Þrautin 288. leynist á þessum hlekk.
***
Fyrri aukaspurning:
Hver er maðurinn á myndinni hér að ofan?
***
Aðalspurningar:
1. Hversu margar eru fullorðinstennurnar í manneskju? (Þessi spurning hlaut að koma. Hún hefur þá að minnsta kosti verið afgreidd að eilífu!)
2. Torquay heitir smábær á Englandi, vinsæll sumarleyfisstaður við Ermarsund. Bærinn er að öðru leyti ekki mjög þekktur en þar gerðist þó ein allra rómaðasta sjónvarpssería sem Englendingar hafa gert og hóf göngu sína 1975. Reyndar sást nú lítið af bænum Torquay í seríunni, því mestallt besta grínið fór fram innandyra. Hvað hét þessi sería?
3. Hver lék aðal karlhlutverkið í þessari seríu?
4. Hver er eini tónlistarmaðurinn sem fengið hefur Nóbelsverðlaun í bókmenntum?
5. Hvað gerði Alexander Fleming sér til frægðar?
6. Skáldsögurnar Dægurvísa, Snaran og Lifandi vatnið voru allar lagðar fram sem framlag Íslands til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1965, 1968 og 1974. Hver skrifaði þær?
7. Kelly McGillis lék árið 1986 aðal kvenrulluna í afar vinsælli amerískri bíómynd. Nú bíður hins vegar frumsýningar framhald þessar myndar, og svo bregður við að þótt aðal karlinn úr fyrri myndinni endurtaki hlutverk sitt í þeirri nýju 35 árum síðar, þá þykir Kelly McGillis orðin of gömul til að fá hlutverk í framhaldsmyndinni! Hvað hét þessi fræga fyrri mynd?
8. Hvar er hið fræga Steinasafn Petru?
9. Hver lék Rachel Green?
10. Hvaða eldstöð er undir Mýrdalsjökli?
***
Seinni aukaspurning:
Hvaða dýr er á myndinni hér að neðan? Svarið þarf ekki að vera hárnákvæmt.

***
Svör við aðalspurningum:
1. 32. Ekki skal taka neitt tillit til fjölskylduþjóðsagna um að afi (eða amma) hafi haft 36 tennur eða eitthvað. Rétt svar er 32 og ekkert annað.
2. Hótel Tindastóll eða Fawlty Towers.
3. John Cleese.
4. Bob Dylan.
5. Fann pensillín.
6. Jakobína Sigurðardóttir.
7. Top Gun.
8. Stöðvarfirði.
9. Jennifer Aniston.
10. Katla.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti.
Á neðri myndinni er lemúr af tegund sem heitir á ensku ringtailed lemur og þýtt hefur verið sem hringrófulemúr. Helsta sérfræðingi íslenskra fjölmiðla í lemúrafræðum (Veru Illugadóttur) þykir hins vegar heitið kattalemúr betra, enda heitir lemúrinn „lemur catta“ á latínu. Eindregið skal tekið undir það hér. Hins vegar er alveg nóg í þessu tilfelli að segja bara lemúr.
***
Athugasemdir