Gauti Kristmannsson segir að sér hafi hitnað í hamsi við að lesa niðurstöður úr rannsókn embættis landlæknis á hópsýkingunni sem varð á Landakoti síðastliðinn októbermánuð. Faðir Gauta var einn þeirra sjúklinga sem lést úr Covid á Landakoti í kjölfar hópsýkingarinnar. „Ég reiddist þarna þegar ég sá fréttirnar og las niðurstöðurnar en svo varð ég mest sorgmæddur,“ segir Gauti.
Tókst ekki að vernda þá viðkvæmustu
Þegar hópsýkingin kom upp í október og sömuleiðis í kjölfar hennar, segist Gauti hafa upplifað hana sem slys en tilfinningin sé örlítið önnur núna þegar embætti landlæknis hafi farið í saumana á því hvað gerðist þessa örlagaríku daga á Landakoti. „Eins og maður sér í skýrslunni voru tæplega hundrað manns sem smituðust, þar af 57 starfsmenn og 15 sjúklingar sem deyja. Það er einn af hverjum tíu sem smitaðist á Landakoti og helmingur allra dauðsfalla í landinu vegna faraldursins. Þannig að þetta er mjög alvarlegt tilfelli.“ Af tölunum að dæma segir Gauti að spítalanum hafi ekki tekist að vernda viðkvæmasta hópinn, fólkið á Landakoti.
Að einhverju leyti segir Gauti að líkja megi hópsýkingunni við slys, að því leyti að þetta var engum að kenna, það ætlaði sér enginn að þetta myndi fara svona. „En miðað við þá reynslu og þekkingu sem er á sóttvörnum á Landspítalanum þá hefði mátt tryggja að þessi sóttvarnarhólf hefðu verið betur einangruð hvert frá öðru. Auðvitað veit ég ekki hvað var hægt í þeim efnum en í ljósi þess að þeir höfðu glímt við aðra hópsýkingu í mars þá finnst mér þetta svolítið mikið slysalegt,“ segir Gauti og bætir við að við lesturinn hafi honum einnig þótt undarlegt hve stopular sýnatökurnar voru á Landakoti í aðdraganda og meðan á hópsýkingunni stóð, sérstaklega í ljósi þess hve viðkvæmir einstaklingar dvöldu þar.
Faðir Gauta var skimaður fyrir veirunni eftir að ljóst var í hvað stefndi, eða um 23. október. Fjölskyldan fékk hins vegar þær fregnir aðeins þremur dögum síðar að hann væri smitaður. Þau höfðu þá tök á því að heimsækja hann í „fullum sóttvarnarskrúða,“ eins og Gauti lýsir því en þrjátíu tímum síðar var faðir hans látinn, fjórum dögum eftir að ástandið kom upp.
Upplýsingagjöf ábótavant
Við lestur skýrslunnar voru það einkum tvö atriði sem stungu Gauta. Annars vegar það að sóttvarnarhólf hafi ekki verið nægilega einangruð og svo það, að samkvæmt skýrslunni hafi upplýsingagjöf til starfsmanna af erlendu bergi brotnu, verið virkilega ábótavant. „Það verða allir að fá upplýsingar um sóttvarnir og hvernig þeir eigi að haga sér á tungumáli sem þeir skilja. Það er ekki nóg að vera með ensku. Þetta starfsfólk kemur að hluta til frá fjarlægum heimshlutum og það hefur allt annað samband við enska tungumálið en við Íslendingar.“
Gauti er prófessor í þýðingafræðum og er því sérfræðingur í þeim málefnum er snúa að því að koma skilaboðum til skila á tungumáli sem þarf hverju sinni. Hann segir það vandamál sem komi fram í skýrslunni vera almennt vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi. „Fimmtán prósent af landsmönnum eru af erlendu bergi brotnir og enska dugar þeim ekki í öllum tilfellum. Ástandið á túlkunarþjónustu í heilbrigðiskerfinu er hæpið. Það eru oft ekki kallaðir til túlkar og maður hefur heyrt sögur um það að Google translate hafi verið notað til að koma skilaboðum til sjúklinga sökum tungumálaörðugleika. Allt þetta er vandamál og það er í lögum um réttindi sjúklinga að þeir eigi rétt á túlkun en það virðist ekki alltaf verið farið eftir því í einhverju sparnaðarskyni. Svo er það hin hliðin á peningnum, þetta með að starfsfólk á sömuleiðis rétt á því að fá upplýsingar er varðar starf sitt og skyldur á því tungumáli sem það skilur.“
Athugasemdir