Þrettán árgangar verða bólusettir í þessari viku. Er þetta önnur vikan þar sem bólusett er eftir bólusetningarlottóinu, þar sem heilu árgangar karla og kvenna voru dregin úr fötu.
72,8 prósent landsmanna yfir 16 ára aldri hafa verið bólusett með að minnsta kosti einum skammti. Til viðbótar hafa 2,2 prósent fengið COVID og með mótefni í líkamanum. Gera má ráð fyrir að hlutfallið muni hækka duglega í þessari viku þar sem stór hluti þeirra sem ekki hafa undirliggjandi sjúkdóma eða falla í einhvern forgangshóp fá boð í bólusetningu.
Af þeim sem hafa verið bólusettir eru tæp 44 prósent sem hafa fengið fulla bólusetningu, það er tvo skammta af Pfizer, AstraZeneca eða Moderna eða einn skammt af Janssen. Í vikunni fær töluverður hópur seinni bólusetningu af Pfizer og Moderna bóluefni og mun því fjölga í hópi fullbólusettra. Þá verða karlar fæddir 1981, 1994, 2001, 2002 og konur fæddar 1976, 1979, 1993, 1997 bólusett með Janssen og verða því strax fullbólusett.
Athugasemdir