Covid-19 faraldurinn hefur skapað kreppu sem er dýpri og langvinnari en talið var í fyrstu. Ekki finnum við öll jafnt fyrir þessari kreppu, en hún kemur verst við ferðaþjónustu og tengdar þjónustugreinar. Þátttaka kvenna, erlendra ríkisborgara og ungs fólks er hlutfallslega mikil í þessum atvinnugreinum. Þær viðspyrnu- og stuðningsaðgerðir sem eiga að draga úr áhrifum kreppunnar á fyrirtæki og fólk í landinu þurfa með markvissum hætti að koma til móts við þessa hópa sem taka skellinn. Því er rétt að spyrja, hverjum gagnast efnahagsaðgerðir stjórnvalda þegar kemur að atvinnumálum?
Ríkisstjórnin stefnir á að verja um 119 ma. kr. í fjárfestingarátak til að bregðast við efnahagssamdrætti vegna Covid-19. Um 85% þeirra starfa sem skapast í átakinu eru störf í karllægum geirum, eins og vegagerð og byggingariðnaði. Þetta eru mikilvægar og tímabærar fjárfestingar, en þessi störf eru ólíkleg til að henta stórum hluta þeirra þess hóps sem misst hefur vinnuna.
Átakið „Allir vinna“ er endurnýtt úrræði úr fjármálakreppunni 2008 sem felur í sér að endurgreiðsla virðisaukaskatts er tímabundið 100% vegna vinnu iðnaðarmanna við heimili fólks og húsnæði í eigu sveitarfélaga. COVID-útgáfa átaksins var útvíkkuð til bílaviðgerða og endurbóta og viðhalds á mannvirkjum í eigu íþrótta-, mannúðar- og líknarfélaga, sem og til heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Úrræðið nær þannig fyrst og fremst til karlastétta (karlar eru ríflega 95% þeirra sem starfa við bílaviðgerðir, í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð). Ekki hafa fengist haldbær svör við því hvers vegna átakið nær ekki til iðngreina eins og hársnyrta eða saumastofa svo eitthvað sé nefnt.
Til að efla nýsköpun og auka margbreytni í hagkerfinu var sett fjármagn í hina ýmsu samkeppnissjóði. Ljóst er að færri konur en karlar sækja um fjármagn í samkeppnissjóði og auk þess sækja konur gjarnan um lægri upphæðir. Árangurshlutfall kynjanna er yfirleitt sambærilegt. Aukin framlög í samkeppnissjóði eru því líkleg til þess að gagnast körlum betur en konum. Það er nauðsynlegt að auka nýsköpunartækifæri með sértækum úrræðum sem höfða til kvenfrumkvöðla, þarfa þeirra, styrkleika og sérstöðu.
„Aukin framlög í samkeppnissjóði eru því líkleg til þess að gagnast körlum betur en konum“
Mamma þarf líka að borða
Við vonumst öll til að hafa betur í glímunni við faraldurinn, og að ferðaþjónusta og tengdar þjónustugreinar muni taka við sér. Á meðan biðinni stendur verður að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að fólk festist í fátækt, með því að sjá til þess að atvinnuleysisbætur dugi fyrir framfærslu og að bótatímabilið sé lengt til að brúa bilið. Hættan á að fólk festist í fátækt, og að fátæktin erfist svo á milli kynslóða, er veruleg og koma verður í veg fyrir það. Það er ekki bara samfélagslega réttlátt heldur efnahagslega skynsamlegt.
Fjárfesta þarf í fleiru en steypu. Fjölgun starfa og bætt starfsumhverfi í heilbrigðis-, velferðar og menntakerfinu myndi styrkja mikilvæga innviði og skapa störf fyrir breiðari hóp heldur en hingað til hefur verið gert. Það mun kosta okkur að gera það ekki, því mönnunarvandi kostar, biðlistar kosta, og kulnun umönnunaraðila sem eru komnir að fótum fram vegna álags, er kostnaður sem bítur.
Við verðum að gera kröfu til að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar nái ákveðnum jafnréttismarkmiðum. Ef ekki er hugað að atvinnuuppbyggingu í kvenlægum geirum og að nýsköpunarmöguleikar höfði til kvenna jafnt og karla, ef ekki verða byggðir upp innviðir til að fólk endist í umönnunarstörfum en fari ekki um leið og annað býðst eða brenni út í vinnu, ef ekki er lögð áhersla á að efnahagsaðgerðir dragi úr fátækt - er þá ekki eðlilegt að við spyrjum okkur: er verið að verja okkar fjármunum á sanngjarnan og réttan hátt?
Höfundar sitja í stjórn Femínískra fjármála, félagi áhugafólks og sérfræðinga um kynjuð fjármál.
Athugasemdir