Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst gefa út reglugerð í dag sem gerir fólki sem kemur til landsins skylt af fara í tvöfalda skimun vegna Covid-19. Val um að fara í fjórtán daga sóttkví þess í stað verður afnumið.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áður lagt til að þessi háttur verði hafður á, til að minnka líkur á að smit berist inn í landið. Að mati heilbrigðisráðuneytisins stóð hins vegar ekki lagastoð til þess að svo væri hægt að gera. Við því virðist Svandís því vera að bregðast nú.
Í frétt Vísis um málið er haft eftir Svandísi að stjórnvöld teldu nú að lagaheimildir væru fyrir setningu reglugerðarinnar, sem væri neyðarúrræði.
Ástæðan fyrir ákvörðuninni er fjöldi brota á fjórtán daga sóttkví og vaxandi alvarleiki í útbreiðslu veirunnar erlendis. Mikill fjöldi smita hefur greinst á landamærunum að undanförnu, þar á meðal af hinu svokallaða breska afbrigði sem er sagt mun meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Allir sem til landsins koma munu þurfa að sæta reglunum, utan þeir sem geta stutt það með læknisfræðilegum rökum að þeir þurfi undanþágu.
Athugasemdir