Síðla árs 2017 var samið um það að greidd yrðu um 70 þúsund pund, nærri 10 milljónir íslenskra króna á gengi þess tíma, fyrir það að fjárfestirinn Róbert Wessman yrði í forsíðuviðtali við enska tímaritið World Finance. Þetta herma heimildir Stundarinnar. Tímaritið er gefið út af samnefndu útgáfufyrirtæki sem er með aðsetur í London. Viðtalið var 10 blaðsíður og var einnig samið um markaðssetningu á því í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Greiðandi kaupverðsins á viðtalinu var Alvogen, samheitalyfjafyrirtækið sem Róbert stofnaði og stýrir.
Róbert Wessman er forstjóri og einn eigandi Alvogen sem og líftæknifyrirtækisins Alvotech sem rekur lyfjaverksmiðjuna á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni. Stjórnendur Alvotech reyna nú að fá lífeyrissjóðina til að fjárfesta í verksmiðjunni. Róbert Wessman er sjálfur stærsti hluthafinn í Alvotech í gegnum fyrirtæki í Lúxemborg sem heitir Alvotech Holding S.A. en Róbert á tæp 39 prósent í því. Endanlegt eignarhald á fyrirtækjaeignum Róberts í Alvogen og Alvotech er svo í sjóði í skattaskjólinu Jersey á Ermarsundi.
Róbert og fyrirtæki á hans vegum hafa stundað það í gegnum árin að greiða erlendum aðilum og fyrirtækjum fyrir jákvæða umfjöllun um sig og er þetta hluti af markvissri ímyndarsköpun hans og fyrirtækisins. Alvogen og Alvotech nota þessar keyptu, jákvæðu umfjallanir svo til að auglýsa og kynna fyrirtækið á Íslandi og erlendis.
Í Stundinni í dag er fjallað um þennan þátt í ímyndarsköpun Róberts Wessmann og viðskipti Róberts með lyfjaverksmiðju Alvotech í Vatnsmýrinni sem fyrirtækið fékk að byggja á grundvelli samnings við Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands.
Alvogen velur að svara ekki
Í svari frá upplýsingafulltrúa Alvogen og Alvotech, Elísabetu Hjaltadóttur, er þeirri spurningu ekki svarað hvort Alvogen hafi greitt um 70 þúsund bresk pund fyrir þessa umfjöllun til útgáfufélagsins í London og er vísað til fyrri umfjöllunar fjölmiðla um viðskiptaverðlaun sem Róbert Wessman fékk um svipað leyti frá sama útgáfufyrirtæki. „Vísað er til fyrri svara Halldórs Kristmannssonar sem hafði þessi mál með höndum,“ segir í svari Elísabetar, en umræddur Halldór, sem séð hefur um upplýsingamál fyrir Róbert Wessman og Alvogen í gegnum árin, var aldrei spurður spurninga um kostun umrædds viðtals eða upphæðir á bak við þessa kostuðu umfjöllun.
Alvogen kýs því að svara ekki spurningunni um greiðslu vegna umfjöllunarinnar.
Athugasemdir