Lilja Guðmundsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Jörfa, þurfti að leggjast inn á sjúkrahús fyrir helgi vegna mikilla veikinda af völdum Covid-19. Hún var með mikinn hita og þurfti að fá vökva í æð og súrefnisgjöf. Lilja er nú komin heim og er fegnust því að fjölskyldan hennar skyldi ekki smitas.
Smit sem tengjast Jörfa eru orðin 107 talsins Þar af eru þrjátíu af um hundrað börnum smituð og 23 af 33 starsmönnum eftir því sem RÚV greindi frá. Fyrstu smitin greindust 16. apríl síðastliðin. Eru smitin á leikskólanum rakin til einstaklings em ekki virti sóttkví við komuna til landsins.
Fékk lungnabólgu vegna vírussins
Lilja fann fyrst fyrir einkennum 16. apríl en fékk staðfestingu á að hún væri með veiruna 17. apríl eftir því sem á leið hrakaði henni og í síðustu viku var hún með háan hita í nokkra daga. „Það endaði á því að ég var beðin um að koma inn á spítala, ég var komin með 40 stiga hita á föstudagsmorguninn. Þá kom í ljós að ég var komin með lungnabólgu vegna vírusins,“ segir Lilja. Hún ber mikið lof á heilbrigðisstarfsfólk sem hún segir að hafi fylgst mjög vel með sér. „Þetta var rosalega góð þjónusta. Það var hringt í mig á hverjum degi til að athuga hvernig ég hefði það.“
„Samt enda ég á spítala í þrjár nætur af því einhver ákvað að brjóta sóttkví. Þetta er alveg ömurlegt.“
Lilja var sem fyrr segir lögð inn á Landspítalann mikið veik síðastliðinn föstudag. „Ég þurfti að fá vökva í æð, víruslyf og stera. Það var fylgst mjög vel með súrefnismettuninni í blóðinu og þegar hún var orðin lág þurfti ég að fá súrefnisgjöf.“ Gefa þurfti henni súrefni allt þar til á sunnudag en hún fékk að fara heim af spítalanum í gær, mánudag.
Lilja segir að hún sé á batavegi þótt hún sé enn talsvert veik. „Ég er ekki með neinn hita í dag og öll að koma til en ég er ennþá mjög slöpp. Ég er ekki með neitt þol en það kemur bara með tímanum. Ég er að gera öndunaræfingar og svona núna.“
Óþolandi að fólk brjóti sóttkví
Spurð hvort hún hafi haft fregnir af því hvernig börnum á leikskólanum Jörfa líði, sem og samstarfsfólki hennar, segir Lilja að hún hafi ekki heyrt af börnunum. „Ég veit að ég hef verið með þeim veikari af starfsmönnunum en það eru fleiri sem hafa verið mjög slappir.“
Í viðtali við Stundina í síðustu viku fór Lilja hörðum orðum um þá sem gagnrýnt hafa sóttvarnaraðgerðir og sömuleiðis að ekki hafi verið tekin harðari stefna varðandi þær aðgerðir á landamærunum. Hún segir stöðuna með öllu óþolandi. „Ég er ung og hraust, ekki með undirliggjandi sjúkdóma, reyki ekki eða neitt en samt enda ég inni á spítala í þrjár nætur af því einhver ákvað að brjóta sóttkví. Þetta er alveg ömurlegt.“
Lilja býr heima hjá fjölskyldu sinni en enginn af hennar fólki smitaðist af Covid-19. Hún segir að það sé mikil lukka. „Ég er rosalega ánægð með það, sérstaklega að pabbi varð ekki veikur því hann er með astma. Ég tók þetta vel fyrir fjölskylduna, ég tók að mér að fá Covid fyrir alla fjölskylduna.“
Athugasemdir