Nígeríski hælisleitandinn Uhunoma Osayomore hefur höfðað mál á hendur Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins til að fá úrskurð kærunefndar útlendingamála ógiltan. Mál þess efnis var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Í málinu er þess krafist að nýlegur úrskurður kærunefndarinnar, þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja Unhunoma um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi af mannúðarástæðum, verði ógiltur.
Í stefnu Ununoma er byggt á því að hann hafa á engu stigi fengið málsmeðferð hjá íslenskum stjórnvöldum sem fórnarlamb mansals. Það hafi ekki verið gert þrátt fyrir að upphafleg frásögn hans hjá Útlendingastofnun hafi gefið sterklega til kynna að svo væri. Þá hefur Uhunoma sótt viðtalsmeðferð hjá Stígamótum og lagt fram gögn þar um til kærunefndar. Í þeim gögnum kemur fram að það sé skoðun fagaðila að frásögn hans og upplifun samrýmist þeirri reynslu sem mansalsfórnarlömb hafa lýst hjá Stígamótum.
„Þetta mál er eitt margra síðustu misseri þar sem fórnarlömbum mansals og kynferðisofbeldis er synjað um vernd hér á landi“
„Þetta mál er eitt margra síðustu misseri þar sem fórnarlömbum mansals og kynferðisofbeldis er synjað um vernd hér á landi. Það er ákaflega sorgleg þróun og ekki í takt við þær áherslur stjórnvalda á mannréttindi og vernd þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi af þessu tagi,“ segir Magnús D. Norðdahl lögmaður Uhunoma.
Gagnrýna kærunefnd harðlega
Í stefnu Uhonoma er gagnrýnt harðlega hvernig kærunefnd útlendingamála dragi úr trúverðugleika hans. Hann sé þannig látinn gjalda þess að hafa á fyrri stigum hjá Útlendingastofnun einungis greint frá sumum tilvikum þegar hann var seldur mansali en ekki öllum. „Það er alþekkt og mjög skiljanlegt að mansalsfórnarlömb eiga erfitt með að greina frá öllum áföllum sínum og því er mælst til þess að fagaðilar stýri viðtölum við svo viðkvæma hópa. Sú var ekki raunin, hvorki hjá Útlendingastofnun né hjá kærunefnd útlendingamála,“ segir Magnús.
Í stefnunni segir að enn fremur að mat íslenskra stjórnvalda á aðstæðum í Nígeríu fyrir þolendur mansals og kynferðislegs ofbeldis sé rangt og óforsvaranlegt. Þá sé Uhunoma alls ekki öruggur komi til endursendingar hans til Nígeríu.
Þá segir að kærunefnd dragi túrverðugleika Uhunoma í efa á grundvelli þess að hann hafi tekið upp vestrænt gælunafn við komuna til Evrópu og að hann hafi opnað Facebook reikning undir því nafni. Bent er á að slík hegðun sé mjög algeng hjá fólki í sömu stöðu. „Það er eins og kærunefnd útlendingamála setji sig í stellingar rannsóknarlögreglu og reyni eftir fremsta megni að véfengja trúverðugleika Uhunoma Osayomore að því er virðist í þeim tilgangi einum að styðja þá fyrirfram teknu ákvörðun að synja honum um vernd,“ segir Magnús.
Athugasemdir