda. Það eina sem þarf að gera er að greiða 37,6% skatt af tekjum. Þannig hefur auðvitað engin áhrif að hærra tekjuþrep tekjuskattskerfisins sé 46,25%. Og það sem meira er, enginn getur vitað neitt um tekjurnar.
Samlagsfélög slá í gegn
Það er því engin tilviljun að samlagsfélögum hefur fjölgað nífalt frá árinu 2007. Þau voru 363 talsins það árið en voru orðin 3.011 í fyrra. Á sama tíma og samlagsfélögum fjölgaði um 830% fjölgaði einkahlutafélögum um 30%.
Ef það er ekki bara að heilla að skattgreiðslurnar lækka – ef tekjurnar eru miklar – er það að gagnsæið er ekkert.
DV gefur út, ásamt Frjálsri verslun sem er í eigu Viðskiptablaðsins, tekjublað sem sýnir tekjur fólks. Af því spretta margar fréttir sem voru endurfluttar hjá RÚV, Vísi.is og Morgunblaðinu. Sumar þeirra eru beinlínis rangar, en aðrar villandi.
Annað dæmi er fréttamaðurinn fyrrverandi, Þorbjörn Þórðarson, sem hætti störfum í fjölmiðlum 2019, gerðist lögmaður og hóf störf í svokallaðri „skæruliðadeild Samherja“. Í tekjulista DV er hann sagður með rúmlega 700 þúsund krónur í mánaðarlaun, rétt yfir meðallaunum, sem mörgum þykir undarlegt miðað við lykilstörf fyrir eitt auðugasta félag landsins. Hann rekur hins vegar samlagsfélag. Hann á 99% í félaginu gegn 1% annars manns. Hafa ber í huga að bannað er að reka samlagsfélag einn. Þannig hafa skattayfirvöld komist að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að maður sem átti 99,9% í samlagsfélagi gegn 0,1% annars manns hafi verið að reka samlagsfélag til málamynda til að lækka skattgreiðslur.
Þar sem það eru væntanlega yfir þrjú þúsund samlagsfélög á Íslandi í dag og ekki er hægt að finna þau nema vita hvað þau heita er erfitt að segja hverjir eru með aukatekjur eða allar sínar tekjur í slíkum félögum. Við vitum bara að þegar vissri upphæð er náð borgar sig að taka tekjurnar sínar í gegnum slíkt félag, að hátekjuskatturinn virkar ekki á þau og að með þeim sleppa viðkomandi við að gefa upplýsingar eins og aðrir.
Rangar fréttir úr tekjulistum
Stundum eru mánaðartekjur fólks á tekjulistum ekki réttar af öðrum ástæðum, til dæmis ef viðkomandi hefur skipt um vinnu eða fengið greiddan út uppsagnarfrest eða orlof.
Í önnur skipti eru upplýsingarnar augljóslega villandi af öðrum jaðarástæðum.
Þannig var Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, sagður „skáka þríeykinu“ í launatekjum í frétt MBL, fenginni frá DV. En Björn Ingi var ekki raunverulega með 4 milljónir í mánaðarlaun. Það sem skekkir myndina er að hann hefur átt í vandræðum með skattayfirvöld og fengið á sig dóma vegna viðskiptaflétta.
Sussað á umræðuna
Meðlimir í hinum frelsiselskandi ungliðasamtökum, Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS), lögðu upp í sjaldséðan aktívisma þegar þeir reyndu á tímabili að hindra að almenningur gæti nýtt upplýsingafrelsið til þess að skoða tekjuskrárnar.
Tekjuskrárnar voru ekki birtar í fyrra, á þeim forsendum að Covid-faraldurinn kæmi í veg fyrir birtinguna. Þær eru ekki birtar rafrænt, heldur eingöngu í útprentuðum eintökum, vegna ákvörðunar innan kerfisins. Árið 2019, þegar upplýsingarnar voru seinast birtar, tók Skatturinn ákvörðun um að birta ekki lengur lista yfir hæstu skattgreiðendur, vegna túlkunar á áliti Persónuverndar og eftir að fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins og formaður Félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, kærði Ríkisskattstjóra fyrir birtingu listans. Björgvin fékk frelsisverðlaun SUS fyrir baráttu sína.
Spéhræðsla fólks á tekjulista er eðlileg og sannarlega er það áhrifamikið fólk sem er andsnúið birtingunni, að minnsta kosti þegar fjármagnstekjur eru teknar með í reikninginn.
Fólk hefur misjafnar skoðanir á réttmæti þess að birta skattaupplýsingar, ýmist út frá gagnsæi og upplýsingafrelsi eða friðhelgi einkalífs. Tekjuskrárnar knýja hins vegar áfram umræðu um réttlæti skattkerfisins og jafnvel samfélagsins alls, meira en óhlutbundin umræða um tölfræði. Þar sem réttlæti er ein af grundvallarforsendum skattlagningar yfirhöfuð byggir umræðan á kjarna málsins. Annað en réttlæti er síðan réttmæti gagnanna sem slíkra, hvort þau endurspegli það sem þau eru sögð gera. Ef upplýsingarnar eru gefnar er hins vegar mikilvægast að þær séu sem réttastar.
Framsetning Stundarinnar byggist á því að birta 1% tekjuhæstu frekar en handvalinn hóp einstaklinga. Fyrrgreindir fyrirvarar eru á gögnunum, til dæmis að hylja má slóðina með samlagsfélögum. Hins vegar birtir Stundin ein fjármagnstekjur til jafns við launatekjur og byggir það á mati um rétt fólks til þess að geta vitað af umsvifum tekjuhæsta 1% samfélagsins. Hér er því kominn, með fullri virðingu og fyrirvörum, listi 3.125 af 312.513 skattgreiðandi Íslendingum sem höfðu hæstar tekjur í fyrra.
Athugasemdir