„Við óskum eftir því að vera viðurkennd af samfélaginu sem við sjálf,“ skrifar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og varaformaður Vinstri grænna, í bréfi sínu til Frans páfa. Tilefni bréfsins er yfirlýsing frá Vatíkaninu, sem Frans páfi undirritaði, að kaþólskir prestar gætu aldrei staðfest hjónabönd fólks af sama kyni.
„Ég hef skrifað Francis páfa bréf og skorað á hann að draga til baka umdeilda ákvörðun um að banna blessun sambanda hjá samkynja pörum. Ég hvet hann til þess að taka af skarið gagnvart íhaldsömum öflum í kaþólsku kirkjunni og verja sjálfsögð mannréttindi hinsegin fólks,“ segir Guðmundur Ingi í færslu um bréfið á Facebook-síðu sinni.
Í bréfinu vísar Guðmundur Ingi til áhrifamáttar Frans páfa, ábyrgðar hans og þess að kynhneigð sé ekki tilfallandi ákvörðun heldur eðlislægur hluti sums fólks. „Finndu kjarkinn í gegnum bænirnar og stattu með okkur,“ segir Guðmundur Ingi meðal annars.
Á Facebook-síðu sinni hvetur Guðmundir Ingi aðra til að láta rödd sína heyrast. „Þetta er í annað skipti sem ég sendi Francis páfa bréf. Núverandi páfi hefur alltaf slegið mig sem góður og hjartahlýr maður og hann þarf hvatningu okkar og stuðning til góðra verka. Gleymum því aldrei að rödd okkar allra skiptir máli. Gefumst aldrei upp fyrir fordómum og þekkingarleysi.“
Athugasemdir