Það fór kannski ekki mjög hátt innan um heimsfréttir af covid-faraldrinum eða uppátækjum Donalds Trumps en á síðasta ári fékk nýtt afbrigði af bláu opinbert vísindalegt samþykki. Liturinn, sem kallast „YInMn blár“, er fyrsti „nýi“ blái liturinn sem finnst í meira en 200 ár, eða síðan kóbalt blár var uppgötvaður árið 1802.

Það voru vísindamenn við háskólann í Oregon í Bandaríkjunum sem uppgötvuðu YInMn bláan af tilviljun, þegar þeir voru að þróa efni til notkunar í rafeindatækjum.
Blanda frumefnanna yttrium, indium og manganese (svona eru nöfnin altént skrifuð á ensku) reyndist svo ljómandi fallega blá á litinn og Mas Subramanian, leiðtogi vísindahópsins í Oregon, sagði síðar í viðtali að hópurinn hefði strax þóst vita að hann hefði „rambað á eitthvað nýtt“.
Það voru raunar Subramanian sjálfur og þáverandi aðstoðarmaður hans, Andrews E. Smith, sem fundu litinn, að sögn Wikipediu-síðu litarins.

„Fólk hefur verið að leita að góðum og endingargóðum bláum lit í tvær aldir,“ sagði Subramanian í áðurnefndu viðtali. Nýi liturinn er ólífrænn, sem kallaður er, sem í efnafræðilegum skilningi þýðir fyrst og fremst að hann er án kolefnis.
Menn hafa beðið spenntir eftir því að fá að nota litinn og í maí á síðasta ári gaf Umhverfisstofnun Bandaríkjanna litnum langþráða blessun sína.
Því var loksins hægt að fara að þróa málningu í YInMn bláum.
Í blaðinu Coatings World lýstu málningarmenn fögnuði sínum, enda væri YInMn mun bjartari og líflegri litur en til dæmis kóbalt blár eða prússneskur blár.
Málningaframleiðendur bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum munu búnir að senda á markað vöru sína í YInMn bláum.
Nú er að sjá hvaða myndlistarmenn verða fyrstir til að nota litinn. Á myndinni hér að neðan má sjá Subramanian með litinn góða. Hann klæðist að sjálfsögðu blárri skyrtu.

Athugasemdir