Guðbjörg Thorsen var í veikindaleyfi þegar henni var sagt upp störfum hjá Hertex, verslun Hjálpræðishersins á Akureyri. Guðbjörg komst að því að henni hefði verið sagt upp þegar hún horfði á viðtal á sjónvarpstöðinni N4 við konu sem titlaði sig sem verslunarstjóra Hertex en það var staðan sem Guðbjörg hafði sinnt árum saman og stóð í þeirri trú að hún myndi sinna áfram. Þremur vikum síðar afhenti nýji verslunarstjórinn Guðbjörgu uppsagnarbréf sem myndi taka gildi næsta virka dag. Umsjónarmaður Hertex verslananna, Hannes Bjarnason, vill ekki tjá sig um málið.
Það var árið 2012 sem Guðbjörg Thorsen bauð sig fram sem sjálfboðaliða í verslun Hertex á Akureyri, verslun á vegum Hjálpræðishersins. Hún hafði ákveðið að verða sjálfboðaliði fyrst og fremst til að losna úr félagslegri einangrun sem hún bjó við á þeim tíma en svo langaði henni að geta gefið af sér til samfélagsins. Í fjögur ár eða allt til ársins 2016 gaf hún tíma sinn í þágu starfsins en var síðan boðið að verða verslunarstjóri í fjörutíu prósent stöðu sem hún sinnti allt til ársins 2021.
Fór í veikindaleyfi vegna álags
Þann fjórða janúar á þessu ári fór Guðbjörg í veikindaleyfi sökum mikils álags sem hún hefur upplifað í starfi. Það höfðu komið upp miklir erfiðleikar í samskiptum við annan starfsmann sem varð til þess að hún varð að eigin sögn að fara í veikindaleyfi. „Það var mikið álag þarna. Það var eitt skemmt epli í körfunni sem olli því álagi,“ segir Guðbjörg í samtali við Stundina. Tveimur dögum síðar var henni tilkynnt á fundi að Hertex myndi ráða starfsmann í afleysingar á meðan hún myndi vera í veikindaleyfi.
Sagt upp í sjónvarpsviðtali
Hún vildi þó ekki vera of lengi frá en hún hafði tilkynnt yfirmönnum sínum strax í febrúarmánuði að hún vildi snúa aftur til vinnu í mars, hún væri tilbúin að koma aftur.
Áður en hún hafði tækifæri til þess að snúa til baka úr veikindaleyfi var henni sagt upp. Það voru þó ekki yfirmenn hennar til margra ára sem tilkynntu henni um uppsögnina heldur komst hún að því að það væri búið að láta hana fara þegar viðmælandi í viðtali á N4 kynnti sig sem nýjan verslunarstjóra Hertex á Akureyri og að hún hefði tekið við stöðunni frá áramótum eða um það leyti sem Guðbjörg fór í veikindaleyfi. Viðtalið birtist þann 3. febrúar, tæpum mánuði eftir að Guðbjörg fór í veikindaleyfi. „Þegar ég horfði á viðtalið ákvað ég að segja ekki neitt við mína yfirmenn því ég hélt að þetta hlyti að vera einhver vitleysa,“ segir Guðbjörg.
„Ég sakna þess rosalega að vinna fyrir Hjálpræðisherinn“
Um það bil þremur vikum eftir að viðtalið við nýja verslunarstjórann birtist, eða um mánaðarmótin febrúar, mars, afhenti nýji verslunarstjórinn Guðbjörgu uppsagnarbréf. „Hún kom með uppsagnarbréfið heim til kærasta míns. Hún hafði reynt að koma heim til mín en ég var ekki heima og hún spurði börnin mín hvar ég var og þau tjáðu henni að ég væri í næsta hreppi hjá kærastanum mínum. Þá kom hún þangað og afhenti mér bréfið. Þetta var síðasta föstudaginn í mánuðinum og uppsögnin átti að taka gildi 1. mars eða mánudaginn þar á eftir,“ segir Guðbjörg.
Erfiðast að geta ekki starfað
Guðbjörg segir að henni sárni mest að fá ekki lengur að vinna. „Ég sakna þess rosalega að vinna fyrir Hjálpræðisherinn. Ég gaf líf mitt og sál í þetta starf,“ segir hún en að mati Guðbjargar var stærsti þátturinn í sjálfboðavinnu að koma sér úr félagslegri einangrun því sem öryrki gat hún ekki unnið fulla vinnu og því hentaði starfið í Hertex hennar lífi afar vel.
Þá var Guðbjörg einnig sár út í fyrrum yfirmenn sína sem hún hefði óskað að hefðu sagt henni upp sjálfir. „Ef að minn yfirmaður hefði talað við mig, bara feisað mig, þá hefði ég getað séð fyrir mér að halda áfram í sjálfboðaliðastarfi eins og einu sinni til tvisvar í viku. Ég hefði alveg skilið að þau hefðu þurft að láta mig fara og ráðið einhvern í hundrað prósent starf því ég gat bara verið í fjörtíu prósentum. Ég hefði skilið það ósköp vel, ég hefði bara viljað að þeir hefðu feisað mig svo ég hefði getað haldið áfram að gefa af mér,“ segir hún.
Tjá sig ekki um málefni einstakra starfsmanna
Aðspurður um það af hverju Guðbjörgu Thorsen var sagt upp í veikindaleyfi og af hverju hún heyrði fyrst af uppsögn sinni í viðtali á N4, segir Hannes Bjarnason, umsjónarmaður Hertex fyrir hönd Hjálpræðishersins, að Hertex geti ekki tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.
Hannes segir að nýji verslunarstjórinn hafi verið ráðinn 6. janúar eða tveimur dögum eftir að Guðbjörg fór í veikindarleyfi. Aðspurður um það hvernig stóð á því að nýji verslunarstjórinn afhenti Guðbjörgu uppsagnarbréf segir hann að „verkferlar okkar gera ráð fyrir því að verslunarstjóri hafi umsjón með öðrum starfsmönnum einingarinnar.
Þá leitaði Stundin einnig svara við því af hverju Guðbjörgu var afhent uppsagnarbréfið þremur vikum eftir að nýji verslunarstjórinn kynnti sem slíkan í sjónvarpsviðtali en Hannes endurtók að ekki væri hægt að tjá sig um einstaka starfsmenn. Uppsögnina sagði hann samkvæmt venju hafa verið afhent fyrir mánaðamót og að uppsagnafresturinn sé í samræmi við ákvæði kjarasamninga en eins og áður hefur komið fram var Guðbjörgu afhent bréfið á föstudegi og það tók gildi mánudaginn þar á eftir.
Athugasemdir