***
Þessi þraut snýst öll um kónga og drottningar og þess háttar fólk, þau sem nú sitja, hér og þar um heiminn. Fyrri aukaspurning:
Hvað heitir karlinn til hægri á myndinni?
***
1. Hvað heitir konungur Noregs?
2. Innan landamæra Frakklands í suðri er lítið sjálfstætt erfðaríki. Þar situr svonefndur fursti. Hvað heitir sá fursti sem nú situr? Hér þarf aðeins nafnið hans, ekki númerið. Slíkt er raunin um allar spurningar hér.
3. Í öðru Evrópulandi situr stórhertogi í hásæti sem þjóðhöfðingi. Hvaða land er það?
4. Hvað heitir drottning Danmerkur?
5. Vilhjálmur Alexander heitir kóngurinn í Evrópulandi einu. Hvaða land er það?
6. Frá Spáni berast nú margar fréttir um margvísleg vandræði sem fyrrverandi kóngur, Jóhann Karl, er lentur í. Hann sagði af sér 2014 og sonur hans tók við. Hvað heitir sá núverandi kóngur Spánar?
7. Svo skemmtilega vill til að kóngurinn í öðru Evrópulandi heitir sama nafni og kóngurinn á Spáni, þótt það sé reyndar ekki stafsett alveg eins. Í hvaða Evrópulandi situr þessi nafni spænska kóngsins?
8. Kóngur nokkur ber hið opinbera embættisheiti Phrabat Somdet Phra Vajira Klao Chao Yu Hua, en er yfirleitt bara kallaður Vajiralongkorn. Hann er talinn vera ríkasti kóngur í heimi, töluvert ríkari en Elísabet Bretadrottning. Í hinu fjölmenna ríki hans er bannað með lögum að gagnrýna kónginn. Í hvaða landi ríkir Vajiralongkorn?
9. Í Afríku er eitt ríki þar sem enn er einveldi konungs. Kóngurinn heitir Mswati og er frægur fyrir íburð og bruðl, og ekki síður fyrir fjölda eiginkvenna en þegar síðast fréttist átti hann 15 slíkar. Í hvaða landi ríkir Mswati? Tekið skal fram að ríki hans skipti fyrir ekki löngu um nafn en hér má nota bæði gamla og nýja nafnið.
10. Hvað er fjölmennasta ríki heimsins sem enn er erfðaríki?
***
Síðari aukaspurning:
Þessi maður, Jigme Khesar Namgyel Wangchuck, er konungur í litlu og fjöllóttu landi í Asíu. Það er aðeins um einn þriðji af stærð Íslands og ber ekki mikið á því milli voldugra nágranna. Formlegur titill þessa fertuga þjóðhöfðingja er „drekakonungurinn“ og hann situr í höfuðborginni Thimpu. Í hvaða landi ríkir drekakonungurinn?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Haraldur.
2. Albert (fursti í Monaco).
3. Luxemburg.
4. Margrét.
5. Hollandi.
6. Felipe eða Filippus.
7. Belgíu (þar er kóngurinn Philippe eða Filippus).
8. Thaílandi.
9. Swazilandi eða Eswatini.
10. Japan.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni má sjá Filippus (vinsælt nafn í konungsættum!) eiginmann Elísabetar drottningar.
Drekakóngurinn á neðri myndinni ríkir í Bhutan.
***
Athugasemdir