„Þó að forfeður vorir væru víkingar og ribbaldar í aðra röndina, hafa þeir þó átt talsvert af réttsýni og mannúð í fórum sínum,“ skrifar Björg C. Þorláksson heimspekingur í Skírni árið 1907 um réttarstöðu ógiftra mæðra og barna þeirra á Íslandi. Hún taldi lög á þjóðveldisöld hafa verið réttlátari en þau sem voru í gildi við upphaf 20. aldar. Húsbóndavaldið náði yfir börnin og var litið á þau sem eign feðranna. Ef til skilnaðar kom fylgdu börnin föður en mæður höfðu ekki tilkall til barna sinna fyrr en farið var að líta á þær sem frumuppalendur er leið á 20.öldina, þegar kenningar um tengslamyndun hófu að ryðja sér til rúms. Móðir var í skyldu við heimilið og umönnun barna og sú ábyrgð fylgdi henni þá einnig í ríkara mæli við skilnað. Það þýðir ekki að samfélagsskipan feðraveldis hafi þá orðið að mæðraveldi heldur er um að ræða rótgrónar hugmyndir um ólík hlutverk foreldra eftir kyni. Móður sem ber fyrst og fremst ábyrgð og hefur umönnunarskyldu á grunni tilfinningatengsla við barn og föður sem hefur rétt gagnvart barni sínu á grunni veraldlegs valds og eigna.
Samkvæmt núgildandi löggjöf á barn rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja og rétt á umgengni við foreldri sem það býr ekki hjá, með fyrirvara um að það stríði ekki gegn hagsmunum barns. Hugsun barnalaga um forsjá foreldra yfir börnum sínum mótast meðal annars af ráðandi hugmyndum samtímans um kynhlutverk. Nýlegt frumvarp sitjandi dómsmálaráðherra til breytinga á barnalögum undirstrikar það, en þar er lagt til að hugtökin móðir og faðir séu endurskilgreind í takti við breyttan félagslegan veruleika.
Áherslur og hugmyndir um foreldrahlutverk hafa breyst nokkuð á liðnum áratugum. Sem dæmi er ekki lengur talað um forræði yfir börnum í íslenskum lögum heldur forsjá og með því áhersla lögð á skyldu foreldris til verndar og umönnunar barns. Til að mynda er kveðið á um skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn ofbeldi og í dag eru sjálfstæð mannréttindi barna viðurkennd sem þýðir að börn eiga eigin réttindi óháð réttindum fullorðinna. Með breytingu á barnalögum, sem tóku gildi 2013, var lögfest að við ákvörðun um forsjá eða umgengni beri að líta til þess hvort hætta er á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi verið eða muni verða beitt ofbeldi. Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum er auk þess lögð áhersla á að undirstrika þetta sjónarmið frekar í deilum um forsjá eða umgengni og að litið sé á ofbeldi í víðum skilningi. Varað er sérstaklega við notkun hugmynda um svokallaða foreldraútilokun eða foreldrafirringu (PA(S)) í þeim málum þar sem foreldri krefst þess að umgengnisrétti verði hafnað eða ef barnið sjálft lýsir sig andsnúið umgengni við foreldrið.
Fátt bendir til að þessi aukna áhersla á vægi ofbeldis hafi skilað sér inn í lögbundna stjórnvaldsákvörðun á Íslandi. Í réttarsölum allra vestrænna landa eru börn þvinguð í ofbeldishættu og mannréttindi þeirra höfð að engu.
Áætlað er að á hverjum degi séu 5 milljónir barna í Bandaríkjunum vitni að eða þolendur heimilisofbeldis. Um það bil 4 af hverjum 5 þolendum ofbeldis í nánu sambandi eru konur og á bilinu 30% til 60% gerenda beita einnig börnin á heimilinu ofbeldi. Við skilnað fá feður fulla forsjá eða skipta í 70% tilvika en feður sem beita ofbeldi eru tvisvar sinnum líklegri til að sækjast eftir óskiptri forsjá yfir börnum heldur en feður sem beita ekki ofbeldi. Á liðnum áratug voru 764 börn drepin af foreldri í skilnaðarmálum í Bandaríkjunum, að minnsta kosti 106 þessara barna voru ekki vernduð af fjölskyldudómstólum þrátt fyrir beiðni þar um. Saunders og félagar komust að því að matsmenn í forsjármálum sem ekki hafa sértæka þekkingu á heimilisofbeldi, sér í lagi ofbeldi eftir skilnað, trúa þeirri mýtu að mæður ljúgi til um ofbeldi í þessum málum. Reyndin er hinsvegar sú að í ágreiningsmálum eftir skilnað eru innan við 2% líkur á að móðir segi ósatt um ofbeldi.
Nýleg rannsókn Joan S. Meier sem tók til ríflega fjögur þúsund forsjármála á tíu ára tímabili sýnir að fullyrðing móður um ofbeldi barnsföður eykur líkur á að hún missi forsjá til föðurins. Ef faðir ásakar móður á móti um foreldraútilokun er tvöfalt líklegra að frásögn hennar sé talin ótrúverðug fyrir dómi. Líkurnar á að móðir sé talin ótrúverðug fjórfaldast ef hún telur föður hafa beitt barn ofbeldi og faðir ásakar á móti um foreldraútilokun. Það er því sennilega ekki af ástæðulausu sem lögmenn hafa í gegnum tíðina frekar ráðlagt skjólstæðingum frá því að segja frá ofbeldi í forsjármálum. Ef matsmaður er fenginn til að meta forsjárhæfni foreldra eru mæður samt sem áður 3-5 sinnum líklegri til að missa forsjá til föður. Sem sagt, aðkoma matsmanns eykur líkur á að faðir fái forsjá í máli þar sem móðir sakar hann um ofbeldi.
„Sem sagt, aðkoma matsmanns eykur líkur á að faðir fái forsjá í máli þar sem móðir sakar hann um ofbeldi.“
Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni ekki síst ef horft er til þess að hér á landi þykja matsgerðir dómkvaddra matsmanna almennt vera sterk sönnunargögn um þau atriði sem þau taka til. Í einkamálum gildir svokölluð meginregla um frjálst sönnunarmat dómara sem felur í sér tiltekið frelsi til að meta hvað dómari telur sannað í dómsmáli. Hvað varðar sérþekkingu og reynslu matsaðila, sem í forsjármálum er oftast sálfræðingur, hefur hann einnig nokkuð frjálsar hendur með athugun og úrvinnslu. Það blasir því við að ábyrgð dómara og matsmanna í sönnunarmati er mikil ekki síst í ofbeldismálum þar sem barn ætti ávallt að njóta vafans.
Eitt þeirra matstækja sem nýtt er af sálfræðingum sem annast störf dómkvaddra matsmanna við mat á forsjárhæfni foreldra er persónuleikaprófið, Minnesota Multiphasic Personality Inventory (MMPI-2) en rannsóknum á próffræðilegum eiginleikum þessa matstækis er ábótavant og svo virðist að í staðinn fyrir íslensk viðmið sé stuðst við bandarísk. Það eitt og sér leiðir af sér að vafasamt er að nota persónuleikaprófið í dómsmáli á Íslandi. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að þýdd útgáfa sálfræðilegra matstækja hafi sömu próffræðilegu eiginleika og upprunaleg útgáfa þeirra. Ef áreiðanleiki og réttmæti sálfræðilegra prófa liggur ekki fyrir hefur notkun þeirra oft, jafnvel yfirleitt, alvarlegar afleiðingar.
Dæmi eru um að konur sem borið hafa saman matsgerðir í sínum eigin málum, sjái sláandi mun þar sem sami matsmaður túlkar sambærilegar niðurstöður persónuleikaprófsins MMPI-2 á mjög ólíkan máta. Faðir í einu máli fær að njóta mun meiri vafa en móðir í öðru. Þá hafa talskonur Lífs án ofbeldis séð hvernig mæður eru eindregið látnar gjalda fyrir í niðurstöðu dóms, að líta út fyrir að hafa fegrað sig um of á þessu prófi. Þetta er viðsjárvert ekki síst þegar komið hefur í ljós að innri áreiðanleiki íslenskrar þýðingar MMPI-2 þykir „allsendis óviðunandi“ meðal annars fyrir þann kvarða, L-kvarða, sem á að mæla umrædd fegrunaráhrif. Einnig er að finna veigamikinn mun á meðaltölum og staðalfrávikum á nokkrum kvörðum prófsins. Íslenskar konur mælast hærri á L- kvarða MMPI-2 heldur en íslenskir karlar en einnig talsvert hærri en bandarískar konur. Þetta þýðir að mældur munur á föður og móður á sama persónuleikaprófi í forsjármáli getur verið innbyggður í prófið sjálft. Ekki má sjá að fyrirvari sé settur á innbyggða kynjaskekkju við túlkun prófsins í íslenskum matsgerðum. Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að ályktanir dómkvaddra matsmanna í forsjármálum hafa, eins og áður sagði, mikla þýðingu fyrir sönnunarmat dómara.
Saunders og félagar skoðuðu viðhorf matsmanna og annarra fagaðila í forsjármálum til ásakana annars foreldris um heimilisofbeldi og komust að því að feðraveldis norm (e. patriarchal norms) á borð við að konur hafi náð jafnrétti á við karla, trú á að heimurinn sé réttlátur og að félagslegt stigveldi sé af hinu góða, móta viðhorf fagaðila í forsjármálum og hefur þannig bein áhrif á forsjárhæfnimatið. Feðraveldis norm fara saman við þær skoðanir að ekki sé mikilvægt að taka tillit til heimilisofbeldis í forsjárákvörðun; að feður beri ekki upp rangar sakir um heimilisofbeldi eða ofbeldi gegn barni; að meintir þolendur heimilisofbeldis beri fram rangar sakir, útiloki börnin frá hinu foreldrinu og skaði þau með mótþróa við foreldrasamstarf.
Svo virðist sem sálfræðingar sem fengnir eru sem matsmenn í íslensk forsjármál leggi ekki nægilega ítarlegt mat á ofbeldi, enda ekki litið á það sem markmið með matinu. Hér má benda á að lengst af hefur það tíðkast hér á landi að bæði sérfróðir meðdómsmenn og dómkvaddir matsmenn í forsjármálum séu fengnir til starfa úr sama afmarkaða hópi fólks. Sálfræðileg menntun er engin trygging fyrir sérfræðiþekkingu um ofbeldi og ekki er gerð nægileg krafa um þessa sérþekkingu til matsmanna. Í matsgerðum forsjármála er ofbeldi oft slegið út af borðinu líkt og um sakamál væri að ræða með því að miða við þá ströngu kröfu um sönnun sem gildir í slíkum málum. Afleiðingar ofbeldis á börn eru hvergi metnar, þar af leiðandi er hagsmuna þeirra ekki gætt nægilega og niðurstaða dómsins reynist barninu skaðleg.
Réttast væri að mat á ofbeldishættu og ofbeldi væri sett í forgang í sérfræðimati í forsjármálum og að áhrif þess á barnið væri ávallt kannað. Samkvæmt ACE rannsókninni geta áföll og erfiðleikar í æsku haft í för með sér varanleg skaðleg áhrif á heilsu, lífsgæði og tækifæri barna til þroska. Áhrif streitunnar sem fylgir ofbeldi í æsku geta skaðað heilaþroska barna og þar með haft neikvæð áhrif á allt þeirra líf til frambúðar. Það að ákvarðanir dómstóla séu litaðar af hugmyndum um að mæður sem greina frá ofbeldi segi ósatt og að börnum sé ávallt fyrir bestu að vera í umgengni við báða foreldra gerir það að verkum að börnum er beinlínis beint inn í aðstæður sem rannsóknir sýna að eru þeim skaðlegar, sem er ekki forsvaranlegt með neinum hætti.
Þegar horft er til þess að heilbrigðisvísindin eru komin miklu lengra í að viðurkenna þekkingu á afleiðingum ofbeldis á börn en mat sálfræðinga í forsjármálum gefur til kynna er ekki hægt annað en að spyrja: Er réttarkerfið yfir höfuð í stakk búið til að gæta hagsmuna barna í forsjármálum?
Höfundar hafa báðar sérfræðimenntun í sálfræði.
Athugasemdir