Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur farið stiglækkandi síðustu tólf mánuði og er vísitala leiguverðs nú 3,2 prósentum lægra en fyrir ári síðan. Leita þarf aftur til júlímánaðar árið 2019 til að finna lægri vísitölu, utan eins mánaðar.
Þjóðskrá Íslands birtir vísitölu leiguverðs, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs leiguhúsnæðis, og var hún 197,5 stig í febrúar síðastliðnum. Það er lækkun um 1,5 prósent milli mánaða og síðustu þrjá mánuði hefur vísitalan lækkað um 2 prósent. Vísitalan miðast við grunnpunktinn 100 frá því í janúar 2011.
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hóf að lækka í mars 2020. Í janúar og febrúar það ár var vísitala leiguverðs 204 stig en tók dýfu í mars og mældist þá 201,8 stig. Lækkunin hélt áfram og lægst fór vísitalan í maí síðastliðnum, niður í 195,3 stig. Leiguverð fór svo aftur hækkandi síðari hluta seinasta árs og allt fram til desember mánaðar síðastliðins þegar hún mældist 201,9 stig.
Athugasemdir