Fréttamaðurinn Aðalsteinn Kjartansson hefur ráðið sig til starfa hjá Stundinni. Aðalsteinn hefur undanfarin fjögur ár starfað sem rannsóknarblaðamaður við fréttaskýringaþáttinn Kveik á RÚV. Árið 2016 stofnaði hann Reykjavík Media, ásamt Jóhannesi Kr. Kristjánssyni fréttamanni, og vann að ítarlegum fréttaskýringum og heimildarmynd um Panama-skjölin. Hann hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2019 fyrir umfjöllun um viðskiptahætti Samherja í Namibíu, ásamt Helga Seljan, Stefáni Drengssyni og Inga Frey Vilhjálmssyni, blaðamanni Stundarinnar. Að auki er Aðalsteinn einn höfunda bókarinnar Ekkert að fela: Á slóð Samherja í Afríku.
Meðal helstu umfjallana Aðalsteins á síðustu árum má nefna Samherjamálið, Panama-skjölin, umfjöllun um hvernig bílaleigan Procar breytti kílómetrastöðu bíla fyrir sölu og hvernig Eimskip notaði alræmda milliliði til að komast fram hjá evrópskum reglum og farga gámaflutningaskipum við Indland. Síðasta umfjöllun Aðalsteins fyrir Kveik birtist í gærkvöldi en hún fjallaði um fjármagnsflutninga og arðgreiðslur af rekstri stoðkerfis íslenskra lífeyrissjóða.
Aðalsteinn hefur störf á Stundinni í næstu viku.
Stundin var stofnuð með stuðningi almennings í gegnum hópfjármögnun í janúar 2015 og hefur að meginmarkmiði að viðhalda óháðum vettvangi til að stunda og birta rannsóknarblaðamennsku. Áskrift að Stundinni má fá hér.
Stundin, undir öruggri stjórn ritstjóra sinna hefur sýnt í orði og verki að vera góður og nauðsynlegur fjölmiðill landi og lýð til heilla, frjáls og óháður fjölmiðill, eins og Dagblaðið var á sinni tíð.
Stundin veitir nausynlegt aðhald í freistandi tækifærum hvað varðar spillingu og græðgi sem kunna að vera í boði við næsta götuhorn í lífsgöngunni.