Héraðsstjórnarkosningarnar sem fram fóru í Frakklandi í júní voru síðasti áfanginn fyrir forsetakosningarnar næsta vor og bjuggust menn almennt við því að þær yrðu eins konar undirbúningur fyrir endurupptöku þess leikrits sem sýnt var árið 2017 við fremur dræmar undirtektir: Marine Le Pen gegn Macron í seinni umferð, þar sem Macron sigraði auðveldlega vegna óttans við Grýluna. En þetta þótti mönnum lítið tilhlökkunarefni, þeim fannst textinn útjaskaður, og þó töldu margir að annar kostur væri varla fyrir hendi ef hægt ætti að vera að losna aftur við þessa miklu vá sem Marine er í flestra augum.
En kosningaúrslitin komu mönnum meira en lítið á óvart, og var það fyrst að þátttakan var minni en nokkur dæmi eru um, tveir þriðju kjósenda sátu hjá, „fóru út að veiða silung“, eins og Frakkar segja. Ekki bætti úr að það voru einkum yngri kjósendur sem fúlsuðu við kjörkössunum, atkvæði eldri kjósenda skiluðu sér betur. Á þetta má kannske líta sem „sigur gulstakkanna“, því sú skoðun er æ útbreiddari að kosningar séu ekki til neins, hver sem úrslitin verði muni stjórnarstefnan haldast óbreytt, það þurfi að hræða yfirvöldin með öðrum hætti, - „góðmennskan gildir ekki, gefðu duglega á kjaft“, eins og „gulstakkarnir“ gerðu vissulega. Síðan var það að hefðbundnir hægri og vinsti flokkar héldu sínu – vinstri menn reyndar í minnihluta eins og fyrr – og má efalaust skýra það með því að þeir sem á annað borð greiddu atkvæði hafi gert það til að rækja sína borgaralegu skyldu og þá var einfaldast, og kostaði minnsta íhugun, að halda sig við sína gömlu flokka. Það skýrir svo líka hitt að flokkur Macrons sjálfs beið afhroð, fékk ekki nema tíu af hundraði og var strax úr leik; forsetanum hefur semsé með öllu mistekist að mynda stjórnmálahreyfingu utan um sjálfan sig.
„En það sem kom mönnum þó mest á óvart var að þjóðernisflokkur Marine Le Pen vann alls ekki þann sigur sem flestir bjuggust við“
En það sem kom mönnum þó mest á óvart var að þjóðernisflokkur Marine Le Pen vann alls ekki þann sigur sem flestir bjuggust við, hann tapaði verulega, og eru menn farnir að efast um að hægt sé að setja leikritið aftur á svið næsta vor, og þá er útkoman óvís. En þessi úrslit eiga sína einföldu skýringu, þau stafa af tilvistarkreppu sem flokkurinn er kominn í. Um langan tíma hefur Marine Le Pen leitast við að gera hann húsum hæfan, ýta til hliðar hávaðasömustu þjóðernissinnunum og kynþáttahöturunum svo að flokkurinn geti orðið stjórntækur í augum almennings, og fá jafnframt til liðs við sig virðulega menn úr öðrum flokkum. Þetta orða Frakkar svo að hún sé að „afdjöfla“ flokkinn. En þetta er ekki einfalt mál, með þessu á hún á hættu að missa stuðning þeirra sem eru allra lengst til hægri og voru upphaflegur kjarni flokksins þegar faðir Marine, hinn aldni refur og slagsmálahundur Jean-Marie Le Pen, stýrði honum. Sá var yst til hægri ef nokkur var það og hafði munninn fyrir neðan nefiðá klassískri frönsku sem fæstir tala lengur). Og svo fylgir þessari „afdjöflun“ sú hætta að Sá Gamli komi aftur inn um bakdyrnar og fari að valda usla, og það virðist vera að gerast í þessum skrifuðum orðum. Nú heitir pokurinn Eric Zemmour, rithöfundur og fjölmiðlamaður, og lætur mikinn, hann skrifar vikulegan dálk í Le Figaro, sem er virt hægri blað, og er afskaplega tíður gestur á sjónvarpsstöðinni CNews sem leikur sama hlutverk í Frakklandi og þær stöðvar sem eru allra yst til hægri í hinum engilsaxneska heimi. (Það er reyndar í fréttum þessa daga að hún er að færa út kvíarnar og leggja undir sig eina af stærstu útvarpsstöðvum landsins; leikur Zemmour þar nokkurt hlutrverk). Auk þess skrifar hann metsölubækur, svosem „Franska sjálfsmorðið“. Eric Zemmour er mjög fróður og pennafær og margt sem hann skrifar getur verið skynsamlegt, en hann hefur eina meinloku sem sviptir hann allri dómgreind, og hún er múhameðstrú og innflytjendur. Um hana skrifar hann kurteislega í Le Figaro en talar miður kurteislega í CNews. Hann hefur verið margsinnis dæmdur fyrir að æsa til illinda og kynþáttahaturs, einu sinni hellti hann sér yfir unga konu í beinni sjónvarpsútsendingu fyrir að hún skyldi bera „ófranskt“ nafn, semsé arabískt. Sú varð víst að gjalti, en hefði svosem getað svarað því til að nafnið „Zemmour“ væri ekki sérlega franskt heldur (mér er sagt að hann sé af norður-afrískum gyðingaættum).
Fyrir nokkru var farið að orða Eric Zemmour við forsetaframboð, og fór sá kvittur stöðugt hærra en hann hvorki játaði né neitaði. Og þótt þetta framboð væri ekki á neinn hátt opinbert og alls engin kosningabarátta í gangi, bentu skoðanakannanir til þess að rúmlega fimm af hundraði kjósenda kynnu þegar að greiða honum atkvæði. Það fór mikill skjálfti um Marine Le Pen sem óttaðist að Eric Zemmour kynni að draga svo mikið atkvæðamagn frá henni að hún næði ekki upp í aðra umferð í forsetakosningunum og gæti því ekki samið nýjan enda á leikritið endurupptekið. Á milli þeirra fóru nú hörð orð og sársaukafull (áður hafði verið sagt að hún myndi gera Zemmour að menntamálaráðherra ef hún yrði forseti).
Þetta er kannske satt og rétt, en skoðanakannanir benda þó að vissu leyti í aðra átt, semsé að þótt þessi málglaði ekki-frambjóðandi kunni að draga eitthvað frá Marine Le Pen dragi hann ekki síður frá hefðbundnum hægri flokkum, kannske kjósendur sem eru utarlega til hægri en hafa fúlsað við Marine vegna faðernisins. Hann gæti þá leitt þá á básinn. Og ef þau Marine dorga hvort á sínum miðum og fá góðan afla hvort um sig er ekkert því til fyrirstöðu að þau geti fallist aftur í faðma, því lengi logar í gömlum glæðum. Ef Marine skyldi nú komast í seinni umferð vorið 2022 með Zemmour nýjan og ferskan á bak við sig er allra veðra von.
Oft er nú sagt að upp úr kreppu eins og þeirri sem varð 1929 geti sprottið Roosevelt – en einnig Hitler. Hvert sem litið er í Frakklandi sést hvergi bóla á nokkrum manni sem gæti tekið að sér hlutverk Roosevelts, vinstri menn og umhverfissinnar eru margklofnir og þar er engan ótvíræðan leiðtoga að finna en þeim mun fleiri smákónga in spe. Hefðbundnir hægri menn eru kannske ekki eins klofnir, en lítið betur settir að svo stöddu þrátt fyrir það. Því má vera að þeir sem eru yst, eða mjög utarlega, til hægri séu nú í sameiningu stærsta stjórnmálaafl Frakklands þessa stundina, vafalaust eitthvað yfir þrjátíu af hundraði kjósenda. Og þar má finna menn sem hugsa greinilega nokkuð stórt. Marion Maréchal heitir kona, systurdóttir Marine Le Pen og augasteinn afa síns, enda mun lengra til hægri en móðursystirin. Hún er kornung en sat um stund á þingi fyrir þjóðernisflokkinn og naut mikilla vinsælda meðal kjósenda, þótti hún mun glæsilegri en frænkan, svo frænkan varð afbrýðisöm. En svo dró hún sig í hlé úr virkum stjórnmálum, settist að í Lyon og stofnaði stjórnmálaskóla þar sem menn eins og Eric Zemmour mæta og halda fyrirlestra. Enginn er í minnsta vafa um tilganginn, þarna er verið að ala upp flokksleiðtoga framtíðarinnar. Kannske vill Marion Maréchal líka hafa eitthvað milli handanna meðan hún bíður síns tíma.
Ólíklegt er að þetta skýrist á næstu misserum, en í bili finnst mér eitt minnisstæðast í þessum kosningum. Það er regla í Frakklandi að fyrir hverjar atkvæðagreiðslur setji frambjóðendur stefnuskrá sína í fáum vel völdum orðum á eitt blað, og svo fái kjósendur hver og einn öll blöðin saman í nettu umslagi. Þannig geti þeir a.m.k. staðsett frambjóðendur á stjórnmála-litrófinu. Það hefur jafnan verið póstþjónustan sem sér um að koma umslögunum á áfangastaði, og hafa aldrei hlotist af því nein vandræði. En í samræmi við það sem er einn höfuðkjarninn í stefnu Macrons, að einkavæða allt sem er uppi og niðri og þar í miðju, var ákveðið að einkavæða þessa sérstöku þjónustu líka. Undir það ýttu auk þess einhver fyrirmæli frá kontóristum í Brussel. Reyndar tókst ekki að einkavæða nema hluta af þessum útburði, um hinn hlutann sá póstþjónustan enn. En frá því er skemmst að segja að á þeim svæðum þar sem einkafyrirtæki hreppti verkefnið fóru umslögin á undarlegt flakk, sum fundust í hrúgum úti á víðavangi, önnur í öskutunnum og merki fundust um að enn önnur hefðu verið brennd á báli. Afskaplega mikill misbrestur var á því að þau hefðu náð til kjósenda, og sagði bréfritari einn í vikuriti að þetta myndi nægja til að ógilda kosningarnar í þeim kjördæmum þar sem brögð hefðu verið að þessu. Þetta er reyndar mjög á sama veg og aðrar einkavæðingar Macrons, verðið hækkar, þjónustan versnar og þannig áfram. Fyrst var reynt að gera sem minnst úr þessu, vaflaust til að koma ekki enn meira óorði á einkvæðingarnar, en svo varð innanríkisráðherrann að biðjast afsökunar og lofa öllu fögru, ekki fleiri einkavæðingar þar. En slík orð eru eins og það sem Frakkar kalla „fyllibyttu-loforð“, Macron nemur aldrei staðar í einkavæðingunum, hann ræður ekkert við það, honum er það ekki sjálfrátt.
Athugasemdir